Margir Danir fylgjast nú af áhuga með leiðangri danska varðskipsins Vædderen, sem Íslendingar þekkja vel, enda hefur skipið haft reglulega viðkomu á Íslandi á undanförnum árum á leið sinni til og frá Grænlandi. Skipið er nú í átta mánaða vísindaleiðangri, sem nefnist Galatha 3 verkefnið, þar sem siglt er umhverfis jörðina og ýmsar rannsóknir gerðar.
Danska þingið veitti 80 milljónum danskra króna, um 960 milljónir ISK til verkefnisins, einkum til að gera nauðsynlegar endurbætur og breytingar á Vædderen áður en lagt var af stað í leiðangurinn, sem hófst nú um miðjan ágúst og áformað er að ljúki í lok apríl 2007. Að auki hafa einkaaðilar og rannsóknasjóðir lagt fram samtals rúmlega 1 milljarð ISK til hinna ýmsu vísindarannsókna sem áformað er að sinna á meðan á leiðangrinum stendur.
Þótt aðeins sé liðinn um hálfur mánuður síðan leiðangurinn hófst telja vísindamenn um borð sig þegar hafa gert athyglisverðar uppgötvanir. Þannig segist dr. Lone Gram, sem starfar hjá Danmarks Fiskeriundersögelser (DFU), í viðtali við vefsíðu Politiken að leiðangursmenn hafi t.d. fundið athyglisverða örveru á 30 metra dýpi í hafinu við Færeyjar og sem hugsanlega megi nýta, annað hvort í þróun nýrra sýklalyfja eða sem rotvarnarefni. Þess má geta að DFU er e.k. systurstofnun Rf og hafa vísindamenn stofnananna haft töluverða samvinnu á liðnum árum.
Að sögn dr. Gram er þessi örvera “herská” þ.e. hún hamlar vexti eða hreinlega drepur aðrar bakteríur sem hún kemst í tæri við. Dr. Gram segir í viðtali við Politiken.dk ljóst að færeyska bakterían, sem hún kallar S 191 til bráðabirgða, sé því áhugaverð og að hún hlakki til að rækta hana og rannsaka betur gerð hennar þegar hún snúi aftur til Danmerkur.
Þessi ferð Vædderen er þriðja hnattreisan með þessu sniði sem Danir standa fyrir. Sú fyrsta var farin á skipinu Galatheu I á árunum 1845-1847 en þá fóru flestar rannsóknanna fram á landi. Á árunum 1950 til 1952 var farið í hnattsiglingu á Galatheu II en þá var djúpslóðin könnuð. Hægt er að fylgjast með leiðangrinum á vefnum, á politiken.dk
Heimildir:
Politiken.dk
skip.is