Ritrýndar greinar

Sindraskel (Ensis terranovensis) – nýr landnemi í sjó við Ísland

Höfundar: Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sæmundur Sveinsson, Joana Micael, Sindri Gíslason

Útgáfa: Náttúrufræðingurinn

Útgáfuár: 2024

Samantekt:

Á GAMLÁRSDAG 2020 fundust óvænt nokkrar tómar hnífskeljar (fylking lindýra, Mollusca, flokkur samloka, Bivalvia) í fjöru innst í Hvalfirði. Skeljarnar draga nafn af útlitinu og eru langar, allt að 24 cm, mjóar, þunnar og beittar, og líkjast helst gamaldags rakhnífum. Fyrir fundinn var ekki vitað til þess að áður hefðu fundist hnífskeljar við Ísland, ef frá er talinn fundur tveggja dauðra fáfnisskelja (Ensis magnus) árið 1957 í fjöru í Lónsvík skammt frá bænum Hvalnesi. Eftir fundinn 2020 fannst í febrúar 2021 lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Í kjölfar vettvangsferða höfunda og kynningu fyrstu rannsóknarniðurstaðna á Líffræðiráðstefnu haustið 2021, sem leiddu til umfjöllunar í fjölmiðlum um fundina, bárust fleiri tilkynningar um fundi bæði lifandi og dauðra hnífskelja. Þar á meðal í Kollafirði í maí 2019 og Leiruvogi í febrúar 2020. Fundust skeljar allt að 20 cm langar. Þegar þetta er ritað hefur skelin aðeins fundist við suðaustanverðan Faxaflóa. Í norðanverðu Atlantshafi eru þekktar átta tegundir hnífskelja. Þær eru líkar í útliti og getur verið erfitt að greina þær að. Niðurstöður erfðagreiningar lifandi eintaka í rannsókninni sem hér um getur staðfesta að um er að ræða tegundina Ensis terranovensis, sem við nefnum „sindraskel“. Tegundin hefur til þessa einungis fundist við Nýfundnaland á austurströnd Norður-Ameríku, og var þar fyrst greind árið 2012. Ísland er því fyrsta landið þar sem sindraskel finnst utan náttúrulegra heimkynna. Hún hefur sennilega borist hingað sem lirfa í kjölvatni flutningaskipa, jafnvel fyrir rúmum tíu árum ef mið er tekið af stærstu eintökunum sem hér hafa fundist og áætluðum vexti skeljanna. Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni fer vaxandi. Þar sem framandi tegundir ná fótfestu geta þær breytt og/eða valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Þess vegna er m.a. mikilvægt að fylgjast með útbreiðslu og lifnaðarháttum sindraskeljarinnar hér við land.