Fimmtudaginn 5. janúar var haldinn fjölmennur fundur í Verinu, nýju Þróunarsetri Hólaskóla, sem staðsett er á Háeyri 1 við höfnina á Sauðárkróki. Tilefni fundarins var að kynna 6 milljón króna styrk sem sjávarútvegs- og iðnaðarráðuneytin hafa veitt til að styrkja rannsóknir á sviði fiskeldis, vinnslu sjávarafla og matvælavinnslu á Sauðárkróki og við Hólaskóla.
Í frétt í Morgunblaðinu s.l. laugardag er haft eftir Einari Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra að “framtíðin sé björt í Skagafirði og Þróunarsetrið á örugglega eftir að geta af sér merkar rannsóknar og uppgötvanir íslenskum sjávarútvegi til hagsbóta.”
Rf starfrækti um langt skeið fjögur útbú á landsbyggðinni og hefur því lengi lagt áherslu á að efla rannsóknir sínar á landsbyggðinni. Þá hefur Rf í seinni tíð lagt aukna áherslu á að efla samstarf við æðri menntastofnanir hvar sem er á landinu.
Í gildi er samstarfssamningur milli Rf og Hólaskóla um rannsóknir og er starfsmaður Rf t.a.m. í hlutastarfi við kennslu í skólanum. Ljóst er að fjárstyrkur ráðuneytanna mun styðja verulega við uppbyggingu Rf í Skagafirði. Í frétt Mbl. segir að fyrirhugað sé að styrkja samstarfið enn frekar með sérstökum samstarfssamningi um rannsóknir og þróun á sviði fiskeldis, náttúruvísinda og matvælavinnslu, þar sem gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eigi aðild að samningi þessum auk, Auk Rf, Hólaskóla og FISK Seafood.
Hér má nálgast nokkrar glærur sem fyrirlesarar á fundinum studdust við, en dagskrá fundarins var eftirfarandi:
1. Ávarp – Einar K. Guðfinnsson, Sjávarútvegsráðherra
2. AVS Rannsóknasjóðurinn – Friðrik Friðriksson
3. Rf á Norðurlandi – Sjöfn Sigurgísladóttir Rf
4. Samstarf FISK hf. við skóla og rannsóknastofnanir – Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri
5. Fiskeldi og rannsóknir hjá Hólaskóla – Helgi Thorarensen, Hólaskóla
6. Fóður og eldi – Rannveig Björnsdóttir Rf og Háskólinn á Akureyri
7. Prótein úr sjávarfangi og endurnýting vatns í fiskeldi – Ragnar Jóhannsson, Rf og Hólaskóla
8. Samstarf og uppbygging á Sauðárkróki, Skúli Skúlason – rektor Hólaskóla