Fréttir

Grein eftir starfsmenn Matís í Food Chemistry

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega birtist grein í ritrýnda tímaritinu Food chemistry um andoxunarvirkni íslenskra sjávarþörunga (Tao Wang, Rósa Jónsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir. 2009. Total phenolic compounds, radical scavenging and metal chelation of extracts from Icelandic seaweeds. Food chemistry, 116, 240-248).

Um er að ræða niðurstöður úr verkefninu Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources) sem AVS sjóðurinn styrkir.

Þörungar innihalda m.a. fjölfenól sem hafa mikla lífvirkni, m.a. andoxunarvirkni. Fyrir tveimur árum var mörgum þörungategundum safnað, heildarmagn fjölfenóla ákvarðað og andoxunarvirkni þeirra metin með nokkrum andoxunarprófum (antioxidant assays). Brúnþörungunum bóluþangi, hrossaþara, marinkjarna, sagþangi og stórþara var safnað, einnig sölvum og fjörugrösum sem eru rauðþörungar og maríusvuntu sem er grænþörungur. Í ljós kom að mesta magn fjölfenóla fannst í brúnþörungunum, sérstaklega í bóluþangi og mikil fylgni var á milli magns fjölfenóla og andoxunarvirkni þörunganna. Fyrstu vísbendingar sýna einnig að bóluþang hafi blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) en þetta þarf að skoða nánar.

Út frá þessum niðurstöðum var ákveðið að safna meiru af bóluþangi og sölvum og rannsaka enn frekar. Næsta grein úr verkefninu er tilbúin til birtingar en hún fjallar eingöngu um söl og einangrun þráahindrandi efna úr þeim.

Nánari upplýsingar veitir Rósa Jónsdóttirrosa.jonsdottir@matis.is

IS