Á Matís er að hefjast vinna við verkefni sem ber heitið: “Lífvirk bragðefni unnin úr íslensku sjávarfangi”. Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi til þriggja ára og verður unnið með fyrirtækinu Norðurbragði ehf. sem er stærsti framleiðandi bragðefna úr sjávarfangi á Íslandi.
Framleiðsla ýmissa bragðefna er mjög umfangsmikil á heimsvísu. Tiltölulega fá fyrirtæki framleiða hinsvegar bragðefni úr sjávarfangi í einhverju verulegu magni. Eitt fyrirtæki á Íslandi, Norðurbragð ehf., hefur skapað sér sérstöðu á þessum markaði með því að framleiða náttúruleg bragðefni úr íslensku sjávarfangi, þar sem engum aukaefnum er bætt út í. Eftirspurn eftir náttúrulegum bragðefnum hefur aukist mikið og er talið að hún muni aukast enn meir á næstu árum.
Bragðefni úr sjávarfangi hafa eingöngu verið seld í þeim tilgangi að gefa af sér gott bragð og bragðaukandi áhrif í ýmsum matvælum. Bragðefni unnin með ensímum á þann hátt sem Norðurbragð framleiðir, eru í raun hýdrólýsöt, eða niðurbrotin fiskprótein. Rannsóknir síðustu ára hafa sýnt að hýdrólýsöt úr hinum ýmsu fisk, krabba og lindýrategundum geta borið með sér mikla lífvirkni og geta verið mjög heilsusamleg. Hin hefðbundna skýring á heilnæmi sjávarfangs hefur nær alltaf snúið að omega-3 fitusýrum, en nýlegar rannsóknir benda til þess að það er gnægð annarra efna sem leggja af mörkum við heilnæmi sjávarfangs, þar á meðal prótein og peptíð þeirra. Það er því góðar líkur á að bragðefni unnin úr sjávarfangi hafi svipuð áhrif og hýdrólýsöt, en þetta er ókannað. Slíkar niðurstöður myndu gefa algjörlega nýja sýn á bragðefni unnin úr sjávarfangi, og gæti haft mjög jákvæð áhrif á sölu og framleiðslu þeirra sem myndi skila sér í betri nýtingu aukaafurða og vannýttra tegunda og auknum virðisauka til sjávarútvegsins.
Markmið verkefnisins er að rannsaka og skima fyrir margskonar lífvirkni bragðefna sem unnin eru úr íslensku sjávarfangi. Skimað verður fyrir andoxunarvirkni, blóðþrýstingslækkandi áhrifum, kólesteróllækkandi áhrifum, krabbameinslækkandi áhrifum og ónæmisstýrandi áhrifum. Þessar rannsóknir verða gerðar í náinni samvinnu við Matvæla- og Næringarfræðideild University of Florida og Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Niðurstöður þessa verkefnis er ætlað að efla fyrirliggjandi markað fyrir íslensk náttúruleg bragðefni úr sjávarfangi og þróa nýjan og mun arðbærari markað fyrir þær. Stjórnandi verkefnisins er Dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri Lífefnadeildar Líftæknisviðs Matís-Prokaria.