Fréttir

Stýring á kælikeðjunni til umræðu í Bonn

Tveggja daga ráðstefna um stýringu á kælikeðju matvæla var nýlega haldin í Bonn í Þýskalandi og var dr. Guðrúnu Ólafsdóttur, matvælafræðingur á Rf á meðal fyrirlesara. Nýjungar um merkingar og mælingar fyrir viðkvæm matvæli sem segja til um hitastig og tímaálag vöru voru meðal annars kynntar.

Hugmyndin að baki Stýringar á kælikeðjunni (Cold Chain Management) er ekki er alveg ný af nálinni. Matvæli, lyf og fleiri vörur sem þarf að geyma kældar eða frosnar innan mjög strangra hitamarka falla t.d. undir þennan vettvang.

Stjórnun á hitastigi og tíma eru þeir þættir sem mestu máli skipta til að tryggja gæði og geymsluþol á viðkvæmri vöru eins og fiski. Með auknum flutningum og lengri dreifileiðlum er í síauknum mæli lögð áhersla á að hægt sé að tryggja lágt hitastig vöru.

Á ráðstefnunni var m.a. fjallað um þróun á örveruspálíkönum og “Smart label” merkingum til að segja fyrir um geymsluþol og öryggi matvæla. Fyrir neytandann eru komnar á markað merkingar svokallaðir TTI (time temperature indicators) sem geta gefið upplýsingar um hita og tímaálag vöru og RFID (Radio Frequency Identification) merkingar eru að ryðja sér til rúms.

Guðrún kynnti rannsóknir sem tengjast Ph.D. – verkefni hennar á ráðstefnunni í Bonn um notkun rafnefs sem fljótvirkrar mæliaðferðar til að meta gæði fisks. Ráðstefnurit var gefið út með þeim erindum sem flutt voru.

Nánari upplýsingar: Guðrún Ólafsdóttir, s: 530 8647 gudrun@rf.is

IS