Fréttir

Síldarvinnslan er Menntasproti atvinnulífsins 2015

Síldarvinnslan er Menntasproti atvinnulífsins 2015 en úrslitin voru kynnt sl. fimmtudag á Menntadegi atvinnulífsins sem Samtök atvinnulífsins standa að ásamt aðildarfélögum sínum, SFS, SVÞ, SF, SFF, SI, Samorku og SAF.

Menntaverðlaunin eru viðurkenning til fyrirtækja sem lagt hafa áherslu á fræðslu- og menntamál innan sem utan fyrirtækjanna. Síldarvinnslan er vel að viðurkenningunni komin enda áhersla verið lögð á þróunarstarf og nýsköpun til eflingar menntunar og fræðslu.

Matís óskar Síldarvinnslunni hjartanlega til hamingju og er stolt af því að mega kalla sig samstarfsaðila þessa öfluga fyrirtækis.

Illugi Gunnarsson, Hildur Elín Vignir og Gunnþór Ingvason við afhendingu menntasprotans 2015.
Mynd af vef Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, www.sfs.is.

Örfá samstarfsverkefni Síldavinnslunnar og Matís:

og mörg fleiri verkefni. Auk þess nýtir Síldavinnslan sér þjónustu Matís á Neskaupstað.

Fréttir

Athyglisverð skynmatsráðstefna í Noregi í maí 2015

Annað hvert ár eru haldnar á Norðurlöndum ráðstefnur Nordic Sensory Workshop sem fjalla að mestu um skynmat og neytendarannsóknir og hefur Matís  tekið þátt í undirbúningi þeirra. Næsta ráðstefna verður haldin í Osló 11. og 12. maí nk. og ber hún yfirskriftina: Bragð framtíðarinnar (e. A Taste of the Future).

Helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar að þessu sinni verða:

  • Hvað vilja börnin borða? (e. Children and Food Preferences)
  • Heilsusamleg matvæli sniðin að þörfum neytenda (e. Taylor made Healthy Foods)
  • Stefnur í  nýnorrænni matargerð (e. Nordic Food Trends)

Gunnar Karl Gíslason veitingamaður á Dill Restaurant mun halda erindi um hvert ný norræn matargerð stefnir frá sjónarhóli kokksins. Gunnar gaf nýlega út matreiðslubókina North ásamt bandaríska rithöfundinum Jody Eddy. Þema bókarinnar er hin nýja norræna matargerð eins og hún birtist á Íslandi en Dill hefur einmitt verið einn fremsti boðberi þeirrar stefnu hér á landi.

Fólk í matvælaframleiðslu og aðrir sem áhuga hafa á þessu efni eru hvattir til að skrá þátttöku sína sem fyrst.  Nánari lýsing, skráning og dagskrá er á vefsíðu Nofima.

Skynmat og skynmatsrannsóknir hafa lengi verið mikilvæg sérsvið á Matís og hefur áherslan í vaxandi mæli beinst að neytendarannsóknum. Matís hefur tekið þátt í mörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum á þessu sviði og er þátttakandi í evrópskum samtökum European Sensory Network (ESN) sem fjalla um skynmat og neytendarannsóknir.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Mikil tækifæri í matvælaframleiðslu

„Ég sé mikil tækifæri fyrir Íslendinga í matvælaframleiðslu og ég held að við ættum að horfa til þess sem Svíar hafa verið að gera með verkefninu Matlandet Sverige,“ segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra.

Sýn þarlendra stjórnvalda er að Svíþjóð verði hið nýja matarland Evrópu og byggi á sænskum matarhefðum, verðmætri náttúru og menningu, einstöku hráefni og matreiðslumönnum sem náð hafa miklum árangri alþjóðlega. Allt þetta eigum við að geta gert líka. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á aðgerðir til að auka matvælaframleiðslu hér á Íslandi. Þar leggjum við áherslu á útflutning og sérstöðu Íslands þegar kemur að hreinleika og gæðum hráefna.

Með aukinni sjálfbærri og vistvænni matvælaframleiðslu höfðum við til ört stækkandi markhóps bæði hér heima og erlendis. Aukning í innlendri matvælaframleiðslu gefur möguleika á að auka hagvöxt og fjölga störfum. Tækifærin er að finna í matvælavinnslu, útflutningi, ferðaþjónustu og upplifun sem og í landbúnaðinum sjálfum.

Sérstaða okkar þegar kemur að ferskleika matvæla er einstök. Landið er stórt og við höfum aðgang að miklu magni af hreinu vatni. Gott hráefni er undirstaða alls annars í matvælaframleiðslu, og þar er gott að geta treyst á landbúnaðinn og óspillta íslenska náttúru.

Heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum þegar kemur að matvælaframleiðslu og við nýsköpun í matvælaiðnaði er ekki síst mikilvægt að hugsa um gæði matvælanna og matvælaöryggi á sama tíma og reynt er að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Stjórnvöld eiga að huga að því að fjölga matvælaframleiðendum, bæði stórum og smáum og auka veltu þeirra.

Stærsti matvælakaupandinn er hið opinbera og því fylgir mikil ábyrgð. Stefnumörkun stjórnvalda skiptir því miklu máli þegar kemur að hráefniskaupum fyrir þær þúsundir máltíða sem framreiddar eru daglega í skólum, á sjúkrastofnunum og elliheimilum.

Í raun þarf að verða ákveðin vitundarvakning þegar kemur að vali á hráefni auk þess sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að gæta vel að vali og þjálfun starfsmanna við vinnslu og innkaup á matvælum. Einnig þarf að leggja áherslu á fullnýtingu hráefnis og hagræðingu í innkaupum, án þess þó að það komi niður á gæðum máltíðanna.

Matur er og verður stór hluti af upplifun okkar af því að heimsækja önnur lönd. Þetta þurfum við að leggja enn meira áherslu á á Íslandi. Jafnvel má orða þetta svo að sala á innlendum mat til erlendra ferðamanna sé útflutningur, þar sem kaupandinn borgar sjálfur fyrir flutninginn. Frábært dæmi um hvernig menn hafa nýtt innlent hráefni og menningu eru kryddpylsurnar hans Klaus Kretzer, sem hann framleiðir úr kindakjöti í Öræfunum. Pylsurnar hafa slegið í gegn og eru orðnar hluti af upplifun ferðamannsins þegar hann heimsækir Skaftafell og Öræfin. Við þróun á hugmyndinni naut hann aðstoðar frá Matarsmiðju Matís á Höfn. Við þurfum að gera meira af þessu. Því var verkefnið Arctic Bioeconomy sérstakt ánægjuefni en það var hluti af formennskuverkefni Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnið skilaði tæplega 30 nýjum vörum sem voru unnar í samstarfi við Matís sem hefur leitt þennan hluta verkefnis.

Stjórnvöldum ber skylda til að standa vörð um sérstöðu Íslands og orðspor íslenskra matvæla er hluti af því. Við þurfum að styðja við framþróun í þessum geira og það getum við gert með því að styðja við þátttöku Íslendinga í matreiðslukeppnum, gerð íslenskra matreiðslubóka og sjónvarpsþátta og að sjálfsögðu rekstri fjölbreyttrar flóru íslenskra veitingastaða, þannig komum við matnum okkar á framfæri, hvetjum fólk til að sækja landið heim og styðjum við íslenska matvælaframleiðslu.

Ofangreindur texti birtist upphaflega í ársskýrslu Matís fyrir árið 2014.

Fréttir

Nautnir norðursins tilnefndar til Edduverðlauna

Þátturinn Nautnir norðursins er tilnefndur til Edduverðlauna sem besti lífsstílsþáttur ársins 2014 en þátturinn er framleiddur af Sagafilm fyrir RÚV, NRK, YLE og Kringvarp í Færeyjum og er Matís meðframleiðandi þáttanna.

Þættirnir eru styrktir af NORA og Kulturraadet í Noregi, auk atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis.

Ferðalangur er Gísli Örn Garðarsson leikari. Á ferð sinni um Grænland, Færeyjar, Ísland og Noreg hittir hann fjóra kokka frá löndunum fjórum og leiða þau hann í nýjan sannleik um hefðbundna matreiðslu og nýstárlega nálgun á hráefni úr heimahéraði.

Nánari upplýsingar um þættina má m.a. finna á Fasbók síðu þáttanna. Edduverðlaunahátíðin fer fram í Silfurbergi í Hörpu, laugardaginn 21. febrúar nk.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Tvær spennandi vísindagreinar koma út rafrænt í Icel. Agric. Sci.

Nú eru fyrstu tvær greinarnar í hefti þessa árs af Icelandic Agricultural Sciences komnar út á netinu.

Annarsvegar er þetta grein eftir Eyþór Einarsson o.fl. um árangur nýrrar rafrænnar aðferðar VIAscan®) til að meta vöðvahlutfall lamba í sláturhúsum hérlendis og hvernig arfgengi vöðvahlutfalls er háttað í íslenska sauðfjárstofninum. Niðurstöður gefa til kynna að rafrænt kjötmat sé nothæf aðferð við íslenskar aðstæður og að mælingar sem matið skilar megi nýta í kynbótastarfi í sauðfjárrækt hérlendis. Höfundar komu frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökunum og áströlsku rannsókna- og þróunarfyrirtæki.

Hinsvegar er þetta grein eftir Jan Eric Jenssen o.fl. um getu Paenibacillus-stofns, sem einangraður hefur verið úr íslenskum hverum, til að framleiða etanól og önnur hvarfefni úr sykrum eða beint úr vallarfoxgrasi. Etanólframleiðsla stofnsins samsvaraði 250 lítrum á tonnið af vallarfoxgrasi, sem er svipað og ýmsar nýlegar rannsóknir hafa verið að sýna að hægt er að vinna úr lífmassa hveitihálms, sem er aukaafurð í kornrækt erlendis sem áhugi er að nýta í etanólframleiðslu.  Höfundar komu  frá Háskólanum á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Það er nýlunda að greinar í Icel. Agric. Sci. komi formlega út rafrænt um leið og þær eru komnar í gegnum faglega ritrýni. Sú breyting hefur hinsvegar orðið að nú fá allar greinar svokallað rafrænt doi-númer frá alþjóðlega gagnagrunninum CrossRef, sem þýðir að þær eru formlega birtar um leið og þær koma út á netið. Þetta er stór áfangi hjá ritinu og mun auka sýnileika þess enn frekar alþjóðlega og jafnframt auðvelda aðgang erlendra sem innlendra fræðimanna að því.  

Þetta þýðir um leið að nú er óþarft að prenta eintök af ritinu svo að greinar teljist formlega birtar. Það gerir það að verkum að nú mun sá tími styttast verulega sem höfundar þurfa að bíða eftir að þeir senda inn handrit til birtingar þar til að þau koma formlega út. Innan skamms munum við setja  breytingar inn í leiðbeiningar til höfunda á heimasíðu ritsins (www.ias.is) sem taka mið af þessu. Frá og með þessu ári mun ritið því eingöngu koma út í rafrænu formi.

Nánari upplýsingar má finna á www.ias.is.

Fréttir

Fyrirlestrar á vegum Sameinuðu þjóðanna

Ian Goulding, sérfræðingur í fiski, fiskvinnslu og þáttum sem tengjast stjórnun fiskveiða, heldur fyrirlestra í húsakynnum Matís 14. – 18. febrúar nk.

Um er að ræða fjóra hádegisfyrirlestra um mismunandi efni. Fyrirlestrarnir fara fram á ensku og eru þeir ölum opnir. Fyrirlestraröðin er í boði Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna en fyrirlestrarnir eru haldnir í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12.

Fréttir

Matís tekur þátt í enn einu verkefni sem tengist fiskveiðistjórnun í Evrópu

Fyrsta verkefni Matís í nýju Horizon 2020 rannsóknaáætluninni að hefjast. Matís er þátttakandi í nýju 2.7 milljón Evra verkefni sem er fjármagnað af Horizon 2020, nýju rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópu.

Verkefnið, sem er til fjögurra ára, nefnist „Social Science Aspects of Fisheries for the 21st Century“ (skammstafað: SAF21) og er evrópskt mennta-og rannsóknarnet (European Training Network, ETN) en slík verkefni eru partur af Marie Sklodowska Curie öndvegisrannsóknaáætlun Horizon 2020. Upphaf verkefnisins er áfangi fyrir Matís þar sem þetta er fyrsta verkefnið sem Matís tekur þátt í sem er fjármagnað innan Horizon 2020.  

SAF21 er samstarfsnet átta stofnana eða fyrirtækja frá sex löndum sem mun fá til starfa tíu doktorsnema. Nemendurnir munu stunda rannsóknir sem tengjast félags- og vistfræðilegum viðfangsefnum fiskveiðistjórnunar. Þátttakendur tryggja gott samstarf og deila þekkingu í gegnum fjölmörg námskeið og málstofur á verkefnistímanum. Doktorsneminn hjá Matís mun rannsaka hvernig sjómenn aðlagast breytingum á stjórnun veiða og nýjum markaðskröfum með stuðningi hermilíkana. Hann mun hafa aðgang að öllum viðburðum (námskeiðum, málstofum, ráðstefnum og.fl.) innan samstarfsnetsins ásamt því að dvelja hluta af verkefnistímanum hjá öðrum SAF21 þátttakendum.

Verkefnisstjórn er í höndum dr. Melania Borit, Háskólanum í Tromsö (UiT) í Noregi. Aðrir þátttakendur, ásamt íslenskum þátttakendum frá Matís og Háskóla Íslands, eru frá Færeyjum, Bretlandi, Spáni og Hollandi.

Upphafsfundur verkefnisins var haldinn í Kaupmannahöfn föstudaginn 6. febrúar sl. og í kjölfarið mun Matís auglýsa eftir umsækjendum í doktorsnemastöðuna.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá Sigríði Sigurðardóttur, sigridur.sigurdardottir@matis.is

Fréttir

Salmonella-mengun í alifuglum mun sjaldgæfari hér á landi

Tíðni Salmonella-mengun í alifuglafurðum á Íslandi hefur lækkað mjög á síðustu áratugum og er nú svo komið að smit í alifuglaafurðum á markaði á Íslandi er mjög sjaldgæft og mun lægra en þekkist í flestum löndum í heiminum. 

Þetta góða ástand má rekja til góðs árangurs sem náðst hefur með samhentu átaki allra hagsmunaaðila þ.e. alifuglabænda, sláturleyfishafa, eftirlitsaðila, stjórnvalda og neytenda við að tryggja að mengaðar afurðir fari ekki í dreifingu. Til marks um þann góða árangur sem hefur náðst bæði hvað varðar Campylobacter- og Salmonella-mengun í kjúklingaafurðum á markaði má nefna að töluvert umfangsmikil vöktun sem Matís og Matvælastofnun (MAST) stóðu að árin 2012-2013 sýndi ekki fram á nein sýni með Salmonella eða Campylobacter.

Um rannsóknastofu Matís

Vegna fyrirhugaðrar tilnefningar rannsóknastofu Matís sem tilvísunarrannsóknastofu (e. reference laboratory) fyrir ýmsa matarsýkla hófst á sl. ári undirbúningur að uppsetningu sérhæfðra mæliaðferða til greininga á þessum bakteríum. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að koma upp aðferð til mælinga á s.k Shiga toxin myndandi E. coli bakteríum en þær valda hættulegustu sýkingum af völdum baktería úr hópi sjúkdómsvaldandi E. coli baktería. Á undanförnum árum hafa komið upp nokkur sjúkdómstilfelli af völdum þessarar bakteríu hér á landi og er því vissulega orðin þörf á því að kanna útbreiðslu þessa hættulega sýkils í dýrum, afurðum og umhverfi.

Rannsóknastofa Matís hefur á undanförnum árum sérhæft sig í gæða- og öryggismælingum fyrir lyfjaiðnaðinn. Fyrst og fremst hefur verið um að ræða örverumælingar á tilbúnum lyfjum, hráefnum til lyfjagerðar og á umhverfissýnum úr lyfjaframleiðsluumhverfi. Margar af þeim aðferðum sem eru notaðar í þessu sambandi eru sérhæfðar fyrir lyfjaiðnaðinn og í mörgum tilfellum hefur rannsóknastofan þurft að útfæra sérstaklega þessar aðferðir til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru. Sú þekking sem hefur skapast hjá rannsóknastofunni í þessu sambandi hefur reynst ákaflega dýrmæt og lyfjaiðnaðurinn á Íslandi og skyld starfsemi er nú ákaflega þýðingarmikil fyrir starfsemi rannsóknastofunnar.  

Nánari upplýsingar veitir Franklín Georgsson, sviðsstjóri Mælingar og miðlunar hjá Matís.

Fréttir

Okkar rannsóknir – allra hagur

Aukið erlent samstarf einkenndi starfsemi Matís á árinu 2014. Alþjóðleg samvinna víkkar sjóndeildarhringinn, styrkir þekkingu og hæfni starfsmanna og styður við verðmætasköpun í matvæla- og líftækniiðnaði, bæði innanlands og utan. Alþjóðleg verkefni styðja ekki einungis vísindamenn og starfandi fyrirtæki, heldur styrkja einnig byggðaþróun með tilurð afleidds atvinnurekstrar, nýrra starfa og alþjóðlegra viðskiptatengsla fyrir fyrirtæki.

Árið 2014 var ár lífhagkerfisins (e. Bioeconomy). Aldrei fyrr höfum við gert okkur jafn vel grein fyrir mikilvægi vísinda og nýsköpunar þegar tekist er á við þær áskoranir sem fæðuöryggi og sjálfbær nýting lífauðlinda fela í sér. Matís hefur lagt áherslu á bláa lífhagkerfið og leikur lykilhlutverk á því sviði, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.

Í hnattvæddum heimi er alþjóðleg samvinna vísindamanna og fyrirtækja lykillinn að því að auka samkeppnishæfni, skapa stöðug hagkerfi og velmegandi þjóðfélög. Matvælaframleiðsla er einn mikilvægasti þáttur íslensks hagkerfis. Matvælaöryggi gegnir þar lykilhlutverki. Á árinu 2014 átti Matís afar gott samstarf við sjávarútvegs-og landbúnaðarráðuneytið, þýska matvæla-og landbúnaðarráðuneytið og þýsku stofnanirnar BfR og LAVES, ásamt Matvælastofnun, við að byggja upp getu okkar til efnagreining á matvælum, í verkefninu „Örugg Matvæli“.  Verkefnið stuðlar að enn öruggari matvælum á borðum íslenskra neytenda og eykur trúverðugleika íslenskra matvæla um allan heim. Það er mér ánægjuefni að þakka samstarfsaðilum okkar þeirra frábæra framlag og stuðning.

Samstarf við norræna frændur okkar hefur ætíð verið okkur Íslendingum mikilvægt. Ekki síst var það svo á árinu 2014 þegar Ísland skipaði formannsæti í norræna ráðherraráðinu, þar sem lífhagkerfið allt var í brennidepli í formannsverkefninu ”Innovation in the Nordic Bioeconomy“. Tækifæri í lífhagkerfi Norðurslóða voru til umfjöllunar á ráðstefnum sem Matís stóð fyrir, í júní og  í nóvember. Það er mikilvægt fyrir Norðurlönd að vera í fararbroddi á sviði lífhagkerfisins, þegar kemur að því að grípa tækifæri og draga úr áhættum sem stafa af loftslagsbreytingum í okkar heimshluta. Með því að skapa hagstætt umhverfi á þessum svæðum fyrir nýsköpunarfyrirtæki, og þar með að skapa atvinnutækifæri fyrir vel þjálfað og menntað starfsfólk, er stuðlað að auknu verðmæti náttúruauðlinda og auknu fæðuöryggi á heimsvísu, sem hvort tveggja er ofarlega á dagskrá í alþjóðastjórnmálum.


Íslenskir framleiðendur sjávarafurða eru þekktir fyrir gæði, nýsköpun og ábyrga nýtingu auðlinda. Matís er stolt af því að hafa unnið með þeim í gegnum árin við að ná þessum árangri.  Við eigum óhikað að halda áfram öflugri nýsköpun í matvælaframleiðslu en á sama tíma gera okkur grein fyrir mögulegri áhættu samfara nýsköpun og mikilvægi matvælaöryggis. Með slík gildi að leiðarljósi verður mestum árangri náð.

Neytendur nútímans eru upplýstir. Hneyksli tengd matvælaöryggi, aukin menntun og innleiðing samfélagsmiðla hafa breytt umhverfi matvælaframleiðslu til frambúðar. Gera má ráð fyrir að breytingar á því umhverfi muni halda áfram, þegar neytendur verða betur meðvitaðir um mismunandi kosti, viðskiptahindranir hafa verið fjarlægðar og netverslun mun ná nýjum hæðum. Neytendur morgundagsins munu fara fram á  vísindalegar upplýsinga um næringargildi, aðskotaefni, áhrif á heilsu, samfélagslega ábyrgð og umhverfisáhrif matvælaframleiðslu. Til að matvælaframleiðendur geti svarað kalli neytenda þarf þekkingu. Rannsóknir Matís á þessum sviðum verða þess vegna allra hagur til framtíðar, líkt og raunin er í dag. 

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Matís veitir ráðgjöf til Kanada

Alþjóðlegt samstarf hefur aukist jafnt og þétt í starfsemi Matís frá því að fyrirtækið tók til starfa í janúar 2007. Á þessum tíma hefur Matís m.a. átt í samstarfi við Norræna nýsköpunarsjóðinn (e. Nordic Innovation), PepsiCo., alþjóðlega sjóði um þróunaraðstoð, erlenda háskóla og Evrópusambandið, m.a. varðandi hvernig bæta mætti fiskveiðistjórnun sambandsins (EcoFishMan), svo fátt eitt sé nefnt. 

Með starfsemi Matís hefur byggst upp þekking og reynsla sem þykir orðin eftirsóknarverð og sem dæmi má nefna að s.l. föstudag  komu stjórnendur Perennia í Nova Scotia og Matís sér saman um viljayfirlýsingu um samstarf. Í þessu samstarfi felst m.a. að vísindamenn Matís veita Perennia ráðgjöf á sviði fiskvinnslu og málefni er varða bætta nýtingu hráefna úr hafinu. Samkomulagið náðist í stuttri heimsókn sendinefndar frá Nova Scotia sem naut forystu Keith Colwell sjávarútvegsráðherra Nova Scotia.

Fridrik Fridriksson, stjórnarformaður Matís og Keith Colwell, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála í Nova Scotia, takast í hendur við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Aðrir á mynd eru (frá vinstri): Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Stewart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi og Jo Ann Fewer, forstjóri Perennia.

Sendinefndinni gafst kostur á að heimsækja nokkur af leiðandi fyrirtækjum íslensks sjávarútvegs og hitta að máli forsvarsmenn fjölbreytts hóps fyrirtækja með sjávarútvegstengda starfsemi, undir forystu framkvæmdastjóra samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, auk fulltrúa atvinnuvega og nýsköpunarráðu-neytisins og Háskóla Íslands.

Gestirnir voru hrifnir af samþættingu hagnýtra verkefna og fræðilegra rannsókna meistara- og doktorsnemenda í samstarfi við viðskiptavini Matís.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Hluti erlendra og innlendra samstarfsaðila Matís.

IS