Fréttir

Lengi von á einum: Tvær skýrslur á Rf

Nýlega komu út tvær skýrslur á Rf, þar sem birtar eru niðurstöður tilrauna sem gerðar voru á Rf fyrir 12-15 árum, en hafa ekki verið birtar áður. Ástæðan fyrir því að þær eru grafnar upp núna er að niðurstöður þessara tilrauna nýtast nú í verkefnum sem unnið er að á Rf um þessar mundir.

Á Rf hafa um áratugaskeið verið stundaðar rannsóknir á sjávarfangi, og hefur því safnast saman mikil þekking á þessu sviði á stofnuninni. Oftar en ekki nýtast þessar rannsóknir beint, eru m.ö.o. hagnýtar rannsóknir, en stundum skapst þekking sem nýtist ekki fyrr en jafnvel löngu seinna.

Sem fyrr segir voru tilraunirnar, sem liggja að baki áðurnefndum skýrslum, gerðar fyrir um 12 -15 árum en niðurstöður þeirra hafa ekki birst fyrr. Báðar skýrslurnar eru á ensku og nefnist sú fyrri Microbiological changes during storage of lumpfish caviar (Rf skýrsla 02-06) og sú seinni Microbiological changes during storage of salted cod fillets (Rf skýrsla 04-06).

Í fyrrnefndu skýrslunni eru birtar niðurstöður þar sem áhrif gerilsneyðingar, saltstyrks, geymsluhita og bensóats á vöxt ýmissa örveruhópa í grásleppuhrognakavíar voru könnuð. Í síðarnefndu skýrslunni eru hins vegar birtar niðurstöður tilrauna þar sem söltuð þorskflök með um 20% saltinnihaldi voru geymd við 5°C í 330 daga og fylgst var með breytingum á örverufjölda og efnavísum yfir geymslutímann.

Niðurstöðurnar tengjast bæði vöruþróunarverkefni um nýtingu loðnuhrogna og nokkrum verkefnum um verkun og vinnslu á saltfiski.

IS