Fréttir

Ársfundur NATALIE verkefnisins í Feneyjum

Tengiliður

Anna Berg Samúelsdóttir

Verkefnastjóri

annab@matis.is

Dagana 1.–5. desember fór fimm manna hópur frá Íslandi til Feneyja á Ítalíu til að taka þátt í árlegum verkefnafundi NATALIE. Þar komu saman vísindamenn víðs vegar frá Evrópu til að fara yfir stöðu og framgang verkefnisins og deila reynslu milli rannsóknasvæða.

Verkefninu er ætlað að þróa náttúrumiðaðar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizion áætlun Evrópusambandins. Verkefnið sameinar yfir 40 samstarfsaðila frá 13 löndum.  Fulltrúar Matís og Austurbrúar sátu fundinn fyrir hönd íslenska rannsóknasvæðisins á Austurlandi þar sem verkefnið er framkvæmt í nánu samstarfi við sveitarfélög, stofnanir, atvinnulíf og aðra hagaðila.

“Aðalfundur NATALIE verkefnisins í Feneyjum var vettvangur þess að samræma stöðu verkefnisins, efla skilning okkar og lærdóm á milli rannsóknarsvæða og ræða næstu skref í innleiðingu og þróun náttúrumiðaðra lausna sem unnið er með í verkefninu. Út úr þessu fáum við betri yfirsýn á stöðu verkefnisins til að halda áfram með þróun og innleiðingu náttúrumiðaðra lausna í almannaþágu.”  Anna Berg Samúelsdóttir.

Einn af hápunktum fundarins var vettvangsferð að ítölsku tilvikssvæði, í Feneyjum, þar sem þátttakendur fengu að sjá hvernig náttúrumiðaðar lausnir eru nýttar í sjálfbærri endurheimt og stjórnun vatnakerfa. Þar var meðal annars sýnt hvernig hægt er að hægja á vatnsrennsli, bæta vatnsbúskap og draga úr flóðahættu með aðgerðum sem vinna með náttúrulegum ferlum. Að sjá lausnir „í verki“ – og ræða bæði árangur og áskoranir – gaf dýrmæta innsýn sem nýtist í áframhaldandi vinnu á Íslandi.

Samvinna, samtal og næstu skref
Fundurinn í Feneyjum undirstrikaði mikilvægi þess að tengja saman rannsóknir, staðbundna þekkingu og framkvæmd. NATALIE er nú að hefja sitt þriðja starfsár og verður áfram lögð áhersla á að yfirfæra niðurstöður yfir í raunhæfar aðgerðir á tilvikssvæðum verkefnisins – þar á meðal á Austurlandi.

Rannsóknir og þróun á Austurlandi: vatnsgæði og þörungablómi
Austurland er eitt af átta rannsóknarsvæðum verkefnisins og þátttakendur eru Matís, Austurbrú, Green Fish og University of Exeter.  Á Austurlandi er unnið að því að styrkja strandstjórnun og viðnámsþrótt samfélaga gagnvart loftslagstengdum áskorunum, með sérstakri áherslu á vatnsgæði t.a.m. auka viðnám vegna hættu á þörungablóma. Í verkefninu hefur í nánu samstarfi við hagaðila á svæðinu verið greindir helstu áhættuþættir og lagt mat á hvaða náttúrumiðuðu lausnir gætu hentað best. Þar ber helst að nefna manngert votlendi og samþætt fjölþrepa sjóeldi (IMTA), þar sem lífverur eins og þörungar og skeldýr geta bundið næringarefni og þannig dregið úr næringarefnaálagi í fjörðum.

Af hverju skipta samt næringarefni í fjörðum máli í þessu samhengi?
Vöxtur þörunga ræðst af náttúrulegu samspili súrefnisaðstæðna, hitastigs, ljóss og lagskiptingar sjávar. Á Íslandi má hins vegar sjá að grunnálag næringarefna getur stafað af óhreinsuðu eða ófullnægjandi hreinsuðu fráveituvatni frá þéttbýli, og að aukinn vöxtur fiskeldis á síðustu árum hefur víða leitt til meira næringarefnaálags í fjörðum og strandvistkerfum. Hækkandi hitastig sjávar eykur síðan líkur á þörungablómgun, aukið tíðni þeirra og gert þau varanlegri en áður í kaldara loftslagi.

Creatium lineatum í sýni úr Reyðarfirði frá 15. september 2021. Myndin er tekin í gegnum smásjá með 10×20 stækkun ( Kristín J. Valsdóttir).

Samhliða rannsóknarvinnu sem farið hefur fram á svæðinu hefur GreenFish þróað stafrænt vöktunarkerfi sem nýtir daglegar Sentinel-3 gervihnattamyndir og reiknar cyanobacteria-vísitölu til að greina merki um þörungablóma. Kerfið getur veitt ákveðna viðvörun 2–3 dögum fyrr en hefðbundnar vatnssýnatökur og skilar meðal annars hitakortum, mælaborðsupplýsingum og tilkynningum sem styðja við betri viðbúnað og upplýsta ákvarðanatöku á svæðinu.

Náttúrumiðaðar lausnir geta dregið úr þörungablómavanda með því að binda eða fjarlægja uppleyst næringarefni úr sjó áður en þau nýtast þörungum til vaxtar. Sérstaklega getur samþætt fjölþrepa fiskeldi (IMTA) nýst vel: því lífverur, eins og þörungar og/eða skeldýr, taka upp næringarefni úr vatninu, binda þau í lífmassa, sem dregur úr næringarefnaframboði til þörungablóma. Með reglulegri vöktun og góðri strandstjórnun getur þessi nálgun stutt við betri vatnsgæði og aukið viðnámsþrótt vistkerfa.

Nánari upplýsingar:
Heimasíða NATALIE
Verkefnasíða NATALIE

Til gamans: Linkur á frétt frá síðasta ársfundi: Ársfundur Natalie á Gran Canaria – Matís

Styrkt af

Fréttir

Saltfiskur unninn með salti sem fellur til við vatnshreinsun hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum

Frá 1968 þegar vatnsleiðsla var fyrst tengd á milli Vestmannaeyja og fastalandsins hafa Eyjabúar reitt sig á aðgengi að ferskvatni í gegnum leiðslur sem liggja á hafsbotni. Vestmannaeyingar og atvinnulífið á Eyjunni voru óþyrmilega minntir á það óöryggi sem felst af því að vera háðir slíkri tengingu varðandi lífsnauðsynjar 2023 þegar skemmdir urðu á leiðslunni.

Í framhaldi fjárfestu fyrirtæki á svæðinu í vatnshreinsibúnaði sem framleitt getur ferskvatn úr sjó. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum fjárfesti meðal annast í slíkum búnaði, og í framhaldi kom upp sú hugmynd hvort ekki væri hægt að nýta þá hliðarstrauma sem til verða við ferskvatnsframleiðsluna. En vatnshreinsistöðin síar steinefni og óhreinindi úr sjónum, þannig að eftir verður hreint vatn. Meðal þeirra steinefna sem síast frá er salt, en Vinnslustöðin er á sama tíma að flytja inn töluvert magn af salti til saltfiskframleiðslu. Það lá því beinast við að kanna möguleikann á að nýta saltpækil sem fellur til við ferskvatnsframleiðsluna fyrir saltfiskvinnslu. Vinnslustöðin fékk því Matís með sér í lið til að kanna fýsileika þess, og fengu auk þess stuðning frá LÓU sjóðnum til að fjármagna hluta af verkefninu. Markmið verkefnisins var að kanna fýsileika þess að nýta salt frá ferskvatnsframleiðslunni til saltfiskframleiðslu m.t.t. matvælaöryggis, afkasta, kostnaðar og sjálfbærni.

Vatnshreinsistöð VSV
Verkefnastjórinn, Willum Andersen, smakkar á ferskvatni sem unnið er úr sjó

Verkefninu er nú lokið og sýna helstu niðurstöður að hægt er að nota pækilinn í forsöltun án þess að skerða gæði vörunnar, lit eða sýrustig (pH). Vinnslutilraunir sýndu sambærilegar niðurstöður hvað varðar saltmagn í lokaafurðinni og engin neikvæð áhrif á afköstin eða nýtingu. Í heildina gæti notkun þessa pækils dregið verulega úr saltinnflutningi til saltfiskframleiðslu, sem gæti leitt til umtalsverðrar lækkunar á kostnaði við framleiðslu saltfisks. Enn fremur sýndi vistferilsmat (LCA) fram á að með því að nýta pækilinn má draga verulega úr umhverfisáhrifum framleiðslunnar, samanborið við hefðbundinn pækil sem framleiddur er úr innfluttu salti. Það er auk þess áhugaverð niðurstaða úr verkefninu að það skuli vera ódýrara að framleiða ferskvatn á þennan máta en að kaupa það ofan af landi frá HS veitum.

Pedro Coelho, gæðastjóri saltfiskvinnslu VSV, með saltfisk sem unnin var með salti frá vatnshreinsistöðinni

Verkefnið hefur sýnt fram á að notkun saltpækils sem fellur til við vatnshreinsun sé tæknilega raunhæfur, hagkvæmur og sjálfbærari valkostur við saltfiskframleiðslu. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna í lokaskýrslu verkefnisins sem nálgast má hér, á heimasíðu verkefnisins eða hjá willum@vsv.is , cecilie@matis.is eða jonas@matis.is

Fréttir

Aukaafurðir afsöltunar nýttar til sjálfbærari vinnslu í sjávarútvegi

Tengiliður

Cecile Dargentolle

Verkefnastjóri

cecile@matis.is

Matís og Vinnslustöðin hafa unnið náið saman að verkefninu Sjávarsalt, þar sem rannsakað er nýtni aukaafurðar (pækill) úr búnaði sem framleiðir ferskvatn úr sjó.

Frá því síðasta sumar hefur Matís og Vinnslustöðin unnið saman að verkefninu Sjávarsalt, sem hlaut nýsköpunarstyrk úr sjóðnum Lóu árið 2024, með það að markmiði að nýta nýstárlegar og sjálfbærar aðferðir við saltfiskframleiðslu.

Eftir að ferskvatnslögnin til Vestmannaeyja rofnaði fyrir nokkrum árum keypti VSV afsöltunarbúnað frá hollenska fyrirtækinu Hatenboer-water til að tryggja ferskvatnsframboð í eyjum. Ein aukaafurð úr þessari vinnslu er pækill(brine) sem hingað til hefur ekki verið nýttur. Sjávarsalt-verkefnið athugar hvort hægt sé að nýta þessa aukaafurð úr ferskvatnsframleiðslunni sem fyrsta þrep í saltfiskvinnslu, eða pæklun fisks. Í hefðbundinni aðferð er blandað ferskvatni og innfluttu salti. Með því að skipta yfir í að nota aukaafurð úr afsöltunarbúnaðinum í stað ferskvatns og innflutts salts í fyrsta þrepinu (pæklun) væri hægt að minnka notkun á innfluttu salti. Hluti verkefnisins var einnig að kanna hvort pækillinn hefði áhrif á gæði saltfisksins.

Megintilgangur verkefnisins er að auka nýtingu hráefna og endurnýtingu í fiskvinnslu og draga úr notkun á innfluttu salti. Ef vel tekst til gæti þetta orðið fyrirmynd fyrir nýja vinnslulínu og umhverfisvænni vinnubrögð í sjávarútvegi. Niðurstöður tilrauna lofa góðu og gæði fisksins breyttist ekki, framleiðsluferlið gæti því orðið bæði sjálfbærara og ódýrara.

Fréttir

NATALIE – vinnustofa um framtíðarsýn vatnsgæða og mótun aðgerða

NATALIE verkefnið snýst um að styðja samfélög við aðlögun að loftslagsbreytingum með náttúrumiðuðum lausnum (NBS, e. Nature-based solutions). Á Íslandi er verkefnið unnið í samstarfi við sveitarfélög, stofnanir og atvinnulíf á Austurlandi en í heildina eru 43 samstarfsaðilar í 13 löndum.

NATALIE vinnustofa á Reyðarfirði 28. október – framtíðarsýn, aðgerðir og vatnsgæði

Verkefnið NATALIE stóð fyrir vinnustofu á Reyðarfirði nýverið, þar sem þátttakendur mótuðu sameiginlega framtíðarsýn til 2050 hvað varðar bætt vatnsgæði, lífríki vatna og strandsvæða. Þá var horft til áhættu á þörungablóma á Austurlandi og leitast við að forgangsraða með skýrum markmiðum næstu skref og greina ábyrgðaraðila þegar kemur að innleiðingu náttúrumiðaðra lausna (NBS). Þá var rætt um æskilega þróun, helstu hindranir og tækifæri til að efla náttúrumiðaðar lausnir á Austurlandi.

Vinnustofan var sú þriðja á svæðinu síðan verkefnið hófst árið 2023 en verkefnið stendur yfir þar til í ágúst 2028. Í fyrstu vinnustofunni var áherslan lögð á kynningu á NBS lausnum og áhættugreiningu á svæðinu. Greint var hvaða loftslagsáskoranir eru brýnastar fyrir Austurland, m.a. skriðuföll, hækkað sjávarborð, flóð, þörungablómi o.fl. Í maí á þessu ári hittist hópur hagaðila á svæðinu aftur en þá var áhersla lögð á að skoða mögulegar leiðir til þess að fjármagna NBS verkefni. Sveitarfélög, ráðuneyti, fyrirtæki og bankar tóku þátt, bentu bæði á tækifæri og áskoranir tengdar fjármögnun vegna innleiðingar náttúrumiðaðra lausna en þar að auki var farið yfir stöðuna á greiningum og nýjustu niðurstöðum fyrir rannsóknarsvæði verkefnisins á Austfjörðum.

Linkur á hlaðvarp frá Austurbrú.

Sjá nánar verkefnasíður NATALIE.

Sjá einnig nánar á verkefnasíða NATALIE á heimasíðu Matís.

Samstarfsaðilar verkefnisins eru:



Fréttir

Sjálfbærari fiskveiðar og verndun vistkerfa

Hvernig eflum við sjálfbærar fiskveiðar og stuðlum að verndun sjávarvistkerfa?

Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim komu til okkar í Matvælið og ræddu meðal annars hafrannsóknir, sjálfbærar fiskveiðar, verndun vistkerfa og aðlögunarhæfni í sjávarútvegi.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna.

Fréttir

Hvernig byggjum við fram­tíð mat­væla­iðnaðar á Ís­landi?

Rannsóknir og nýsköpun eru nauðsynlegar til að takast á við breytingar og efla íslenskan matvælaiðnað. Til þess þarf mannauð, samstarf, samnýtingu aðstöðu, tækja og búnaðar og fjármagn. Þetta þarf að spila saman. Þörfin er mikil og samkeppnin er mikil við aðrar greinar atvinnulífs og þjónustu. Samstarf Matís og Háskóla Íslands er gott dæmi um hvernig þetta getur virkað. Þar hefur Matís verið brúin milli háskólamenntunar og atvinnulífs í mjög árangursríku samstarfi. Á síðustu 15 árum hafa um 30 einstaklingar klárað doktorsverkefni og um 150 einstaklingar unnið sín rannsóknaverkefni í mastersnámi í samstarfi við atvinnulífið. Þannig höfum við menntað og þjálfað sérfræðinga og frumkvöðla framtíðarinnar í nýtingu, vinnslu og verðmætasköpun úr lífauðlindum á Íslandi. Þetta er líka ein af forsendunum fyrir góðum árangri Matís í samkeppnissjóðum Evrópusambandsins við að fjármagna samstarfsverkefni til að takast á við áskoranir og tækifæri matvælaframleiðenda á Íslandi.

Samstarf Matís við háskóla felst í sameiginlegu starfsfólki og samnýtingu aðstöðu og búnaðar til að efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem það nær til. Rannsóknirnar í þessum verkefnum snúast meðal annars um matvælaframleiðslu, öryggi matvæla, líftækni og orkunýtingu. Þær hjálpa til við að auka samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi og skapa tækifæri til nýsköpunar sem nýtist samfélaginu í heild.

Markmiðið er einnig að vera leiðandi og alþjóðlega samkeppnisfær á sérfræðisviðum sem tengjast rannsóknun og nýsköpun í nýtingu lífrænna auðlinda á sjó og landi. Þannig hafa sameiginleg rannsóknaverkefni eflt bæði framhaldsnám og íslenskt samfélag. Matís er því mikilvæg brú milli vísinda og atvinnulífs með því að tengja verkefni háskólanemenda við þarfir atvinnuvega og samfélags.

Á síðustu árum hafa nemendur við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og starfsnemar frá nokkrum háskólum Í Evrópu unnu að sínum verkefnum undir leiðsögn sérfræðinga frá Matís. Öll voru þau unnin í samvinnu við fyrirtæki í iðnaðinum t.d um framtíðarflutningsleið fyrir ferskan lax til Norður-Ameríku; framhaldsvinnslu á laxi og um strandveiðar á Íslandi. Sex meistaranemar í matvælafræði, iðnaðarlíftækni og örverufræði við Háskóla Íslands unnu og luku við sín verkefni á árinu. Þau snerust um allt frá rannsóknum á hitakærum örverum; örveruflóru við verkun á hákarli, örverur á fiskikerjum til samanburðar á fiskveiðum í Noregi og á Íslandi.

Þrettán doktorsnemar við Háskóla Íslands stunduðu sínar rannsóknir í samvinnu við Matís. Tveir nemendur vörðu verkefni sín á síðastliðnu ári, þær Rebecca Sim og Anna Þóra Hrólfsdóttir. Starfsnemar frá erlendum háskólum voru 27. Þetta eru starfsnemar á meistarastigi sem koma sex mánuði í senn og doktorsnemar sem koma aðallega frá Evrópulöndum. Á árinu 2023 voru þeir frá níu löndum, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Indlandi, Skotlandi, Spáni, Tékklandi og Þýskalandi og frá nítján háskólum.

Samstarf Matís og háskólanna á Íslandi sýnir hvernig markviss þekkingaruppbygging getur haft jákvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag. Með því að bæta við þekkingu, tengjast erlendum stofnunum og styðja við doktorsverkefni hefur þetta samstarf lagt grunn að nýjum lausnum og tækifærum. Til að halda þessum árangri áfram þarf að fjárfesta enn frekar í rannsóknum og nýsköpun. Með skýrri framtíðarsýn og stuðningi við mannauðinn getum við tryggt að Ísland haldi áfram að vera í fararbroddi á sviði nýsköpunar og þekkingarsköpunar, sem mun nýtast komandi kynslóðum vel.

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, og Salvör Jónsdóttir, stjórnarformaður Matís.

Fréttir

Eru tækifæri í nýtingu rauðátu og ljósátu á norðurslóðum?

Tengiliður

Stefán Þór Eysteinsson

Fagstjóri

stefan@matis.is

Rauðáta og ljósáta eru undirstaða lífs í höfunum og er lífmassi þeirra einn sá mesti einstakra lífvera á jörðinni. Þannig er talið að lífmassi rauðátu á norsku hafsvæði sé um 33 milljónir tonna og ársframleiðslan um 300 milljónir tonna. Norsk yfirvöld hafa gefið út veiðikvóta upp á rúmlega 250 þúsund tonn á ári og þá hafa Færeyingar fylgt eftir og gefið út kvóta upp á um 125 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun mat nýlega stofnstærði rauðátunnar umhverfis Ísland og telur að lífmassinn sé um 5,9 milljón tonn, í framhaldi af því hefur stofnunin gefið út minnisblað sem leggur til að aflamark í rauðátu upp á 59 þúsund tonn.

Það er hins vegar ekki sjálfsagt að farið verði að nýta rauðátu og ljósátu, þar sem tegundirnar gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum hafsins og eru til dæmis ein helsta fæða mikilvægra nytjastofna. Dýrasvif gegna einnig lykilhlutverki í líffræðilegri kolefniskeðju úthafanna, þar sem koltvísýringur úr andrúmsloftinu er fangaður og geymdur djúphafinu. Þetta tvöfalda hlutverk við að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr loftslagsbreytingum undirstrikar mikilvægi þess að stýra nýtingu dýrasvifa á sjálfbæran hátt. Mögulega er áhættan við að nýta dýrasvið einfaldlega of mikil? Nýting á rauðátu og ljósátu gætu aftur á móti skapað miklar tekjur og atvinnutækifæri, auk þess að stuðla að fæðuöryggi. Möguleikar í kringum nýsköpun á sviðum eins og matvælaframleiðslu, líftækni, lyfjaþróunar, framleiðslu fæðubótaefna, snyrtivara og fóðurgerðar eru umtalsverðir. Árangursrík nýting þeirra gæti aukið fjölbreytni í íslenskum og norrænum hagkerfum og treyst stöðu sjávarbyggða.

Norska fyrirtækið Calanus AS hefur staðið að uppbyggingu rauðátuveiða og vinnslu í Noregi síðustu tvo áratugi. Fyrirtækið hefur verið með 3 stóra frystitogara í veiðunum síðustu ár og  fjárfesti nýlega í vinnsluhúsnæði og búnaði sem unnið getur úr 10 þúsund tonnum af rauðátu á ári. Þá hafa Færeyingar reynt fyrir sér með rauðátuveiðar í atvinnuskyni, með frekar dræmum árangri. Þá má einnig geta þess að fyrirtækið Rauðátan ehf. í Vestmannaeyjum, ásamt Þekkingarsetri Vestmannaeyja, hefur staðið að tilraunaveiðum á rauðátu við Vestmannaeyjar síðastliðin 2 ár. Veiðar á ljósátu eru komnar lengra en rauðátuveiðarnar, en þar hefur Aker BioMarin rutt brautina með yfir áratug af rannsóknum og nýsköpun, auk umfangsmikilla veiða í atvinnuskyni við Suðurskautslandið. Tilraunir með ljósátuveiðar á norðurslóum hafa staðið yfir með misjöfnum árangri.

Ljóst er að það eru gríðarleg tækifæri í nýtingu rauð- og ljósátu, en það er hins  vegar þá þörf á mikilli fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun til að þróa fiskveiðar og afurðir, sem og til að skilja áhrif veiðanna á vistkerfið, þar sem vistkerfisnálgun við stjórnun er mikilvæg. Því ákvað vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í sjávarútvegi að fjármagna Norrænt rannsóknaverkefni sem ætlað var að koma á fót netverki hagaðila er tengjast rannsóknum og mögulegri nýtingu á rauðátu og ljósátu á norðurslóðum. Stóð netverkið fyrir ráðstefnu sem fram fór í Kaupmannahöfn síðasta sumar og má sjá framsögur ráðstefnunnar á heimasíðu verkefnisins https://little-giants.net/ auk þess sem hópurinn hefur nú gefið út lokaskýrslu um verkefnið, sem nálgast má hér.

Frekari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess veitir verkefnastjóri verkefnisins Stefán Þór Eysteinsson stefan@matis.is

Fréttir

Nýr gagnagrunnur um örverur í matvælum og framleiðsluumhverfi

Tengiliður

Sigurlaug Skírnisdóttir

Verkefnastjóri

sigurlaug.skirnisdottir@matis.is

Örverur eru hluti af matnum okkar. Þekking á því hvaða örverur finnast í matvælum og í framleiðsluumhverfi er þó enn takmörkuð. Nýleg rannsókn, sem Matís tók þátt í, hefur veitt nýja innsýn í þetta viðfangsefni. Niðurstöðurnar munu stuðla að betri skilningi á áhrifum örvera á ýmsa þætti matvæla, eins og geymsluþol, öryggi, gæði og bragð.

Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefninu MASTER,  sem sameinaði 29 samstarfsaðila frá 14 löndum. Eitt af markmiðum verkefnisins var að skapa gagnagrunn utan um örverur í matvælum  með því að raðgreina erfðaefni úr 2533 sýnum sem tekin voru  úr ýmsum matvælum og framleiðsluumhverfi þeirra. Matís sá um að rannsaka sýni úr íslenskum fiskvinnslum en rannsóknarverkefnið náði til allra helstu fæðuflokka. Þetta er stærsta rannsókn sem hefur verið gerð á örverusamsetningu í matvælum og framleiðsluumhverfi en betri skilningur á þessum örverum gæti stuðlað að bættri heilsu fólks þar sem sumar örverur úr matvælum geta orðið hluti af örveraflóru okkar.

Alls voru 10899 fæðutengdar örverur greindar í þessum sýnum, þar sem helmingur þeirra voru áður óþekktar tegundir. Niðurstöðurnar sýndu að matvælatengdar örverur mynda að meðaltali um 3% af þarmaflóru fullorðinna en um 56% af þarmaflóru ungbarna.

„Þessar niðurstöður benda til þess að sumar örverur í þörmum okkar komi beint úr mat, eða að mannkynið hafi sögulega fengið þær úr  fæðunni, þar sem þær hafa síðar aðlagast og orðið hluti af þarmaflóru mannsins,“ segir Nicola Segata, örverufræðingur við háskólann í Trento og Evrópsku krabbameinsstofnunina í Mílanó.  Þótt 3% kunni að virðast lágt hlutfall, þá geta þessar örverur haft mikil áhrif á virkni þarmaflórunnar. Gagnagrunnurinn er því mikilvægt framlag til vísinda og lýðheilsu, þar sem hann mun nýtast við rannsóknir á áhrifum matvælatengdra örvera á heilsu okkar.

Þó að fáar sjúkdómsvaldandi örverur hafi verið greindar í matvælasýnunum, voru nokkrar tegundir sem geta verið óæskilegar vegna áhrifa þeirra á bragð eða geymsluþol matvæla. Þekking á því hvaða örverur tilheyra ákveðnum matvælum getur því verið gagnlegt  fyrir framleiðendur, bæði  stóra og smáa, til að bæta vörugæði. Einnig geta þessar upplýsingar aðstoðað við matvælaeftirlit við að skilgreina hvaða örverur ættu og ættu ekki að vera til staðar í tilteknum matvælum ásamt því að rekja og votta uppruna þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar 29. ágúst síðastliðinn í tímaritinu Cell Press og gagnagrunnurinn er nú aðgengilegur. Niðurstöður sem sérstaklega varða sjávarafurðir hafa einnig verið birtar í tímaritinu Heliyon sem er gefið út af Cell Press.  Rannsóknin er sem fyrr segir hluti af evrópska rannsóknaverkefninu MASTER og var styrkt af Horizon 2020, Horizon Europe, Utanríkisráðuneyti Ítalíu, Evrópska rannsóknarráðinu, Spænska vísinda- og nýsköpunarráðuneytinu, Vísindastofnuninni á Írlandi og Írska landbúnaðar-, matvæla- og sjávarútvegsráðuneytinu.

Fréttir

Grænmetisbók Matís veitir upplýsingar um grænmeti frá uppskeru til neytenda

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Grænmetisbók Matís er nú öllum aðgengileg á vefsíðu Matís. Í þessari vefbók eru aðgengilegar upplýsingar um grænmeti allt frá uppskeru til þess að grænmetið kemur á borð neytenda. Fjallað er um mikilvægi innlendu grænmetisframleiðslunnar fyrir fæðuöryggi, hollustu grænmetisins, rétt geymsluskilyrði, pökkun grænmetis og hvernig hægt er að draga úr sóun á grænmeti. Áhersla er á stuttan hnitmiðaðan texta og hægt er að sækja viðbótarupplýsingar með því að smella á hlekki í textanum.

Verkefnið var styrkt af Þróunarfé garðyrkju sem er á vegum matvælaráðuneytisins. Markmið verkefnisins voru að auka þekkingu á bestu meðferð grænmetis og auka þannig gæði grænmetis á markaði og stuðla að minni sóun. Jafnframt er vonast til þess að áhugi neytenda aukist á íslensku grænmeti og hollustu þess.

Hjá Matís hafa verið unnin fjölmörg verkefni um grænmeti. Sérstaka athygli hafa vakið niðurstöður um hliðarafurðir grænmetis, pökkun grænmetis og heilsufarsleg áhrif pökkunarefna. Nú er hægt að nálgast niðurstöður verkefnanna gegnum grænmetisbókina. Ástæða er til að benda á að hægt er að nálgast upplýsingar um bestu geymsluskilyrði fyrir hinar ýmsu grænmetistegundir en vöntun hefur verið á slíkum upplýsingum. Loks má benda má að nýjar norrænar næringarráðleggingar leggja áherslu á neyslu grænmetis.   

IS