Fréttir

Samanburður á hagkvæmni mismunandi flutningaferla

Útflutningsleiðir ferskra fiskafurða hafa að miklu leyti ráðist af geymsluþoli þeirra.  Stór hluti afurðanna hefur verið fluttur út með flugi til að lágmarka flutningstíma frá framleiðenda til neytanda en vegna efnahags- og umhverfissjónarmiða hafa framleiðendur í auknum mæli beint sjónum sínum að skipaflutningi á síðastliðnum árum. 

Það er því mikilvægt að leita leiða til að lengja geymsluþol ferskra afurða, m.a. með því að endurbæta umbúðir og bæta hitastýringu í öllu ferlinu frá veiðum til neytenda.   En það er fleira en beinn flutningskostnaður og vaxandi umhverfisvitund í heiminum, sem spilar inn í samkeppni skipa- og flugflutninga.  Niðurstöður AVS verkefnanna Hermunar kæliferla og Samþættingar kælirannsókna hafa nefnilega bent til greinilegs munar á stöðugleika hitastýringar í skipa- og flugflutninga, fyrrnefnda flutningsmátanum í vil. Rannsóknin er einnig hluti af EU-verkefninu Chill-on (FP6- 016333-2).

Hitasíritar utan á frauðplastkassa til hitakortlagningar kælikeðja. 

Í yfirstandandi tilraun er nákvæmur samanburður gerður á þeim hitasveiflum, sem afurðir verða fyrir við flutning  frá Dalvík til Bremerhaven, með flugi annars vegar og skipi hins vegar.  Hita- og rakastig gegnum flutningakeðjuna er kortlagt með 24 – 29 síritum utan og innan í kössum hverrar sendingar og fæst þannig heildstæð mynd af því hitaálagi, sem umbúðir verða að vera færar um að verja þessa dýrmætu vöru fyrir.  Samfara þessu eru breytingar á gæðum metnar.  Lagt verður mat á flutningskostnað og geymsluþol afurða og þær niðurstöður notaðar til að fá vísbendingar um kosti og galla hvors flutningsmáta.

IS