Fréttir

Tækifæri Norður-Atlantshafsins – Matís þátttakandi á NORA ráðstefnu í Reykjavík

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 18.-19. maí fer fram ráðstefna á Hilton Reykjavík Nordica Hotel á vegum Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA).

Tilgangur þessarar ráðstefnu er að skoða og kanna möguleika á samstarfi á milli aðila sem eiga með einum eða öðrum hætti hagsmuni að gæta í Norður-Atlantshafi. Rannveig Björnsdóttir mun þar flytja erindi en eins mun Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, stjórna einni málstofu ráðstefnunnar.

Dagskrá ráðstefnunnar má finna hér.

NORA eða Norræna Atlantsnefndin heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og telst vera hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamvinnu. Hið norræna samstarfsumhverfi og hið verkefnamiðaða starf skapar NORA góðan grundvöll að samstarfi milli landa, byggt á norrænum markmiðum og gildum.

Starfsemi NORA er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og framlagi frá þátttökulöndunum fjórum, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi og Noregi.

Í NORA-nefndinni sitja þrír meðlimir frá hverju þátttökulandanna, en nefndin mótar stefnu fyrir starfsemi NORA til nokkurra ára í senn.

Aðalskrifstofa NORA er staðsett í Þórshöfn í Færeyjum. Í hinum aðildarlöndunum, Íslandi, Grænlandi og Suður-Noregi og Vestur- og Norður-Noregi starfa landsskrifstofur og tengiliðir.

NORA leggur sitt af mörkum til að styrkja samstarf á Norður Atlantssvæðinu til að gera það að kröftugu norrænu svæði, sem einkennist af sterkri og sjálfbærri þróun. Það gerist m.a. með því að styrkja samstarf milli atvinnulífs og rannsókna- og þróunarstarfsemi þvert á landamæri.

Það er því verkefni NORA:

  • að skapa pólitískan og faglegan vettvang fyrir umræðu um lausnir og stefnumótun og sameiginlegt frumkvöðlastarf á Norður-Atlantssvæðinu.
  • að koma á fót og hafa milligöngu um verkefnasamstarf
  • að starfa að þróun í samræmi við norræn markmið um sjálfbærni.
  • að þróa NORA sem aðlaðandi vettvang fyrir norræna samvinnu við nágrannalöndin.
IS