Fréttir

Nýr búnaður til neðansjávarmyndatöku hjá Matís á Ísafirði

Unnið hefur verið að því að bæta tækjabúnað hjá Matís á Ísafirði. Á Vestfjörðum er mikil áhersla lögð á fiskeldi, einkum þorskeldi í sjó og þar stundar Matís öflugt rannsóknar- og þróunarstaf í góðu samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Matís stefnir að því að verða leiðandi á sviði umhverfisrannsókna í tengslum við fiskeldi, enda er nauðsynlegt að fylgjast með álagi á umhverfið af völdum fiskeldis. Nú er verið að taka í notkun búnað hjá Matís á Ísafirði, til að taka kvikmyndir neðansjávar.

Vitað er að eldisfiskur nýtir ekki allt það fóður sem honum er gefið og safnast það þá fyrir á sjávarbotni og getur valdið mengun. Einnig er vitað að þorskur hrygnir í sjókvíunum og því er líklegt að frjóvguð hrogn berist út í umhverfið, þótt ekki hafi ennþá verið sýnt fram á neikvæða blöndun erfðaefnis. Að hindra hrygningu í sjóeldiskvíum væri því mjög mikilvægt skref í þá átt að gera eldi að umhverfisvænum iðnaði með bættri nýtingu fóðurs sem leiðir til þess að minna fóður fellur til botns undir kvíum

Búnaðurinn gerir það kleift að fylgjast nákvæmlega með samspili, atferli fiska og umhverfi í fiskeldistilraunum Matís í Álftafirði. Hægt verður að skoða myndirnar í tölvu úr fjarlægð. Búnaðurinn opnar einnig nýja möguleika svo sem að fylgjast með hliðarbúgreinum eins og kræklingarækt í nágrenni fiskeldiskvíanna.

Búnaðurinn var keyptur í samstarfi við Hafrannsóknastofnun annars vegar og hins vegar Álfsfell ehf sem er fyrirtæki í þorskeldi. Rannís veitti styrk til kaupanna.

Á myndinni má sjá Dr. Þorleif Ágústsson, verkefnastjóra hjá Matís á Ísafirði, með neðansjávarmyndavélina.

IS