Fréttir

Sjálfbærari fiskveiðar og verndun vistkerfa

Hvernig eflum við sjálfbærar fiskveiðar og stuðlum að verndun sjávarvistkerfa?

Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim komu til okkar í Matvælið og ræddu meðal annars hafrannsóknir, sjálfbærar fiskveiðar, verndun vistkerfa og aðlögunarhæfni í sjávarútvegi.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna.

Fréttir

Hvernig byggjum við fram­tíð mat­væla­iðnaðar á Ís­landi?

Rannsóknir og nýsköpun eru nauðsynlegar til að takast á við breytingar og efla íslenskan matvælaiðnað. Til þess þarf mannauð, samstarf, samnýtingu aðstöðu, tækja og búnaðar og fjármagn. Þetta þarf að spila saman. Þörfin er mikil og samkeppnin er mikil við aðrar greinar atvinnulífs og þjónustu. Samstarf Matís og Háskóla Íslands er gott dæmi um hvernig þetta getur virkað. Þar hefur Matís verið brúin milli háskólamenntunar og atvinnulífs í mjög árangursríku samstarfi. Á síðustu 15 árum hafa um 30 einstaklingar klárað doktorsverkefni og um 150 einstaklingar unnið sín rannsóknaverkefni í mastersnámi í samstarfi við atvinnulífið. Þannig höfum við menntað og þjálfað sérfræðinga og frumkvöðla framtíðarinnar í nýtingu, vinnslu og verðmætasköpun úr lífauðlindum á Íslandi. Þetta er líka ein af forsendunum fyrir góðum árangri Matís í samkeppnissjóðum Evrópusambandsins við að fjármagna samstarfsverkefni til að takast á við áskoranir og tækifæri matvælaframleiðenda á Íslandi.

Samstarf Matís við háskóla felst í sameiginlegu starfsfólki og samnýtingu aðstöðu og búnaðar til að efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem það nær til. Rannsóknirnar í þessum verkefnum snúast meðal annars um matvælaframleiðslu, öryggi matvæla, líftækni og orkunýtingu. Þær hjálpa til við að auka samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi og skapa tækifæri til nýsköpunar sem nýtist samfélaginu í heild.

Markmiðið er einnig að vera leiðandi og alþjóðlega samkeppnisfær á sérfræðisviðum sem tengjast rannsóknun og nýsköpun í nýtingu lífrænna auðlinda á sjó og landi. Þannig hafa sameiginleg rannsóknaverkefni eflt bæði framhaldsnám og íslenskt samfélag. Matís er því mikilvæg brú milli vísinda og atvinnulífs með því að tengja verkefni háskólanemenda við þarfir atvinnuvega og samfélags.

Á síðustu árum hafa nemendur við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og starfsnemar frá nokkrum háskólum Í Evrópu unnu að sínum verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga frá Matís. Öll voru þau unnin í samvinnu við fyrirtæki í iðnaðinum t.d um framtíðarflutningsleið fyrir ferskan lax til Norður-Ameríku; framhaldsvinnslu á laxi og um strandveiðar á Íslandi. Sex meistaranemar í matvælafræði, iðnaðarlíftækni og örverufræði við Háskóla Íslands unnu og luku við sín verkefni á árinu. Þau snerust um allt frá rannsóknum á hitakærum örverum; örveruflóru við verkun á hákarli, örverur á fiskikerjum til samanburðar á fiskveiðum í Noregi og á Íslandi.

Þrettán doktorsnemar við Háskóla Íslands stunduðu sínar rannsóknir í samvinnu við Matís. Tveir nemendur vörðu verkefni sín á síðastliðnu ári, þær Rebecca Sim og Anna Þóra Hrólfsdóttir. Starfsnemar frá erlendum háskólum voru 27. Þetta eru starfsnemar á meistarastigi sem koma sex mánuði í senn og doktorsnemar sem koma aðallega frá Evrópulöndum. Á árinu 2023 voru þeir frá níu löndum, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Indlandi, Skotlandi, Spáni, Tékklandi og Þýskalandi og frá nítján háskólum.

Samstarf Matís og háskólanna á Íslandi sýnir hvernig markviss þekkingaruppbygging getur haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag. Með því að bæta við þekkingu, tengjast erlendum stofnunum og styðja við doktorsverkefni hefur þetta samstarf lagt grunn að nýjum lausnum og tækifærum. Til að halda þessum árangri áfram þarf að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og nýsköpun. Með skýrri framtíðarsýn og stuðningi við mannauðinn getum við tryggt að Ísland haldi áfram að vera í fararbroddi á sviði nýsköpunar og þekkingarsköpunar, sem mun nýtast komandi kynslóðum vel.

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, og Salvör Jónsdóttir, stjórnarformaður Matís.

Fréttir

Eru tækifæri í nýtingu rauðátu og ljósátu á norðurslóðum?

Tengiliður

Stefán Þór Eysteinsson

Fagstjóri

stefan@matis.is

Rauðáta og ljósáta eru undirstaða lífs í höfunum og er lífmassi þeirra einn sá mesti einstakra lífvera á jörðinni. Þannig er talið að lífmassi rauðátu á norsku hafsvæði sé um 33 milljónir tonna og ársframleiðslan um 300 milljónir tonna. Norsk yfirvöld hafa gefið út veiðikvóta upp á rúmlega 250 þúsund tonn á ári og þá hafa Færeyingar fylgt eftir og gefið út kvóta upp á um 125 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun mat nýlega stofnstærði rauðátunnar umhverfis Ísland og telur að lífmassinn sé um 5,9 milljón tonn, í framhaldi af því hefur stofnunin gefið út minnisblað sem leggur til að aflamark í rauðátu upp á 59 þúsund tonn.

Það er hins vegar ekki sjálfsagt að farið verði að nýta rauðátu og ljósátu, þar sem tegundirnar gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum hafsins og eru til dæmis ein helsta fæða mikilvægra nytjastofna. Dýrasvif gegna einnig lykilhlutverki í líffræðilegri kolefniskeðju úthafanna, þar sem koltvísýringur úr andrúmsloftinu er fangaður og geymdur djúphafinu. Þetta tvöfalda hlutverk við að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr loftslagsbreytingum undirstrikar mikilvægi þess að stýra nýtingu dýrasvifa á sjálfbæran hátt. Mögulega er áhættan við að nýta dýrasvið einfaldlega of mikil? Nýting á rauðátu og ljósátu gætu aftur á móti skapað miklar tekjur og atvinnutækifæri, auk þess að stuðla að fæðuöryggi. Möguleikar í kringum nýsköpun á sviðum eins og matvælaframleiðslu, líftækni, lyfjaþróunar, framleiðslu fæðubótaefna, snyrtivara og fóðurgerðar eru umtalsverðir. Árangursrík nýting þeirra gæti aukið fjölbreytni í íslenskum og norrænum hagkerfum og treyst stöðu sjávarbyggða.

Norska fyrirtækið Calanus AS hefur staðið að uppbyggingu rauðátuveiða og vinnslu í Noregi síðustu tvo áratugi. Fyrirtækið hefur verið með 3 stóra frystitogara í veiðunum síðustu ár og  fjárfesti nýlega í vinnsluhúsnæði og búnaði sem unnið getur úr 10 þúsund tonnum af rauðátu á ári. Þá hafa Færeyingar reynt fyrir sér með rauðátuveiðar í atvinnuskyni, með frekar dræmum árangri. Þá má einnig geta þess að fyrirtækið Rauðátan ehf. í Vestmannaeyjum, ásamt Þekkingarsetri Vestmannaeyja, hefur staðið að tilraunaveiðum á rauðátu við Vestmannaeyjar síðastliðin 2 ár. Veiðar á ljósátu eru komnar lengra en rauðátuveiðarnar, en þar hefur Aker BioMarin rutt brautina með yfir áratug af rannsóknum og nýsköpun, auk umfangsmikilla veiða í atvinnuskyni við Suðurskautslandið. Tilraunir með ljósátuveiðar á norðurslóum hafa staðið yfir með misjöfnum árangri.

Ljóst er að það eru gríðarleg tækifæri í nýtingu rauð- og ljósátu, en það er hins  vegar þá þörf á mikilli fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun til að þróa fiskveiðar og afurðir, sem og til að skilja áhrif veiðanna á vistkerfið, þar sem vistkerfisnálgun við stjórnun er mikilvæg. Því ákvað vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í sjávarútvegi að fjármagna Norrænt rannsóknaverkefni sem ætlað var að koma á fót netverki hagaðila er tengjast rannsóknum og mögulegri nýtingu á rauðátu og ljósátu á norðurslóðum. Stóð netverkið fyrir ráðstefnu sem fram fór í Kaupmannahöfn síðasta sumar og má sjá framsögur ráðstefnunnar á heimasíðu verkefnisins https://little-giants.net/ auk þess sem hópurinn hefur nú gefið út lokaskýrslu um verkefnið, sem nálgast má hér.

Frekari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess veitir verkefnastjóri verkefnisins Stefán Þór Eysteinsson stefan@matis.is

Fréttir

Matís fékk GMP gæðavottun frá Lyfjastofnun

Tengiliður

Halla Halldórsdóttir

Gæða- og öryggisstjóri og persónuverndarfulltrúi

halla.halldorsdottir@matis.is

Vottunin staðfestir að örverurannsóknastofa Matís í Reykjavík uppfyllir reglur um góða starfshætti í lyfjagerð. Þessi viðurkenning bætist við aðrar faggildingar rannsóknastofunnar, frá Swedac (Swedish Board for Accreditation and Conformity Assessment) og NYSDOH (New York State Department of Health) og undirstrikar að gæðakerfi rannsóknastofunnar og starfshættir hennar tryggja áreiðanlegar og trúverðugar niðurstöður í  hvívetna. 

GMP vottunin hefur sérstaka þýðingu gagnvart viðskiptavinum Matís í lyfjaiðnaði. GMP stendur fyrir Good Manufacturing Practice (GMP), en öll meðhöndlun og umsýsla lyfja s.s. framleiðsla, innflutningur, dreifing, notkun, verkun og tilraunir með lyf lúta ákveðnum skilgreindum gæðastöðlum sem Lyfjastofnun heldur utan um.

Vonir standa til þess að GMP vottunin greiði fyrir því að fyrirtæki í lyfjaiðnaði og aðrir aðilar sem starfa í GMP umhverfi geti nýtt sér þjónustu örverurannsóknastofu Matís sér til gagns.

Á myndinni er Halla Halldórsdóttir gæða- og öryggisstjóri Matís.

Fréttir

Nýr gagnagrunnur um örverur í matvælum og framleiðsluumhverfi

Tengiliður

Sigurlaug Skírnisdóttir

Verkefnastjóri

sigurlaug.skirnisdottir@matis.is

Örverur eru hluti af matnum okkar. Þekking á því hvaða örverur finnast í matvælum og í framleiðsluumhverfi er þó enn takmörkuð. Nýleg rannsókn, sem Matís tók þátt í, hefur veitt nýja innsýn í þetta viðfangsefni. Niðurstöðurnar munu stuðla að betri skilningi á áhrifum örvera á ýmsa þætti matvæla, eins og geymsluþol, öryggi, gæði og bragð.

Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefninu MASTER,  sem sameinaði 29 samstarfsaðila frá 14 löndum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að skapa gagnagrunn utan um örverur í matvælum  með því að raðgreina erfðaefni úr 2533 sýnum sem tekin voru  úr ýmsum matvælum og framleiðsluumhverfi þeirra. Matís sá um að rannsaka sýni úr íslenskum fiskvinnslum en rannsóknarverkefnið náði til allra helstu fæðuflokka. Þetta er stærsta rannsókn sem hefur verið gerð á örverusamsetningu í matvælum og framleiðsluumhverfi en betri skilningur á þessum örverum gæti stuðlað að bættri heilsu fólks þar sem sumar örverur úr matvælum geta orðið hluti af örveraflóru okkar.

Alls voru 10899 fæðutengdar örverur greindar í þessum sýnum, þar sem helmingur þeirra voru áður óþekktar tegundir. Niðurstöðurnar sýndu að matvælatengdar örverur mynda að meðaltali um 3% af þarmaflóru fullorðinna en um 56% af þarmaflóru ungbarna.

„Þessar niðurstöður benda til þess að sumar örverur í þörmum okkar komi beint úr mat, eða að mannkynið hafi sögulega fengið þær úr  fæðunni, þar sem þær hafa síðar aðlagast og orðið hluti af þarmaflóru mannsins,“ segir Nicola Segata, örverufræðingur við háskólann í Trento og Evrópsku krabbameinsstofnunina í Mílanó.  Þótt 3% kunni að virðast lágt hlutfall, þá geta þessar örverur haft mikil áhrif á virkni þarmaflórunnar. Gagnagrunnurinn er því mikilvægt framlag til vísinda og lýðheilsu, þar sem hann mun nýtast við rannsóknir á áhrifum matvælatengdra örvera á heilsu okkar.

Þó að fáar sjúkdómsvaldandi örverur hafi verið greindar í matvælasýnunum, voru nokkrar tegundir sem geta verið óæskilegar vegna áhrifa þeirra á bragð eða geymsluþol matvæla. Þekking á því hvaða örverur tilheyra ákveðnum matvælum getur því verið gagnlegt  fyrir framleiðendur, bæði  stóra og smáa, til að bæta vörugæði. Einnig geta þessar upplýsingar aðstoðað við matvælaeftirlit við að skilgreina hvaða örverur ættu og ættu ekki að vera til staðar í tilteknum matvælum ásamt því að rekja og votta uppruna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar 29. ágúst síðastliðinn í tímaritinu Cell Press og gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur. Niðurstöður sem sérstaklega varða sjávarafurðir hafa einnig verið birtar í tímaritinu Heliyon sem er gefið út af Cell Press.  Rannsóknin er sem fyrr segir hluti af evrópska rannsóknaverkefninu MASTER og var styrkt af Horizon 2020, Horizon Europe, Utanríkisráðuneyti Ítalíu, Evrópska rannsóknarráðinu, Spænska vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu, Vísindastofnuninni á Írlandi og Írska landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegsráðuneytinu.

Fréttir

Grænmetisbók Matís veitir upplýsingar um grænmeti frá uppskeru til neytenda

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Grænmetisbók Matís er nú öllum aðgengileg á vefsíðu Matís. Í þessari vefbók eru aðgengilegar upplýsingar um grænmeti allt frá uppskeru til þess að grænmetið kemur á borð neytenda. Fjallað er um mikilvægi innlendu grænmetisframleiðslunnar fyrir fæðuöryggi, hollustu grænmetisins, rétt geymsluskilyrði, pökkun grænmetis og hvernig hægt er að draga úr sóun á grænmeti. Áhersla er á stuttan hnitmiðaðan texta og hægt er að sækja viðbótarupplýsingar með því að smella á hlekki í textanum.

Verkefnið var styrkt af Þróunarfé garðyrkju sem er á vegum matvælaráðuneytisins. Markmið verkefnisins voru að auka þekkingu á bestu meðferð grænmetis og auka þannig gæði grænmetis á markaði og stuðla að minni sóun. Jafnframt er vonast til þess að áhugi neytenda aukist á íslensku grænmeti og hollustu þess.

Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni um grænmeti. Sérstaka athygli hafa vakið niðurstöður um hliðarafurðir grænmetis, pökkun grænmetis og heilsufarsleg áhrif pökkunarefna. Nú er hægt að nálgast niðurstöður verkefnanna gegnum grænmetisbókina. Ástæða er til að benda á að hægt er að nálgast upplýsingar um bestu geymsluskilyrði fyrir hinar ýmsu grænmetistegundir en vöntun hefur verið á slíkum upplýsingum. Loks má benda má að nýjar norrænar næringarráðleggingar leggja áherslu á neyslu grænmetis.   

IS