Fréttir

Viltu smakka fisk?

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) er að leita að fólki til að taka þátt í neytendakönnunum á fiski. Kannanirnar verða gerðar um miðjan október og standa fram í nóvember næstkomandi.

Um er að ræða tvær kannanir:

1) könnun sem fer fram á Rf fimmtudaginn 19. október og er þá óskað eftir fólki, 18 ára og eldri, til að koma til okkar á Skúlagötu 4 þann dag og smakka fisk,

2) könnun þar sem fólk fær fisk með sér heim til matreiðslu alls 6 sinnum yfir 6 vikna tímabil (alla þriðjudaga) frá 17. október til 21. nóvember. Hér erum við að leita að fjölskyldum, þar sem a.m.k 2 eru 18 ára eða eldri.

Frekari upplýsingar og skráning þátttöku:

fisk@rf.is  og í síma: 530 8667

Fréttir

Nýir starfsmenn á Rf

Tveir starfsmenn tóku til starfa á Rf fyrr í þessum mánuði, annar í Reykjavík en hinn á Höfn í Hornafirði. Björn Þorgilsson mun starfa á Umhverfis- og gæðasviði Rannsóknarsviðs Rf og Guðmundur Heiðar Gunnarsson á Höfn í Hornafirði.

Björn Þorgilsson mun einkum starfa vinna við gagnagrunna og áhættumat á Umhverfis og gæðasviði Rannsóknarsviðs Rf. Hann lauk M.Sc. prófi í eiturefnafræði frá Medical College of Wisconsin, í Milwaukee, Bandaríkjunum árið 2000. Síðustu fjögur ár var Björn starfsmaður  Hafrannsóknastofnunar og starfaði hjá Rannsóknastofu í stofnerfðafræði, Keldnaholti.

Guðmundur Heiðar Gunnarsson heitir starfsmaður í nýrri starfstöð Rf á Höfn í Hornafirði.  Þetta er önnur af nýjum starfstöðvum Rf, en fyrr á árinu var starfstöð Rf á Sauðárkróki opnuð og starfar Rf því nú á sex stöðum á landinu, fyrir utan Reykjavík.  Guðmundur er lífefnafræðingur að mennt, tók BS próf í lífefnafræði við Háskóla Íslands 1997 og lýkur bráðlega doktorsnámi við Læknadeild H.Í.   Guðmundur hefur aðstöðu í Nýheimum, Litlu brú 2 á Höfn, glæsilegu húsnæði sem vígt var árið 2002 og hýsir ýmsa starfsemi. 

Fréttir

Rf tekur þátt í Vísindavöku Rannís 2006

Föstudaginn 22. sept. stendur Rannís fyrir s.k. Vísindavöku – – stefnumóti við vísindamenn í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu. Rf verður með og ætlar að kynna hvernig hægt er að nota skynfærin í vísindum.

Eins og fram kemur á vef Rannís er markmiðið með Vísindavökunni að vekja áhuga almennings á vísindum og auka vitund um starf vísindamanna og mikilvægi þeirra.

Vísindavakan verður sem fyrr segir haldin föstudaginn 22. september og stendur frá kl. 18 – 21. Vísindavakan verður með áþekku sniði og í fyrra, en þá tóku þátt vísindamenn frá fyrirtækjum, rannsóknastofnunum og háskólum og um 700 gestir komu í heimsókn.

Á Vísindavökunni verður áhersla lögð á að setja vísindamanninn sjálfan í forgrunninn með því að gera vísindafólkið sýnilegt og aðgengilegt almenningi. Á vökunni fær vísindafólk tækifæri til að koma rannsóknum sínum og niðurstöðum á framfæri á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt enda á Vísindavakan á að höfða til almennings, jafnt ungra sem aldna.

Yfirskrift kynningar Rf verður “Skynfærin sem mælitæki í vísindum” og verður þar m.a. kynnt skynmat, en í skynmati eru skynfæri mannsins, þ.e. sjón-, lyktar-, bragð-, heyrnar- og snertiskyn notuð til að meta gæði matvæla. Einnig verður kynnt verkefni sem Rf hefur unnið að í samvinnu við fleiri aðila og nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Ókeypis er á Vísindavökuna og aðgangur öllum heimill og er ástæða til að hvetja fólk til að kíkja í Listasafn Reykjavíkur n.k. föstudagskvöld.

Fréttir

Ný tæki á Rf skapa tækifæri til rannsókna á nýjum sviðum

Rf hefur fest kaup á tækjabúnaði sem vonast er til að geti opnað fyrir möguleika á nýjum rannsóknarverkefnum, bæði innlendum og erlendum. Stefnt er að því að byggja upp nýtt rannsóknarsvið á Rf í kringum tækjabúnaðinn og hefur erlendur sérfræðingur verið ráðinn til að leiða það starf.

Um er að ræða tvö ný tæki, þ.e.a.s. Inductively Coupled Plasma Mass Spectrometer (ICP-MS) tæki og vökvagreini (HPLC ) sem hægt er að nota sitt í hvoru lagi. ICP-MS tækið verður m.a. notað til að mæla ólífræn snefilefni og hefur tækið ýmsa kosti fram yfir eldri aðferðir, eins og t.d. mælingar á atómgleypni (AA) með logatæki og grafítofni. Nýja tækið býður upp á mun fljótvirkari aðferð þegar skoða á mörg efni í hverju sýni og með þessari aðferð eru greiningarmörk snefilefnanna almennt mun lægri en hjá eldri aðferðum.  

Hægt er að tengja vökvagreini (HPLC) framan við ICP-MS tækið og er þá komin HPLC-ICP-MS tækjasamstæða.

Að sögn Helgu Gunnlaugsdóttur, deildarstjóra á Rannsóknarsviði Rf, er markmiðið að byggja upp nýtt rannsóknarsvið innan ólífrænna snefilefnagreininga, sem felst í rannsóknum og mælingum á formgreiningu mismunandi efnaforma málma í matvælum og verður HPLC-ICP-MS tæknin m.a. notuð í þessum rannsóknum. Ástæða þess að formgreining málma telst sérstakt rannsóknarsvið er sú að mismunandi efnaform málma hafa mismunandi eiturvirkni. Það sem drífur framþróun á þessu sviði snefilefnagreininga áfram tengist áhyggjum yfirvalda af eiturvirkni  tiltekinna efnaforma málma í matvælum og áhrifum  þeirra á heilsu manna.

Í mars s.l. var ráðinn sérfræðingur, Dr Ernst Schmeisser frá Austurríki, og mun hann leiða uppbygginguna á þessu nýja rannsóknarsviði hjá Rf. Dr Schmeisser hefur áður fengist við  fromgreiningar t.d. á arseni með HPLC-ICP-MS  í lífrænum sýnum.

Hér má lesa nánar um ICP-MS tækið

Fréttir

Matís ohf stofnað

Í dag var tilkynnt um stofnun nýs hlutafélags, Matís ohf, en í því sameinast þrjár ríkisstofnanir, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti (MATRA) og loks Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Frá þessu er greint á vef sjávarútvegsráðuneytisins.

Fréttir

Fiskirí: Glæsilegt framtak til að reyna að auka fiskneyslu

Um næstu helgi, 15. – 17. sept. verður slegið upp mikilli fiskiveislu á um 80 veitingastöðum út um allt land, og er ætlunin að hvetja bæði unga og aldna til að fara út að snæða sjávarafurðir meðan á hátíðinni stendur. Um er að ræða sérstakt átaksverkefni á sjávarútvegsráðuneytisins í samstarfi við Klúbb matreiðslumeistara á Íslandi. Óhætt er að hvetja landsmenn til að skella sér í fjörið!

Á Dalvík hefur Fiskidagurinn mikili þegar náð að festa sig rækilega í sessi og hefur á fáeinum árum náð að verða ein helsta bæjarhátíð sem haldin er hér á landi og þar hefur verið boðið upp á fisk eins og gestir og gangandi hafa getað í sig látið. Hátíðin Fiskirí er þó ekki bæjarhátíð heldur átaksverkefni á landsvísu, sem hefur þann tilgang að efla neyslu fisks hér á landi.

Líkt og fram kemur í viðtali við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra í tilefni af Fiskirí-hátíðinni, þá sýna rannsóknir að neysla á fiski hefur farið minnkandi hér á landi undanfarin ár og þá aðallega á meðal unga fólksins. Vegna þessarar þóunar hafi “sjávarútvegsráðuneytið því ákveðið að efna til sérstaks átaksverkefnis um miðjan september undir nafninu Fiskirí. Ætlunin er að vekja athygli landsmanna á öllum aldri á því hversu hollur og góður fiskurinn er og gera fólki ljóst að það getur verið bæði einfalt og fljótlegt að matreiða fisk.”

Þess má geta í þessu sambandi að Rf hefur að undanförnu unnið að sérstöku verkefni í samvinnu við Rannsóknastofu í næringarfræði, Félagsvísindastofnun og SH- þjónustu sem ætlað er að finna leiðir til að efla áhuga ungs fólks á fiski sem heilnæmum kosti.  Verkefnið nefnist Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Á vefsíðunni er hægt að lesa meira um þetta þarfa átak og þau veitingahús sem þátt taka í verkefninu.

Fréttir

Nýkomið út rit um rannsóknir á sjávarfangi

Nýlega kom út bókin Seafood research from fish to dish- Qality, safety and processing of wild and farmed fish, sem hefur að geyma fjölda samantekta (abstrakta) frá 35. fundi WEFTA-samtakanna sem fram fór í Antwerpen í Belgíu dagana 19.-22. september 2005. Starfsfólk Rf kemur nokkuð við sögu í þessari stóru bók.

Það er vísindaritaforlagið Wageningen Academic Publishers í Hollandi sem gefur ritið út, sem er mikið að vöxtum eða 567 bls. Bókinni er skipt í átta mislanga kafla, sem fjalla um viðfangsefni á borð við gæði eldisfisks, þekkingu og væntingar neytenda sjávarafurða, fullnýtingu sjávarafla o.fl.

Sérfræðingar Rf voru aðal- eða meðhöfundar í eftirfarandi erindum sem flutt voru á ráðstefnunni: 

  • Capelin oil for human consumption  
  • Quality seafood 
  • Evaluation of antioxidant activities in by-product hydrolysates, fractionation and concentration of active molecules using seperation technologies (ultra- and nanofiltartion technologies
  • Effect of catch location, season and quality defects on value of Icelandic cod (Gadus morhua) products  

Vísindamenn frá Rf hafa tekið virkan þátt í samstarfi WEFTA-samtakanna nánst frá upphafi. Hægt er að skoða efnisyfirlit bókarinnar á vefsíðu Wageningen Academic Publishers og jafnframt panta bókina fyrir þá sem áhuga hafa á að eignast hana.

Fréttir

Grein frá Rf til birtingar í virtu vísindatímariti

Í gær birtist á vefnum Sciencedirect.com útdráttur greinar frá Rf sem birtast mun bráðlega í hinu virta vísindatímariti Journal of Food Engineering. Greinin nefnist Influencing factors on yield, gaping, bruises and nematodes in cod (Gadus morhua) fillets.  

Greinin er sú fyrsta sem birtist á þessum vettvangi úr doktorsverkefni Sveins Margreirssonar, sem er aðalhöfundur greinarinnar. Doktorsverkefnið tengist stóru verkefni Vinnsluspá, sem hófst á Rf árið 2003 og áætlað er að ljúki á næsta ári.

Markmið verkefnisins er að rannsaka helstu þætti sem hafa áhrif á gæði og vinnslunýtingu þorskafla og eru mælingar gerðar í samvinnu við útgerðarfyrirtæki. Hlutfall þorskafurða sem hafa farið í vinnslu frosinna og ferskra flaka er um 45% af heildarafla í fiskveiðilögsögu Íslands. Aukin þekking og skilningur á eiginleikum hráefnis sem tengja má við verðgildi vörunnar eru því afar mikilvæg.

 Höfundar greinarinnar eru, fyrir utan Sveinn, þeir Guðmundur R. Jónsson, Sigurjón Arason og Guðjón Þorkelsson.  Guðmundur er prófessor við Véla og iðnaðarverkfræðiskor Háskóla Íslands, en hinir eru starfsmenn Rf.  Reyndar eru þeir Sigurjón og Guðjón einnig dósentar við mætvælaskor Raunvísindadeildar H.Í.

Lesa grein

Fréttir

Kafað í hafið í leit að nýjum lyfjum?

Margir Danir fylgjast nú af áhuga með leiðangri danska varðskipsins Vædderen, sem Íslendingar þekkja vel, enda hefur skipið haft reglulega viðkomu á Íslandi á undanförnum árum á leið sinni til og frá Grænlandi. Skipið er nú í átta mánaða vísindaleiðangri, sem nefnist Galatha 3 verkefnið, þar sem siglt er umhverfis jörðina og ýmsar rannsóknir gerðar.

Danska þingið veitti 80 milljónum danskra króna, um 960 milljónir ISK til verkefnisins, einkum til að gera nauðsynlegar endurbætur og breytingar á Vædderen áður en lagt var af stað í leiðangurinn, sem hófst nú um miðjan ágúst og áformað er að ljúki í lok apríl 2007. Að auki hafa einkaaðilar og rannsóknasjóðir lagt fram samtals rúmlega 1 milljarð ISK til hinna ýmsu vísindarannsókna sem áformað er að sinna á meðan á leiðangrinum stendur.

Þótt aðeins sé liðinn um hálfur mánuður síðan leiðangurinn hófst telja vísindamenn um borð sig þegar hafa gert athyglisverðar uppgötvanir. Þannig segist dr. Lone Gram, sem starfar hjá Danmarks Fiskeriundersögelser (DFU), í viðtali við vefsíðu Politiken að leiðangursmenn hafi t.d. fundið athyglisverða örveru á 30 metra dýpi í hafinu við Færeyjar og sem hugsanlega megi nýta, annað hvort í þróun nýrra sýklalyfja eða sem rotvarnarefni. Þess má geta að DFU er e.k. systurstofnun Rf og hafa vísindamenn stofnananna haft töluverða samvinnu á liðnum árum.

Að sögn dr. Gram er þessi örvera “herská” þ.e. hún hamlar vexti eða hreinlega drepur aðrar bakteríur sem hún kemst í tæri við. Dr. Gram segir í viðtali við Politiken.dk ljóst að færeyska bakterían, sem hún kallar S 191 til bráðabirgða, sé því áhugaverð og að hún hlakki til að rækta hana og rannsaka betur gerð hennar þegar hún snúi aftur til Danmerkur.   

Þessi ferð Vædderen er þriðja hnattreisan með þessu sniði sem Danir standa fyrir. Sú fyrsta var farin á skipinu Galatheu I á árunum 1845-1847 en þá fóru flestar rannsóknanna fram á landi. Á árunum 1950 til 1952 var farið í hnattsiglingu á Galatheu II en þá var djúpslóðin könnuð.  Hægt er að fylgjast með leiðangrinum á vefnum, á politiken.dk

Heimildir:

Politiken.dk

skip.is

Fréttir

Starfsfólk Rf í heimsókn í Prokaria

Fyrirtækið Prokaria bauð starfsmönnum Rf að heimsækja fyrirtækið í dag til að kynna fyrir þeim starfsemina sem fram fer að Gylfaflöt í Grafarvogi, en eins og áður hefur komið fram hér á síðunni mun sérstakt fyrirtæki í eigu Rf fljótlega taka yfir erfðagreininga- og ensímsvið Prokaria.

Tilkynning um fyrirhugaða sameiningu birtist á fréttavef Rf fyrr í sumar og þar kom fram að nýja fyrirtækið muni áfram bera nafn Prokaria, enda hefur fyrirtækið byggt upp öflugar rannsóknir og hagnýtingu á erfðaauðlindum náttúrunnar á sviði erfðagreininga og ensímþróunar á undanförnum árum. Fyrirtækið er með þróunarsamninga við alþjóðleg stórfyrirtæki í matvælaiðnaði eins og Nestlé og Roquette.

Í heimsókninni í dag rakti Guðmundur Hreggviðsson Rannsóknastjóri Prokaria sögu fyrirtækisins og greindi frá helstu rannsóknum sem þar fara fram. Einnig fjallaði Sólveig Pétursdóttir, umsjónarmaður örverurannsókna frá helstu rannsóknum sem undir hennar svið heyrir og loks fjallaði Sigríður Hjörleifsdóttir um erfðarannsóknir á vegum Prokaria.

Eftir kynningu skoðaði starfsfólk Rf húsakynni Prokaria og þáði loks léttar veitingar.

IS