Fréttir

Fallegur fiskur 2017

Fræðsla og þekkingarmiðlun er endalaust viðfangsefni. Nauðsynlegt er að ástunda stöðuga fræðslu og þekkingarmiðlun um góða aflameðferð.
Hafsteinn Björnsson sem rær á strandveiðibátnum Villa-Birni SH 148 frá Rifi fékk viðurkenningu fyrir Fallegan fisk 2017.

Tvö síðastliðin sumur hefur Matís og Landssamband smábátaeigenda haldið úti verkefninu „Fallegur fiskur“ þar sem vakin er athygli á mikilvægi góðrar meðferðar á afla. Um verkefnið er fjallað á fésbókarsíðu verkefnisins.

Meðal aðgerða hefur verið ljósmyndasamkeppni um fallegasta fiskinn þar sem þátttaka fólst í því að senda inn myndir af góðri meðferð afla, að þessu sinni var ákveðið að veita Hafsteini Björnssyni frá Rifi viðurkenningu. Hafsteinn rær á strandveiðibátnum Villa-Birni SH 148.

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís, brá sér af bæ og heimsótti Hafstein við höfnina á Rifi til að afhenda honum fína GoPro myndavél, svo nú er von á enn fleiri myndum sem sýna fyrirmyndar vinnubrögð. Sjá má myndir Hafsteins á fésbókarsíðunni „Fallegur fiskur“.

Afending_2017-FF

Varðandi umfjöllun um meðferð afla gildir eins og svo margt annað að nauðsynlegt er að ástunda stöðuga fræðslu og þekkingarmiðlun um hvernig best er að verki staðið. Ef menn hafa góðar hugmyndir um hvernig best væri að koma þessum mikilvægu skilaboðum til skila þá tökum við vel í slíkt.

Í ár hófst verkefnið með því að Matís og LS sendu hitamæla ásamt fræðsluefni um meðferð afla til 1.000 aðila sem tengdust útgerð smærri báta. Það var ekki annað að heyra en að mönnum hafi litist vel á framtakið og allmargir voru hressir með að fá loksins hitamæli til að fylgjast með hitastigi aflans.

Matís og LS munu að sjálfsögðu halda áfram að vekja athygli á mikilvægi góðrar aflameðferðar áfram og þó ljósmyndasamkeppninni sé lokið þá eru myndir og ábendingar alltaf vel þegnar.

Fréttir

Breytt viðhorf til brottkasts

Nýlega birtist viðtal við Jónas Viðarsson hjá Matís á fréttavef Fiskifrétta um breytta stefnu Evrópusambandsins í tengslum við brottkast á fiski. Matís er lykilþátttakandi, ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Hampiðjunni og Marel í verkefninu DiscardLess sem er ætlað að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanninu sem verið er að innleiða innan evrópska fiskiskipaflotans.

Í viðtalinu talar Jónas um þessa stefnubreytingu í fiskveiðistjórnun ESB og þær breytingar sem hafa orðið á almennu viðhorfi til brottkasts. Hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins hafi hreinlega gert kröfu til þess að fiski sé kastað í sjóinn. „Það hefur verið ekki bara leyfilegt heldur skylda ef fiskiskipið er annað hvort ekki með kvóta fyrir honum eða ef fiskurinn er undir leyfilegri lágmarksstærð,“ segir Jónas. „Þetta hefur bara verið tíðkað hjá þeim, og það er allt samkvæmt reglunum. En nú er það að breytast.“

Jónas nefnir einnig sérstaka stöðu Íslands sem hafi ákveðið forskot umfram nærri allar aðrar þjóðir sem eru með brottkastsbann. „Hér höfum við til dæmis tækifæri til að landa í þessum VS-afla til dæmis. Þá fer aflinn beint inn á fiskmarkaðinn og 80 prósent af aflaverðmætinu fer í rannsóknir, í þennan VS-sjóð. Áhöfnin fær þá bara 20 prósent og þetta er þá ekki talið gegn kvóta, en þetta hefur reyndar ekki verið mjög mikið nýtt að undanförnu. Og sama er með undirmál, bara talið 50 prósent gagnvart kvóta, þannig að það er nú verið að gera ýmislegt til að sporna gegn þessu,“ segir Jónas.

Evrópskir ráðamenn og aðrir hagaðilar horfa til Íslands og annarra landa sem reynslu hafa af að starfa undir brottkastsbanni og því er innlegg Íslands mikilvægt í verkefninu, auk þess sem Matís leiðir einn vinnupakka og er með lykilhlutverk í nokkrum öðrum vinnupökkum.

Hægt er lesa viðtalið í heild sinni á vef Fiskifrétta.

Fréttir

Fundur um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi

Áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum var til umræðu á fjölmennum fundi sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóð fyrir í síðustu viku. Á fundinum var m.a. sagt frá rannsóknum sem stundaðar hafa verið hjá Matís á stofnerfðafræði laxfiska.

Á fjölsóttum fundi um Áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi sem haldinn var af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 27. september s.l. kynnti Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar m.a. niðurstöður nýrrar ritrýndar greinar um erfðafræði laxins í Evrópu: A microsatellite baseline for genetic stock identification of European Atlantic salmon (Salmo salar L.). Sigurður er þar meðhöfundur ásamt Kristni Ólafssyni sem starfaði hjá Matís og var í doktorsnámi í stofnerfðafræði laxa. Höfundar greinarinnar tileinkuðu greinina minningu Kristins en hann lést 22 mars síðastliðinn. Framlag Kristins var mikilvægt fyrir tæknilega þróun rannsóknarinnar og greiningu íslenskra laxastofna.

Niðurstöður greinarinnar, sem er aðgengileg hér, sýna fram á að hægt sé að rekja uppruna lax sem að veiðist í sjó með arfgerðagreiningu og sjá úr hvaða á hann er kominn. Ættfræði evrópskra laxfiska er teiknuð upp í hinni nýju grein. Íslenskar stofnerfðarannsóknir hafa leitt í ljós erfðabreytileika milli íslenskra laxastofna og sýnt að hver á hefur sinn sérstaka stofn en þær niðurstöður birti Kristinn í ritrýndri grein árið 2014, myndin hér að neðan er úr þeirri grein.

Olafsson, K., Pampoulie, C., Hjorleifsdottir, S., Gudjonsson, S., and Hreggvidsson, G. O. 2014. Present-day genetic structure of Atlantic Salmon (Salmo salar) in Icelandic Rivers and ice-cap retreat models. PLoS ONE, 9: e86809.

Á fundinum, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrði, fjallaði Dr. Geir Lasse Taranger, frá norsku Hafrannsóknastofnuninni (Havforskningsinstituttet) um áhættumat í norsku fiskeldi og nýtt s.k. „umferðaljósakerfi“. Bára Gunnlaugsdóttir frá Stofnfiski ræddi um notkun stærri gönguseiða og síðbúinn kynþroska. Kom fram í máli Báru að rannsókna niðurstöður sýni að minni líkur séu á að hængar sem sleppa hafi áhrif á villta stofna  en hrygnur sem sleppa.

Matís vinnur nú að rannsóknaverkefni með Hafrannsóknastofnun um erfðafræðileg áhrif laxeldis á villta laxastofna með styrk frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis, sem Guðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís hefur tekið við stjórn á. Verkefnið fellur undir faglega áherslu Matís á örugga og sjálfbæra virðiskeðju matvæla.

I-minningu-KO

Fréttir

Enn vaxa verðmætin

Árangur Íslendinga í aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi er sérstaklega mikill í tilviki okkar verðmætustu tegundar, þorsksins. Árið 2016 var útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga 3,15 dollarar á kg 4,6 sinnum meira en árið 1981. Þorskaflinn 2016 skilaði 2,6 sinnum meiri verðmætum en 1981, þó aflinn 2016 hafi einungis verið 57% af afla ársins 1981.

Árið 2016 öfluðu Íslendingar 1 milljón 67 þúsund tonna, útfluttar sjávarafurðir námu 579 þúsund tonnum. Fyrir hvert útflutt kg af sjávarafurðum fengum við 2,5 sinnum meira árið 2016 en árið 2003, en það ár var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka verðmæti sjávarfangs með rannsóknum og þróun. Þá var ákveðið að huga fremur að verðmætum afurða en magni hráefna.

Árangurinn er enn meiri sé litið sérstaklega á okkar verðmætustu tegund, þorskinn. Árið 2016 var útflutningsverðmæti landaðs þorskafla Íslendinga 3,15 dollarar á kg 4,6 sinnum meira en árið 1981. Þorskaflinn 2016 skilaði 2,6 sinnum meiri verðmætum en 1981, þó þorskaflinn 2016 hafi einungis verið 57% af þorskafla ársins 1981.

 Framangreindar tölur komu fram í máli Önnu Kristínar Daníelsdóttur sviðsstjóra rannsókna og nýsköpunar hjá Matís er hún leitaðist við að svara því: Hvers krefst sterkt lífhagkerfi, í erindi sem hún hélt nýverið á ráðherrafundi sem fjallaði um bestu nýtingu haftengdra tækifæra sem efnt var til í tengslum heimsþing um málefni sjávarfangs WSC2017. Um árabil hefur verið fjallað um lífhagkerfi sem hagkerfi byggt á nýtingu lífauðlinda, lífhagkerfi á grundvelli þekkingar var fyrirferðamikið í rannsókna og þróunarstarfi 2007-2013 (e. Knowledge Based Bioeconomy). Þar er lykilatriði að ganga ekki nærri auðlindunum, taka ekki meira en svo að vöxtur og viðgangur auðlindanna sé tryggður. Hagkerfi byggir ekki einvörðungu á því að veiða eða slátra fiski í hóflegu magni, sjálfbærni er vissulega grunnurinn, en verðmætasköpunin ræðst af meðferð, vinnslutækni og ráðstöfun.

Víðtækt samstarf

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri innleiðingar og áhrifa hjá Matís segir um áherslu á hagnýtingu rannsókna og þróun til verðmætasköpunar: „Með skýrri stefnu hafa ólíkir aðilar komið saman í fjölmörgum verkefnum beitt sköpunarkrafti, haft frumkvæði að metnaðarfullri þróun. Eftir þeirri stefnu höfum við siglt og við höfum komist þangað sem við ætluðum, við gerum meira úr því sem við veiðum og er sérhvert kíló verðmætara.

Heilnæmt öruggt sjávarfang stuðlar að lýðheilsu. Sameiginlegir innviðir og þekking til þróunar atvinnugreina hafa verið byggð upp og nýtt í samstarfi með framangreindum árangri. Skilningur á markaðslögmálum hjálpar til – í stað þess að reyna að selja það sem er framleitt, er unnið að því að framleiða það sem selst. Þekking hefur skapast með samstarfi háskóla, fjölbreyttra fyrirtækja og Matís. Matís kemur að kennslu framhaldsnáms í matvælafræðum í Háskóla Íslands, sem og vinnslutækni í Háskólanum á Akureyri. Rannsóknainnviðir hafa verið notaðir til að þróa aðferðir til að vinna afla í sem verðmætastar vörur. Nýjar vörur hafa litið dagsins ljós. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa nýtt mæliþjónustu, rétt eins og fyrirtæki í matvælaiðnaði almennt, til að uppfylla skilyrði. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa nýtt samstarfið við Matís til að skapa ný og meiri verðmæti, sömu sögu er hægt að segja um iðnfyrirtæki sem þjónusta matvælaiðnaðinn hér á landi. Slíkt samstarf hefur stuðlað að framangreindum árangri.“

Margvísleg þekking og færni starfsmanna Matís hefur m.a. átt þátt í þeirri þróun sem íslenskur sjávarútvegur hefur farið í gegnum, innleiðing þekkingar hefur eflt íslenskan sjávarútveg, rétt eins og íslenskan matvælaiðnað, m.a. með hagnýtingu líftækni.

„Ábyrgar fiskveiðar, á vísindalegum grunni, og áhersla á gæði, tryggja rekstrarskilyrði í frumframleiðslu og opna ný tækifæri í tengdum greinum. Með bættri aflameðhöndlun, eru gæðin betur varðveitt sem gerir fjölbreytta nýtingu mögulega. Öguð vinnubrögð á einum stað leysa vandamál á öðrum, opna leiðir inn á nýja markaði með nýjar vörur. Bætt nýting hráefna minnkar hvata til ofveiði. Ábyrgð styður við sjálfbærni sem eykur hagkvæmni og skapar svigrúm fyrir rannsóknir og þróun. Ísland er meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims og eitt fárra ríkja hvar sjávarútvegur leggur fjármuni inn í sameiginlega sjóði landsmanna. Hér spretta nú upp nýjungar sem vekja athygli víða um heim sem aðrir reyna að líkja eftir.

Á hinni velheppnuðu ráðstefnu WSC2017 var augljóst að þeim fjölgar sem beina sjónum sínum að sjónum, því tækifæri felast í aukinni nýtingu lífauðlinda í hafi og vatni m.a. til matvælaframleiðslu. Athygli alheimsins dregst í auknum mæli að því að yfir 95% af matvælaframleiðslu heimsins er stunduð á landi, sem er innan við 1/3 af yfirborði jarðar, ræktað land er undir miklu álagi vegna notkunar og örum breytingum umhverfisþátta“ bætir Arnljótur Bjarki við.

Þá nefnir Arnljótur Bjarki, Heimsmarkmið 14, líf undir vatnsyfirborðinu “var eðlilega fyrirferðamikið á ráðstefnunni og Utanríkisráðuneytið var með sérstaka málstofu um viðfangsefnið. Þátttakendum WSC2017 þótti vel til fundið að koma til Íslands til að ræða málefni sjávarfangs enda hefur Ísland, eftir útfærslu efnahagslögsögunnar brotist úr viðjum vítahrings óvarlegrar umgengni um auðlindir sjávar, sóunar, þegar áhersla var lögð á magn umfram gæði, með ótryggum rekstrarskilyrðum fyrirtækja í frumframleiðslu og tengdum greinum”.

Þróun í takt við þarfir

Mikill samhljómur var á ráðstefnunni WSC2017. Í máli Sigurðar Ólasonar framkvæmdastjóra fiskiðnaðarseturs Marel kom mikilvægi þess að leggja áherslu á að þróa vinnslu og dreifingu  sjávarfangs skýrt í ljós, vel stýrðar fiskveiðar eru sannarlega arðbærar en mikil tækifæri liggi í vinnslu og dreifingu sjávarfangs, þar er þörf á þróun. „Eftir miklu er að slægjast með þróun vinnslu og dreifingar sjávarfangs, sem á nokkuð í land til að teljast sambærileg við arðbærni kjötvinnslu, að maður tali ekki um stóru vörumerkin á matvælamarkaði,“ segir Arnljótur Bjarki og bætir við að lokum: „Við Íslendingar höfum gert vel, en við getum gert betur.“

Skýrslur

Mælingar og nýting á slógi

Útgefið:

27/09/2017

Höfundar:

Ragnheiður Sveinþórsdóttir, Ásbjörn Jónsson, Muhammad Rizal Fahlivi

Styrkt af:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Mælingar og nýting á slógi

Í verkefninu var þorskur sem veiddur var við suðurströnd Íslands slægður í landi. Fiskurinn var mældur og vigtaður fyrir og eftir slægingu til að hægt væri að reikna út slóghlutfall hans yfir árið. Einnig var hvert líffæri vigtað til að sjá magn og hlutfall hvers líffæris í slógi þorsks. Eftir þessar mælingar eru til gögn frá óháðum aðila sem sýna slóghlutfall þorsks yfir tvær vertíðar. Með það að markmiði að auka verðmæti landaðs afla var horft til nýtingar á slógi og gerðar voru tilraunir þar sem áburður var búinn til úr slóginu á þrennskonar hátt og þær tegundir áburðar prófaðar og bornar saman. Auk þess var slík meðhöndlun borin saman við plöntur sem einungis voru vökvaðar með vatni og plöntur sem vökvaðar voru með tilbúnum plöntuáburði sem er á markaði í dag.

In this project cod was caught at south coast of Iceland and gutted at shore. The fish was measured and weighed before and after gutting to calculate it‘s rate of guts for the whole year. Also every organ was weighed to see the guts combination. With the aim to increase the value of landed material experiments were made where fertilizer was created in three ways, it was tested and compared with each other and plants that were only irrigated with water and plants irrigated with plant fertilizer that are on market today.

Skoða skýrslu

Skýrslur

The keeping quality of chilled sea urchin roe and whole urchins

Útgefið:

20/09/2017

Höfundar:

Guðmundur Stefánsson, Aðalheiður Ólafsdóttir

Styrkt af:

Northern Periphery and Arctic Programme 2014-2020

Tengiliður

Guðmundur Stefánsson

Fagsviðsstjóri

gudmundur.stefansson@matis.is

The keeping quality of chilled sea urchin roe and whole urchins

Ígulker (Strongylocentrotus droebachiensis) eru algeng við strendur Íslands og eru veidd í litlu magni og flutt út einkum sem heil ker. Aflinn árið 2015 var 280 tonn. Markaðir eru til staðar í Evrópu og Asíu fyrir ígulkerahrogn fersk, frosin eða unnin á annan hátt. Í þessari rannsókn var lagt mat á geymsluþol ferskra og gerilsneyddra hrogna sem geymd voru við 0-2°C. Áhrif frystingar, bæði hægfrystingar (blástursfrysting við -24°C) og hraðfrystingar (frysting í köfnunarefni) voru könnuð sem og meðhöndlun með dextríni og alúmi. Einnig var lagt mat á það hversu lengi ker héldust lifandi sem geymd voru við 3-4°C. Ígulkerin voru veidd í Breiðafirði með plóg og þeim landað hjá Þórishólma í Stykkishólmi þar sem þau voru unnin. Hluti af ígulkerunum var opnaður, hrognin fjarlægð, hreinsuð og notuð í tilraunirnar. Heilum ígulkerum var pakkað í plastkassa á sambærilegan máta og við útflutning. Ferskleikaeinkenni ferskra ígulkerahrogna eru sjávarlykt og bragð, eggjarauðulykt og bragð og sætubragð. Bragð gerilsneyddra hrogna var svipað bragði ferskra hrogn en mildara. Almennt má segja að með tíma dofnaði sætu, sjávarog eggjarauðubragðið en málmkennd, þara og efnabragðeinkenni jukust. Geymsluþol ferskra ígulkerahrogna er takmarkað af áferðarbreytingum – hrogn leysast upp og verða ólystileg – og má gera ráð fyrir um eins til fjögurra daga geymsluþoli við 0-2°C. Gerilsneydd hrogn héldu ferksleikaeinkennum sínum í a.m.k. 14 daga og höfðu 22 daga geymsluþol eða meira við 0-2°C án þess að fram kæmu breytingar á áferð. Frysting ferskra ígulkerahrogna leiddi til þess að þau urðu grautarleg við þýðingu og ekki virtist vera munur á milli hægfrystingar eða hraðfrystingar. Eftir þriggja mánaða geymslu við -24°C var komið sterkt óbragð í þídd hrogn sem gerðu þau óhæf til neyslu. Frysting gerilsneyddra hrogna hafði lítil sem engin áhrif á áferð eða bragð þeirra; hins vegar eftir sex mánaða frystigeymslu fannst vottur af óbragði. Meðhöndlun með alúmi leiddi til sterks óbragðs sem gerði hrognin óhæf til neyslu. Rotvarnarefnin sorbat og bensóat leiddu til sterks bragðs í hrognunum og málmkennds eftirbragðs en meðhöndlun með dextríni virtust ekki have mikil áhrif á skynmatseiginileika. Öll heil ígulker voru lifandi eftir 5 daga frá veiði en á degi 9 var eitt ker af 18 dautt en engin skemmdarlykt fannst. Það má ætla að heil ígulker haldist lifandi við 3-4°C á milli fimm til níu daga frá veiði.

The green sea urchin (Strongylocentrotus droebachiensis) is commonly found in Iceland and is currently fished and exported mainly as whole urchins. The catch in 2015 was 280 tons. There are markets both in Europe and Asia for urchin roe, fresh, frozen or processed. In this study the shelf-life of fresh and pasteurised sea urchin roe, stored at 0-2°C was evaluated. The effect of freezing (blast freezing and freezing in liquid nitrogen), treatment with dextrin and alum was evaluated on both fresh and pasteurised roe. Further, the keeping quality of whole (live) sea urchins at 3-4°C was evaluated. The sea urchins were caught in the Breidafjordur area using a modified dredge, landed at Thorisholmi in Stykkishólmur, cleaned and the whole live sea urchin were packed in the same manner as that for export. Part of the sea urchins was opened up and the roe removed, cleaned and used for the experimental trial. The freshness characteristics of fresh sea urchin roe were found to be sea odour & flavour, egg yolk odour & flavour and sweet flavour. The flavour was similar but milder in pasteurised roe. In general, with time the sweet, egg yolk and sea flavours seemed to decrease but metallic, seaweed and chemical flavours increased. The shelf-life of fresh roe is limited by changes in texture – the roe liquefies – as indicated by sensory evaluation and can be expected to be between one and four days at 0-2°C. Pasteurised roe had a freshness period of at least 14 days and a shelf life of 22 days or more at 0-2°C, with no detectable changes in appearance or texture during that time. Freezing of fresh roe resulted in a porridge like texture at thawing and no difference was seen between freezing methods, blast freezing and liquid nitrogen freezing. After three months storage at -24°C frozen roe had developed a strong off-flavour and were considered unfit for consumption by the panellists. Freezing of pasteurised roe did not change the texture or flavour of the roe; however, after 6 months freezer storage, the roe had a trace of an off-flavour. Treatment with alum gave all samples a strong off-flavour which made them unfit for consumption. Preservatives (a mix of sorbate and benzoate) gave a strong flavour and a metallic aftertaste but treatments with dextrin did not have a considerable effect on sensory characteristics. All whole sea urchins were alive after 5 days from catch, but on day 9 from catch, one urchin out of 18 had an open mouth but no spoilage odour was detected. It is estimated that the shelf life of live sea urchins is between five and nine days from catch at 3-4°C.

Skoða skýrslu

Fréttir

Mikil viðurkenning að fá World Seafood Congress til Íslands

Það er mikið tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg að fá þessa ráðstefnu hingað til lands, til að kynna hvað hann stendur fyrir. Erlendis eru margir sem horfa öfundaraugum til Íslands vegna þess hve vel okkur hefur tekist að halda utan um stjórnun og nýtingu sjávarauðlindanna,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson, forstöðumaður miðlunar og markaðssetningar hjá Matís.

Ráðstefnan World Seafood Congress (WSC) verður haldin í Hörpu 11.-13. september nk. en að sögn Steinars er WSC einn stærsti vettvangur heims sem fjallar um verðmætasköpun og matvælaöryggi í sjávarútvegi. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og hana sækja starfsmenn útgerða og fiskvinnslu, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim. Steinar segir mjög eftirsótt að halda ráðstefnuna, sem var síðast í Bretlandi og þar áður í Kanada. „Það felst mikil viðurkenning í því að fá ráðstefnuna hingað til lands en Ísland er fyrst Norðurlanda til að halda hana.“ Ráðstefnan er í eigu IAFI (International Association of Fish Inspectors), sem eru samtök fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði en þau leggja áherslu á faglega þætti sem snúa að matvælaöryggi og eftirliti sem tengist matvælaframleiðslu í sjávarútvegi, ekki síst í þróunarríkjum.

Bláa lífhagkerfið

Ráðstefnan er frá mánudegi og fram á hádegi á miðvikudag en þá hefst einmitt Íslenska sjávarútvegssýningin í Kópavogi. Yfirskrift ráðstefnunnar er að þessu sinni „Vöxtur í bláa lífhagkerfinu“. Lífhagkerfið spannar allar lífrænar og endurnýjanlegar auðlindir og bláa lífhagkerfið skírskotar til þess sem þrífst í höfum og vötnum. „Við viljum vekja athygli á að allt sem við gerum hefur áhrif á lífrænar auðlindir okkar. Þegar við fjöllum um sjávarútveg erum við því ekki bara að tala um fiskinn í sjónum heldur líka þörungana sem fiskarnir þrífast á, orkuna sem notuð er til að sigla á miðin, hversu vel við förum með hráefnið sem við veiðum, ásamt öllu öðru sem hefur áhrif og tengist lífinu í hafinu.“

Matvælaöryggi

Steinar segir dagskrá ráðstefnunnar ákveðna af vísindaráð sem skipuð er fulltrúum IAFI og Matís. Þar vegi þungt áherslur IAFI á matvælaöryggi og matvælaeftirlit og viðhorf vísindamanna Matís, sem sveigi áherslurnar meira að viðskipta- og fyrirtækjaverkefnum og fjármögnun.

„Þótt ráðstefnan sjálf byrji ekki fyrr en mánudaginn 11. september verða komnir ýmsir hópar hingað strax á laugardeginum til að funda um helgina.“ Hann segir að í upphafi ráðstefnunnar á mánudag verði áhersla lögð á þróunarsamstarf og stöðuna á hinum ýmsu svæðum í heiminum, þar á meðal þar sem sjávarútvegstengd mat- vælaframleiðsla er ekki komin jafn langt og á Vesturlöndum. Þá verði meðal annars fjallað um matvælaöryggi, eftirlit og skylda þætti sem miða að því að stuðla að nægu fæðuframboði og öruggum matvælum.

Tæknilegar  umbyltingar

Á öðrum degi breytast áherslur ráðstefnunnar og færast meira yfir á tækniumbyltingar, fjármögnun og fyrirtækjarekstur, þar sem litið verður á matvælaframleiðslu í sjávarútvegi sem viðskiptatækifæri. Nefnir Steinar sem dæmi að mikið hafi verið gert til að auka matvælaframleiðslu í Norður- og Mið-Afríku og gera hana öruggari. Þegar það gerist sé talið að það skapi áhugaverða kosti til innviðauppbyggingar og fjármagn til þess fáist þá frá alþjóðlegum fjármálastofnunum, hvort sem það eru Alþjóðabankinn eða stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Síðasti dagur ráðstefnunnar, miðviku- dagurinn, verður með dálítið öðru sniði. Þá verður umfjöllun bara fram að hádegi, enda hefst þá Sjávarútvegssýningin í Kópavogi. Á þessum síðasta degi ráðstefnunnar verður miklu tjaldað til þegar kynntar verða helstu nýjungar og tækniumbyltingar sem orðið hafa síðustu misserin í matvælaframleiðslu, með sérstaka áherslu á sjávarútveginn. Þar verður meðal annars fulltrúi frá Gfresh, sem er nettengt markaðstorg fyrir sjávarafurðir á heimsvísu, ásamt Lynette Kucsma, sem kom að hönnun eins af fyrstu þrívíddarmatvælaprenturunum en hún hefur verið valin af sjónvarpsrisanum CNN sem einn af sjö tæknifrömuðum sem við ættum að fylgjast með. Auk þeirra mun John Bell, frá framkvæmdastjórn ESB, fjalla um hvernig tæknibyltingar eru að hafa áhrif á evrópskan sjávarútveg. Fleiri áhugaverðir fyrirlesarar vera einnig í boði og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun svo loka ráðstefnunni.

Fréttir

Orðspor íslensks sjávarútvegs veigamikil forsenda World Seafood á Íslandi

Það er sjálfsagt margt sem stuðlaði að því að það tókst að fá þessa eftirsóttu ráðstefnu hingað til lands. Það var farið að vinna í því, að undirlagi Sveins Margeirssonar forstjóra Matís, fyrir nokkrum árum til að koma Íslandi betur á framfæri á þessum mikilvæga vettvangi.

“Ég hygg að orðspor íslensks sjávarútvegs, þar sem lagt er upp úr sjálfbærum veiðum, fullnýtingu sjávarfangs og tækniþróun, sé veigamikil forsenda þess að menn vildu koma með World Seafood ráðstefnuna hingað,“ segir Þóra Valsdóttir, ráðgjafi hjá Matís, sem stýrir undirbúningi ráðstefnunnar.

Tækni og markaðsmál

Að sögn Þóru var World Seafood ráðstefnan sett á laggirnar árið 1969 af Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Ráðstefnuhaldið lá niðri í nokkur ár þar til IAFI, alþjóðleg samtök fag-og eftirlitsaðila í fiskiðnaði, tóku við henni árið 2006 og hafa þau haldið hana síðan á tveggja ára fresti. FAO og Iðnaðar- og þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNIDO) hafa enn mikil ítök í ráðstefnunni og eru með fulltrúa í Vísindaráði hennar, sem ákveður áherslur ráðstefnunnar hverju sinni. Í ráðinu sitja einnig fulltrúar IAFI og umsjónarlandsins hverju sinni. Auk fulltrúa Matís sat í ráðinu að þessu sinni fulltrúi frá Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna sem og fulltrúi eins af styrktaraðilum ráðstefnunnar, AG Fisk, sjóðs Norrænu ráðherranefndarinnar. „Í ár höfum við lagt áherslu á að tengja ráðstefnuna betur við sjávarútvegsfyrirtæki og það sem er að gerast í tækni- og markaðsmálum fisk- iðnaðarins og það má sjá þá áherslu endurspeglast í dagskránni,“ segir Þóra.

Um það bil 150 manns, alls staðar að úr heiminum, flytja fyrirlestra og stýra málstofum á ráðstefnunni. Hún stendur yfir í tvo og hálfan dag og er sett þannig upp að fyrstu tveir dagarnir hefjast með sameiginlegri málstofu fyrir alla raðstefnugesti, þar sem tónninn er sleginn af aðalfyrirlesurum dagsins. Síðan greinist ráðstefnan í þrjár samhliða málstofur, þar sem tekin eru fyrir þrjú mismunandi málefni, sem eru keyrð samhliða. Þannig geta ráðstefnugestir valið það sem þeim finnst áhugaverðast úr 9 málstofum, hvorn dag. Síðasta daginn er síðan ein sameiginleg málstofa.

Að sögn Þóru er aðkoma Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna mjög öflug að þessu verkefni í tilefni af 20 ára afmæli skólans. Býður hann m.a. 50 manns að sækja ráðstefnuna hingað til lands og eru þar á meðal bæði fyrrverandi og núverandi nemendur skólans.

Ávarp forseta Íslands

Meðal helstu fyrirlesara ráðstefnunnar nefnir Þóra þá Ray Hillborne, prófessor við Washington háskóla, sem hefur rannsakað mikið sjálfbærar veiðar og umhverfismál, John Bell frá framkvæmdastjórn ESB, sem mun fjalla um áhrif tæknibreytinga í evrópskum sjávarútvegi og Lynette Kucsma, einn af hönnuðum fyrsta matvælaprentarans. Hún nefnir einnig Vilhjálm Vilhjálmsson, forstjóra Granda, sem mun ræða um fjárfestingar í sjávarútvegi, Anthony Wan, upphafsmann Gfresh, stærsta stafræna markaðstorgs Kína fyrir sjávarafurðir. Þá er einnig gert ráð fyrir innleggi frá Alþjóða bankanum, auk þess sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun ávarpa ráðstefnuna.

Aðspurð hvernig Matís fjármagni ráðstefnuhaldið segir Þóra að ráðstefnan og Matís njóti þess að eiga góða bakhjarla. Arion banki er aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar en aðrir stórir  styrktaraðilar eru Brim, HB Grandi, Marel, Norræna ráðherranefndin (AG Fisk sjóðurinn), Íslandsstofa, Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna og Icelandic.

Sjávarútvegsráðherrar við Atlantshaf funda

Á sunnudeginum fyrir ráðstefnuna verða FAO, IAFI og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna með málstofur í húsakynnum Matís. Að þeim loknum býður Matís öllum ráðstefnugestum til móttöku. Á mánudagskvöldi verður Arion banki gestgjafi ráðstefnugesta og á þriðjudag verður samkoma í tilefni af 20 ára afmæli Sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem meðal annars verða veittar viðurkenning af IAFI, þar á meðal fyrir besta veggspjaldið.

Þá getur Þóra þess að í tengslum við ráðstefnuna muni sjávarútvegsráðherrar frá nokkrum löndum við Atlantshaf koma hingað til lands og funda með sjávarútvegs- ráðherra um fiskveiðar og samstarf í sjávarútvegi. Þeir munu sækja hluta ráðstefnunnar og heimsækja einnig í framhaldinu sjávarútvegssýninguna í Kópavogi.

Fréttir

Fyrstu réttirnir úr íslensku hráefni komnir úr matvælaprentaranum

Fyrstu réttirnir sem prentaðir eru úr íslensku hráefni komu úr Foodini matvælaprentara í höfuðstöðvum Natural Machines í Barcelona á Spáni í síðasta mánuði. Það var dr. Holly T. Petty ráðgjafi hjá Matís sem var þar að vinna með framleiðanda prentarans og notaði við tilraunina saltaðan íslenskan þorsk, þorsksurimi og þorskprótein.

Með prentaranum mótaði hún m.a. saltfisk eldfjallið sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Holly fer fyrir rannsóknahópi á vegum Matís sem vinnur að verkefninu „Fiskur framtíðarinnar“ og er styrkt af Tæknirannsóknasjóði Rannís.

Hópurinn mun næstu misserin vinna að því að þróa aðferðir til að nýta íslenskt sjávar- fang sem efnivið fyrir matvælaprentara en spáð er að hann verði jafn algengt verkfæri í eldhúsum landsmanna í framtíðinni og örbylgjuofninn er í dag.

Nýsköpunarævintýri framundan

Hún segir það hafa verið gríðarlega spenn- andi að sjá þrívíða matvælaprentarann að störfum í fyrsta skipti í Barcelona. „Það var sérstakt að fylgjast með uppskriftunum raungerast með nákvæmum hætti í þrívíðu prentformi, lag eftir lag en það eru fjöl- margir breytur sem þarf að taka tillit til eins og innihaldsefna, hráefna, vinnslu og áferðar. Að lokum líður manni eins og ákveðnum árangri hafi verið náð og að hér sé á ferðinni visst tækifæri.“ Holly segist þakklát og stolt af því að vera matvæla- fræðingur og í fararbroddi nýsköpunar þar sem sjálfbært íslenskt hráefni er nýtt til þrívíddarprentunar matvæla. „Þetta er aðeins byrjunin á því að efla íslenskt sjávarfang innanlands og á heimsvísu með þrívíðri matvælaprentun. Ég hlakka til að taka þátt í því nýsköpunarævintýri sem framundan er og að halda áfram að vinna með tækið sem kallað hefur verið örbylgju- ofn framtíðarinnar.“

Hún segir matvælaprentarann opna ýmsa nýja möguleika í matargerðinni og gera neytendum kleyft að taka holl matvæli eins og til dæmis fisk og blanda honum saman við aðrar hollustuvörur eins og grænmeti og búa til úr því spennandi matvöru sem þeir hefðu ekki annars aðgang að. „Í stað þess bara að sjóða þorskinn er til dæmis hægt að móta hráefnið í prentaranum þannig að það líkist eldfjalli og setja sósu í gíginn, sem er kannski eitthvað sem höfðar meira til neytenda nútímans en bara fiskstykkið á disknum. Í raun er þetta sama hráefnið en framreiðslan er önnur,“ segir Holly.

Matvælaprentarinn verður sýndur á World Seafood Congress 2017 sem stendur yfir í Hörpu dagana 11.-13. september næstkomandi.

Fréttir

Félag rannsóknastjóra á Íslandi og Rannís héldu fræðslufund hjá Matís í dag

Tengiliður

Anna Kristín Daníelsdóttir

Aðstoðarforstjóri / Rannsókna- og nýsköpunarstjóri

annak@matis.is

Félag rannsóknastjóra á Íslandi og Rannís héldu fræðslufund með Gill Wells yfirmanni Evrópu- og stefnumótunarskrifstofu Rannsóknaþjónustu Oxford-háskóla í dag í höfuðstöðvum Matís.

Á fundinum var farið yfir hvernig á að undirbúa umsókn um einstaklingsstyrki („Getting started and applying for a MSCA IF“) í Marie Sklodovska Curie sjóðinn en efnið var sérstaklega sett upp fyrir nýdoktora og aðra sem hafa áhuga á Marie Curie einstaklingsstyrkjum.

Einnig var haldin ERC vinnustofa fyrir vísindamenn sem hafa áhuga á að sækja um styrki Evrópska rannsóknaráðsins (ERC) og þá sem aðstoða við slíkar umsóknir.

Að lokum var farið í rannsóknaáhrif og hagnýtingu („Impact and Commercialisation“).

Matís vill þakka Félagi rannsóknastjóra á Íslandi og Rannís fyrir þennan gagnlega fræðslufund. 

Nánari upplýsingar um Gill Wells og Rannsóknaþjónustu Oxford-háskóla

Gill Wells Head of European Team and Strategic Lead on GCRF | Research Services University of Oxford University Offices, Wellington Square T: +44 01865 289800 F: +44 01865 289801 E: gill.wells@admin.ox.ac.uk www.europegateway.ox.ac.uk

IS