Fréttir

Þorskeldisrannsóknir komnar á fulla ferð

Á Ísafirði er mikill uppgangur í rannsóknum tengdum þorskeldi og hefur verið ákveðið að halda fund um ný og umfangsmikil verkefni sem hlotið hafa styrki að undanförnu. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra mun setja fundinn en hann hefst miðvikudaginn 21. júní nk. kl. 9:30

Á Ísafirði eru áherslur í fiskeldi á lífeðlisfræði þorsks og þá fyrst og fremst á kynþorska og áhrif ljósastýringar á vöxt, kynþroska og gæði eldisþorsks. Sjónum er einnig beint að erfðaþáttum sem tengja má lífeðlisfræðilegum þáttum á borð við vöxt og gæði afurða.

Fjögur ný rannsóknaverkefni tengd þróun iðnaðarvædds þorskeldis í tilraunaeldiskvíum í Ísafjarðardjúpi, hafa nýverið hlotið styrk úr innlendum og erlendum sjóðum.

Í verkefnunum verða m.a. rannsökuð áhrif ljósastýringar og er megin markmið þessara rannsókna að seinka eða koma í veg fyrir ótímabæran kynþroska sem er mikið vandamál við eldi á þorski. Heildarvelta þessara verkefna að meðtöldu framlagi þátttakenda í verkefnunum er rúmlega 300 m.kr og er velta (umfang) fyrir vestan alls um 103 m.kr. Styrkir frá rannsóknasjóðum til verkefnanna nema alls um 155 m.kr og þar af fara um 50 m.kr beint til reksturs verkefnanna á Ísafirði. Í vestfirsku þorskeldiskörfunni munar mikið um styrk frá Evrópusambandinu sem er í heild um 93 m.kr. Hlutur íslensku þátttakendanna í styrkveitingunni er umtalsverður, eða um 34 m.kr. Tveir þorskeldis-framleiðendur með eldiskvíar í Álftafirði taka þátt í því verkefni, þ.e. Hraðfrystihúsið Gunnvör hf og Álfsfell ehf.

Sýnataka úr kvíTekin blóðsýni úr þorski
Unnið við sýnartökur úr eldiskvíum á ÁlftafirðiDr. Þorleifur Ágústsson tekur blóðsýni úr lifandi eldisþorski

Vegna þessara miklu uppbyggingar á þorskeldisrannsóknum þá hefur Jón Gunnar Schram, MS í sjávarútvegsfræði verið ráðinn til starfa hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins á Ísafirði. Jón Gunnar tekur til starfa 1. júlí, en auk hans starfar Dr. Þorleifur Ágústsson hjá fiskeldisdeild Rf á Ísafirði.

Rannveig Björnsdóttir deildarstjóri fiskeldisdeildar Rf og lektor við Háskólann á Akureyri er ásamt Þorleifi leiðbeinandi nemanda í rannsóknartengdu meistaranámi sem kemur að þorskeldisrannsóknum í Ísafjarðardjúpi. Hlutverk nemanda er þróun aðferða og mælingar á áhrifum ljósastýringar á vöxt þorsks í samvinnu við Dr. Björn Þránd Björnsson prófessor við háskólann í Gautaborg. Björn Þrándur, er einn helsti sérfræðingur í Evrópu á sviði fiskalífeðlisfræði og hefur hann jafnframt verið ráðinn í hlutastöðu hjá Rf, og mun hann taka þátt í stefnumótun Rf á þessu sviði.

Sjá dagskrá fundarins

IS