Miðvikudaginn 10. september 2025 ver Andrea Rakel Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sjálfvirkar fjöllitrófs- og myndgreiningar til gæðaeftirlits á sjávarfangi. Automatic multispectral and imaging methods for quality monitoring of seafood.
Andmælendur eru dr. Frosti Pálsson, vísindamaður hjá deCode Genetics, og dr. Silje Ottestad, sérfræðingur hjá Maritech í Noregi.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var María Guðjónsdóttir, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Hafsteinn Einarsson, dósent, Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og verkefnastjóri hjá Matís, og Nette Schultz, Ph.D, Chief Innovation Officer (CINO) hjá Videometer A/S í Danmörku.
Ólafur Ögmundarson, dósent og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.
Ágrip
Sjálfbær nýting sjávarauðlinda er forsenda þess að tryggja framboð á sjávarafurðum til lengri tíma og til að vernda vistkerfi hafsins. Á sama tíma er gæða- og öryggiseftirlit í gegnum alla virðiskeðjuna flókið verkefni, þar sem sjávarafurðir eru viðkvæmar, líffræðilegur fjölbreytileiki mikill og þær eru næmar fyrir umhverfisáhrifum og meðhöndlun. Hefðbundnar aðferðir eins og skynmat, sjónrænt mat og efnagreiningar eru vel þekktar og gagnlegar en þær eru oft tímafrekar, eyðileggja sýnin eða byggja á huglægu mati.
Auknar kröfur um rekjanleika, gagnsæi, gæði afurða og skilvirkari vinnslu kalla á nýjar lausnir sem eru hlutlægar, hraðvirkar og valda ekki skemmdum á sýnum.
Í þessu verkefni var skoðaður möguleikinn á nýtingu myndgreiningartækni, einkum fjöllitrófsmyndgreiningar, í samspili við efnatölfræði, vélrænt nám og djúptauganet, til að sjálfvirknivæða gæða- og eftirlitsverkefni innan sjávarútvegarins. Verkefnið samanstendur af fjórum vísindagreinum sem fjalla um mismunandi notkunarmöguleika þessara tæknilausna: aldursgreining fiskikvarna, hringormagreiningu í hvítfiski, ferskleikamat á heilum þorski, og gæðamat á brúnþörungum.
Niðurstöðurnar sýna að samþætting myndgreiningar og gagnadrifinna líkana býður upp á möguleika til sjálfvirknivæðingar og til að bæta gæða- og eftirlitsferla í sjávarútvegi. Það er ljóst að tæknin býður upp á mikla möguleika til frekari notkunar víðs vegar um virðiskeðju sjávarafurða og opnar þannig tækifæri til frekari rannsókna og þróunar.