Skýrslur

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu

Útgefið:

01/09/2015

Höfundar:

Rósa Jónsdóttir, Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Halldór Benediktsson, Hilma B. Eiðsdóttir, Karl Gunnarsson, Jóna Freysdóttir

Styrkt af:

Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif umhverfisþátta á magn og lífvirkni fjölfenóla og fjölsykra í þangi og þara. Á þann hátt var stefnt að því til að auka þekkingu á vist- og efnafræði þessara tegunda fyrir hagkvæmari einangrun lífefna, nánari greiningu þeirra og nýtingu til lífvirknimælinga. Sýni af beltisþara, marinkjarna, bóluþangi og klóþangi voru tekin á þremur stöðum á landinu; á norðanverðu Reykjanesi, í Breiðafirði og Eskifirði, alls sex sinnum yfir árið, frá mars til júní, í ágúst og október. Þróuð var aðferð til að einangra fucoidan og laminaran fjölsykrur úr bóluþangi og klóþangi. Heildarmagn fjölfenóla var mælt í öllum sýnum en lífvirkni í völdum sýnum. Auk þess voru þungmálmar og joð mælt í völdum sýnum.

Magn fjölfenóla mældist hátt í bóluþangi og klóþangi en lítið í marinkjarna og beltisþara. Andoxunarvirkni, mæld sem ORAC og í frumukerfi, var mikil í þeim sýnum sem innihéldu mikið magn fjölfenóla. Bóluþang og marinkjarni sýndu bólguhemjandi virkni.

Niðurstöður verkefnisins auka verulega við þekkingu á sviði nýtingar þangs og þara. Nýtast þær vel við þróun á vinnslu þangs til manneldis sem nú stendur yfir.

Skoða skýrslu