Fréttir

Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis ehf.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

FRÉTTATILKYNNINGNýsköpunarsjóður Atvinnulífsins fjárfestir í Kerecis

Ísafjörður / Reykjavík, 4. Janúar 2010─ Lækningavörufyrirtækið Kerecis ehf. og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins (NSA) tilkynntu í dag um undirritun fjárfestingarsamnings. Samningurinn var undirritaður þann 30.12.2009. Samkvæmt samningnum mun NSA kaupa 35% í Kerecis í formi hlutafjár og jafnframt veita fyrirtækinu lán með breytirétti. Fjárfestingin verður í nokkrum áföngum næstu 12 mánuði og eru áfangagreiðslur háðar framgangi þróunarverkefna Kerecis.

Kerecis ehf. fæst við rannsóknir, vöruþróun og framleiðslu á lækningavörum unnum úr fiskipróteinum. Vörur fyrirtækisins eru til notkunar á sjúkrahúsum til meðhöndlunar á vefjasköðum. Vörur og tækni fyrirtækisins eru á þróunarstigi og er skráning á einkaleyfum hafin til að verja tækni félagsins. Starfsmenn og stofnendur Kerecis hafa áralanga reynslu í þróun á lækningavörum og klínískri þróunar– og prófunarvinnu.

Markaður fyrir lækningavörur („medical devices“) á heimsvísu er geysistór og hafa nokkrir íslenskir aðilar haslað sér völl á þessum markaði og má þar nefna Össur hf, Mentis Cura, Nox Medical, Oxymap, Kine og fyrirtækið Primex. Kerecis mun einbeita sér að vöruþróun fyrir þann hluta lækningavörumarkaðarins sem snýr að meðhöndlun á sköðuðum vef („tissue engineering“).

Ummæli:
Dr. Baldur Tumi Baldursson, læknir, meðstofnandi og yfirmaður lækningasviðs Kerecis:
Tækni Kerecis byggir á hagnýtingu á próteinum úr fiski til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Frumathuganir félagsins benda til þess að tæknin henti mjög vel til meðhöndlunar á vefjaskemmdum í mönnum og með aðkomu Nýsköpunarsjóðs komum við til með að geta hleypt af stokkunum klínískum prófunum á vörum okkar strax í upphafi árs 2010.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdarstjóri, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins:
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að fjárfesta í fyrirtæki einsog Kerecis.  Við höfum mikla trú á fyrirtækinu þarna koma saman reyndir stjórnendur og góðir vísindamenn sem sjá markaðstækifæri í fyrir lækningarvöru byggða á íslenskri þekkingu og íslensku hráefni.

Það er okkar von að þetta verði upphafið að farsælu samstarfi við Kerecis og að fjárfesting Nýsköpunarsjóðs í fyrirtækinu hjálpi til við að skapa verðmæt störf, afla gjaldeyris og skili góðri ávöxtun til sjóðsins.

Um Kerecis ehf.
Kerecis ehf. (www.kerecis.is) er þróunar- og framleiðslufyrirtæki á sviði lækningavara og byggir tækni sína á próteinum unnum úr fiski. Fyrirtækið vinnur í náinni samvinnu við heilbrigðisstéttir og vinnur að þróun á tækni til meðhöndlunar á sköðuðum vef. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Tækniþróunarsjóð, Matís og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

Um Nýsköpunarsjóð
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (www.nsa.is) er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður er óháður fjárfestingarsjóður í eigu íslenska ríkisins. 

Frekari upplýsingar:
Guðmundur F. Sigurjónsson
Stjórnarformaður Kerecis ehf.
Sími 8494960
gfsigurjonsson@kerecis.com

Helga Valfells
Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins
Kringlunni 7, 103 Reykjavík 
sími / tel: 510 1800 fax: 510 1809   
gsm nr.: 861 0108  
helga@nsa.is
www.nsa.is

IS