Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2009

Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands (MNÍ) efnir til árlegs Matvæladags þann 15. október nk. Haldin verður ráðstefna um íslenska matvælaframleiðslu og gjaldeyrissköpun. Hörður G. Kristinsson hjá Matís flytur þar áhugavert erindi: Lífefni úr íslenskri náttúru – Ný tekjulind

Matvælaframleiðsla hefur skipt Íslendinga miklu gegnum aldirnar og mun nú gegna lykilhlutverki við enduruppbyggingu efnahagslífsins. MNÍ vill leggja sitt af mörkum með því að greina matvælaframleiðslu á Íslandi og setja hana í efnahagslegt samhengi.

Ráðstefnan verður haldin á Grand hóteli við Sigtún í Reykjavík og hefst kl 13 fimmtudaginn 15. október. Flutt verða sjö erindi sem veita innsýn í getu matvælaframleiðslunnar til að standa undir innlendri atvinnustarfsemi og afla þjóðarbúinu tekna en jafnframt verða dregin fram tækifærin við sjóndeildarhringinn. Þátttöku á ráðstefnuna þarf að tilkynna á vefsíðu MNÍ, www.mni.is. Þátttökugjald er 3.500 kr en 2.000 kr fyrir námsmenn.

Á ráðstefnunni verður Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Gripurinn er hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá árinu 1993 verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. MNÍ gefur út tímaritið Matur er mannsins megin með ítarlegri umfjöllun um matvæli, næringu og efni Matvæladags ár hvert. Tímaritinu er dreift um allt land.

Dagskrána má finna hér.

Fréttir

Hollari tilbúnar kjötvörur – verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

Verkefninu „Hollari tilbúnar kjötvörur“ er nú að mestu lokið. Matís, undir verkstjórn Emilíu Martinsdóttur, hafði umsjón með verkefninu sem hófst árið 2006.

Markmiðið með verkefni þessu var að nota tæknilegar lausnir til að lækka salt í unnum kjötvörum án þess að breyta neyslugæðum þeirra. 
Verkefnisstjóri var Emilía Martinsdóttir, Matís ohf.


Heiti verkefnis: Hollari tilbúnar kjötvörurVerkefnisstjóri: Emilía Martinsdóttir, Matís ohf., emilia.martinsdottir()matis.is
Styrktegund: Verkefnisstyrkur
Verktími: 2 ár, hófst 2006
Styrkur: 8,001 millj. kr.
Umsjónarmaður Rannís: Lýður Skúli Erlendsson
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 061356

VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Neysla á salti (NaCl) er mun hærri en ráðlagður dagsskammtur hjá Íslendingum eins og mörgum þjóðum Evrópu. Neytendur matvæla verða sífellt meðvitaðri um hollustu og merkingu matvæla og stórmarkaðakeðjur erlendis eru farnar að taka verulegt tillit til þess í framboði sínu. Auk þess að gefa matvælum eftirsótt bragð er saltið hluti af verkun matvæla og hefur áhrif á geymsluþol. Markmiðið með verkefni þessu var að nota tæknilegar lausnir til að lækka salt í unnum kjötvörum án þess að breyta neyslugæðum þeirra. 

Lýðheilsumarkmiðin eru að konur neyti minna en 6 g/d salts og karlmenn 7 g/d sem samsvarar 2,4 and 2,8 g/d af natríum (Nordic Nutrition Recommendations 2004 – Integrating nutrition and physical activity. 4th edition. Nord 2004:13, Nordic Council of Ministers, Copenhagen 2004). Árið  2002 var meðaldagsskammtur íslenskra karlmanna 10 g NaCl/d en kvenna. 7 g NaCl/d . Til þess að ná fram minnkandi notkun salts er mikilvægt að minnka salt í unnum matvörum, brauði, kjöti og fiski. Salt (natríum klóríð) gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum unnum matvælum og því er ekki einfalt að draga úr notkun þess án þess að eiginleikar matvælanna breytist. Salt hefur áhrif á bragð, heftir örveruvöxt og hefur veruleg áhrif á áferð og bindingu annarra efna.

Markmið verkefnisins „Hollari kjötvörur“ var að þróa hollari tilbúnar kjötvörur með minna af salti og harðri feiti með það í huga að hægja á þróun hjarta- og æðasjúkdóma og stuðla að minni offitu meðal almennings. Verkefnið var  hluti ERA-SME-áætlunarinnar „Food for better human health“  í samstarfi við spænska aðila.  Að íslenska hluta verkefnisins stóðu Norðlenska ehf.,  Matvælarannsóknir Íslands ohf. og Rannsóknastofa í næringarfræði.  Spænsku samstarfsaðilarnir voru ráðgjafafyrirtækið Eurocatering Food Service, S.L. , kjötvinnslufyrirtækið Cádido Míró og tækniþróunarstofnunin AINIA í Valencia.  Í  verkefni þessi var leitað ýmissa leiða til að framleiða unnar salt- og fituskertar kjötvörur og framleiddar voru frumgerðir af fitu- og saltskertum vörum hjá fyrirtækinu Norðlenska. Vörurnar voru efnagreindar og  gert skynmat til að rannsaka áhrif á bragð, lykt og áferð nýju varanna. Einnig voru gerðar viðamiklar neytendakannanir til að komast að því hvernig neytendum líkaði við hinar nýju vörur. Að lokum var gerð viðhorfskönnum meðal neytenda til matvöru með minna salti og minni fitu.  Áhrif merkinga á kjötvöru þar sem minna salt og minni fita var merkt á vöruna voru einnig skoðuð.  

Í verkefninu tókst að framleiða fitu- og saltskertar vörur úr þremur vöruflokkum: nýjar kjötvörur,forsteiktar kjötvörur og álegg. Fitu- og saltskertar kjötbollur eru tilbúnar á markað. Nýja varan fékk mjög góða dóma hjá neytendum og líkar jafnvel betur en sú vara sem var á markaði. Aðrar tvær vörur eru komnar mjög langt í vöruþróun og hefur fyrirtækið nú þekkingu og reynslu til að ljúka þeirri vöruþróun og halda áfram með þróun slíkra vara. Fyrirtækið ætti að vera í stakk búið til að setja nýja vörulínu á markað með hollari unnum kjötvörum þegar markaðsaðstæður eru réttar.  Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal neytenda gefa til kynna að neytendur hafi áhuga á fituminni kjötvörum og flestir myndu kaupa þá vöru væri hún í boði.  Til að höfða til neytenda þurfa þó fituminni kjötvörur að standast samanburð við þær venjulegu í gæðum.  Tilgangur íhlutandi rannsóknar var að kanna hvort fitu- og/eða saltskertar unnar kjötvörur geti verið hluti af heilsubætandi mataræði meðal karla á aldrinum 40 til 60 ára. Í þrjár vikur voru þátttakendur beðnir um að fylgja orkuskertu mataræði, sem svaraði um 30% orkuskerðingu miðað við grunnorkuþörf. Til þess fengu þeir sérsniðna matseðla. Marktæk, jákvæð heilsufarsáhrif komu fram í þátttakendum meðan á rannsókninni stóð. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að neysla á unnum fitu- og saltskertum kjötvörum kemur ekki í veg fyrir að jákvæðar heilsufarslegar breytingar eigi sér stað meðan mataræði, orkuskertu um 30% miðað við grunnorkuþörf, er fylgt.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

Framleiðsluferill fyrir vörur fitu- og saltskertar vörur úr þremur vöruflokkum: nýjar kjötvörur,forsteiktar kjötvörur og álegg.

Matís-neytendapróf í vöruþróun og markaðssetningu ferill fyrir þjónustu sem boðið verður upp á fyrir íslenska matvælaframleiðendur (TasteNet).

  1. Hvernig er hægt að gera kjötvörur hollari? Ólafur Reykdal, Matís
  2. Skýrsla um heilsufarsáhrif salt- og fituskerðingar kjötvara frá Norðlenska., Atli Arnarson, Alfons Ramel. RÍN 
  3. Tilraunaskýrsla um þróun frumgerða hjá Norðlenska. Aðalheiður Ólafsdóttir, Emilía Martinsdóttir. Júní 2008 MATÍS
  4. Skýrsla um vöruþróun á hollari kjötvörum. MATÍS-skýrsla  nr.  25-09. Aðalheiður Ólafsdóttir, Ólafur Reykdal, Óli Þór Hilmarsson, Gunnþórunn EInarsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Þóra Valsdóttir, Emilía Martinsdóttir og Guðjón þorkelsson, ágúst 2009
  5. Hollari kjötvörur . Skýrsla um íhlutunarrannsókn. Íhlutun Atli Arnarsson og  Alfons Ramel, RÍN, ágúst 2009

Væntanlegar birtingar: 

Viðhorf íslenskra neytenda til hollari íslenskra kjötvara birt í íslensku tímariti eins og Bændablaðinu.

Niðurstöður íhlutunarrannsókna RÍN verða hluti af vísindagrein.

Fréttir

Umtalsverð viðbót við hefðbundinn sjávarútveg

Rannsóknir á sviði líftækni og lífefnafræði geta leitt til þess að unnt verði að vinna mikil verðmæti úr aukaafurðum í sjávarútvegi og öðru sjávarfangi.

Nýlega birtist mjög athyglisvert viðtal við Hörð G. Kristinsson, sviðsstjóra hjá Matís.

Viðtalið birtist í Fiskifréttum og má sjá í heild sinni hér.

Fréttir

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva – Matís með erindi

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva var haldinn á Grand Hótel v/Sigtún Reykjavík, föstudaginn 25. sept. 2009.

Hörður G. Kristinsson, sviðsstjóri hjá Matís flutti erindi um „Ný og arðbær tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg“.

Erindið má nálgast hér (ppt skjal).

Fréttir

Matís á sýningunni Matur-inn á Akureyri

Sýningin MATUR-INN 2009 verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri dagana 3. og 4. október næstkomandi. Sýningin er stærsti viðburður í starfsemi félagins Matur úr Eyjafirði – Local food en síðasta sýning var haldin haustið 2007 í Verkmenntaskólanum á Akureyri og var fjölsótt.

Sýninguna sóttu þá um 10 þúsund manns og fullljóst strax að henni lokinni að færa yrði sýningarhaldið í annað húsnæði. Því varð Íþróttahöllin nú fyrir valinu og verður henni sannarlega breytt í matarhöll og uppskeruhús þessa fyrstu helgi októbermánaðar. Matís verður með bás á sýningunni og býður alla velkomna í heimsókn.

Viðburður sem draga mun að sér þúsundir gesta
Líkt og áður er lagt upp úr því að sýningin verði í senn fjölbreytt og hápunktur í norðlenskri matarmenningu. Í boði verða sýningarsvæði fyrir fyrirtæki og félagasamtök, markaðssvæði verður einnig þar sem kjörið er að selja haustuppskeruna eða hvað annað sem tengist mat og matarmenningu. Á sýningarsvæðinu verða einnig skemmtilegar keppnir sem gestir geta fylgst með, málstofur(workshop) um ýmislegt er varðar mat og matarmenningu og loks verður haldið málþing um íslenskan mat í tengslum við sýninguna. Í senn verður því um að ræða fróðleik og skemmtun sem vafalítið mun draga að sér þúsundir gesta.

Lögð er áhersla á að sem flest fyrirtæki sem tengjast matarmenningu taki þátt og er markmið aðstandenda sýningarinnar að halda áfram þar sem frá var horfið á vel lukkaðri sýningu 2007, sýna og sanna hversu stórt hlutverk matvælin leika á Norðurlandi, allt frá framleiðslu og vinnslu til mat- og framreiðslu.

Opnunartími báða dagana er frá kl.11.00 til 17.00.

Aðgangur að sýningunni er ókeypis.

Fréttir

Villibráð – meðhöndlun og meðferð

Matís, Skotveiðifélag Íslands, Matvælastofnun og Úlfar Finnbjörnsson hjá Gestgjafanum buðu til opins fræðslufundar um þessi mál þriðjudaginn 22. september sl. Fundurinn var mjög vel sóttur og mættu vel á annað hundrað manns.

Hér fyrir neðan má sjá dagskrá fundarins og hafi fyrirlesari verið með glærur má niðurhala pdf skjal sem inniheldur glærusýningu með því að smella á titil fyrirlestursins.

08:30-08:35 – Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra – Fundur settur
08:35-08:45 – Ívar Erlendsson, leiðsögumaður/hreindýraguide – Eftir skotið, hvað þá?
08:45-08:55 – Sigmar B. Hauksson, Skotvís – Betri nýting villibráðar – meiri ánægja, fleiri minningar?
08:55-09:05 – Kjartan Hreinsson, MAST – Löggjöf um meðferð og meðhöndlun villibráðar
09:05-09:15 – Guðjón Þorkelsson, Matís – Um meðferð og meðhöndlun villibráðar; tækifæri í vöruþróun?
09:15-09:25 – Úlfar Finnbjörnsson, Gestgjafinn – Fullnýting afurðanna ásamt kryddun, eldun og meðlæti!
09:25-09:45 – Spurningar, svör, umræður

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, steinar.b.adalbjornsson@matis.is.

Fréttir

New Nordic Food – Ný norræn matvæli

Dagana 2.-3. nóvember verður málstofan New Nordic Food – from vision to realizations haldin í  Borupgaard, Snekkersten, 30 km fyrir norðan Kaupmannahöfn.  Á málþinginu verður rætt um möguleika og framtíð norrænna matvæla.

Meginmál

Norræna ráðherranefndin, Nordic Innovation Center og Det Biovidenskabelige Fakultet ved Köbenhavns Universitet standa að málþinginu sem haldið er í lok verkefnisins New Nordic Food.  Markmið verkefnisins var að halda á lofti norrænum gildum innan matargerðar og ferðaþjónustu á Norðurlöndunum og vinna á sviði heilsu, hollustu, atvinnusköpunar, hönnunar og verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu. Skoðið ráðstefnubækling hér.

Skráningargjald er DKK 1000 og skráning er á síðunni:  http://cms.ku.dk

Skráningu lýkur 2. október.

Fréttir

TAFT ráðstefna í Kaupmannahöfn

Dagana 15.-18. september. var haldin í Kaupmannahöfn ráðstefnan TAFT 2009 . Efni frá Matís var mjög sýnilegt á ráðstefnunni og veggspjaldið Arctic’ tilapia (Oreochromis niloticus) – Optimal storage and transport conditions for fillets var valið besta veggspjald ráðstefnunnar.

Meginmál

TAFT ráðstefnur (Trans Atlantic Fisheries Technology Conference) er vettvangur þar sem margir af fremstu vísindamönnum Evrópu, Bandaríkjanna og Kanada á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess koma saman og bera saman bækur sínar. Þessi ráðstefna var þriðja TAFT ráðstefnan. Að ráðstefnunum standa WEFTA (West European Fish Technologists Association), sem eru samtök vísindamanna á sviði fiskiðnaðarrannsókna í V-Evrópu og AFTC (Atlantic Fisheries Technologists Conference), sem eru sambærileg samtök vísindamanna á austurströnd N-Ameríku og Kanada.

Þrír vísindamenn frá Matís héldu erindi á ráðstefnunni:

Eyjólfur Reynisson, Matís. Rapid quantification of specific spoilage organisms (SSOs) in fish using real-time PCR. Einblöðungar: GæðastokkurQuality meter. Mynd af fyrirlesara.

Tao Wang, University of Iceland and Matís. Algal polyphenols as novel natural antioxidants.

Björn Margeirsson, Matis. Experimental and numerical investigation of thermal performance of wholesale fresh fish packaging.

Starfsmaður Matís var meðhöfundur í einu erindi:

Themistoklis Altintzoglou, Nofima Marine, Norway. Torstein Skåra, Þóra Valsdóttir, Rian Schelvis, Joop Luten. New seafood concepts for young adults, a voice-of consumers approach.

Tveir nemendur héldu stutt kynningarerindi:

Nguyen Van Minh, University of Iceland and Matis, Iceland – The effects of different storage temperatures on the quality of salted cod.

Gholam Reza Shaviklo, University of Iceland and Matis and Iran Fisheries Organization (Shilat), Iran –  Effects of different drying methods on lipid oxidation, sensory attributes and functional properties of saithe surimi.

Matís var með 3 veggspjöld og þátttakandi í því fjórða:

‘Arctic’ tilapia (Oreochromis niloticus) – Optimal storage and transport conditions for fillets. Emilía Martinsdóttir, Cyprian Ogombe Odoli, Hélène L. Lauzon,  Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason, Ragnar Jóhannsson.

Implementation of novel technologies in field trials in the fish and poultry supply chains. Guðrún Ólafsdóttir, Victor Popov, Ian Bruce, Emilía Martinsdóttir, Idan Hammer, Sigurður Bogason, Christian Colmer, Maria Bunke, Matthias Kück.

Bioactivity of phlorotannins in brown seaweed, Fucus vesiculosus. Rósa Jónsdóttir, Tao Wang, María Jesús Gonzalez, Isabel Medina, Hörður G. Kristinsson, Guðrún Ólafsdóttir.

TasteNet, a European consumer panel in development with satellites in the Netherlands, Norway, France and Iceland Joop B. Luten, Rian Schelvis, Adriaan Kole, Mats Carlehøg, Mireille Cardinal, Jean Luc Vallet and Emilia Martinsdottir.

Fréttir

Íblöndun próteina í fisk

Meistaraprófsfyrirlestur í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild, Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Matís, fundarsalur á fyrstu hæð, Skúlagata 4, á morgun, þriðjudaginn 29. september kl. 16-17.

Magnea G. Karsdóttir flytur erindi um MS verkefni sitt.

„Application of additives in chilled and frozen white fish fillets- Effects on chemical and physicochemical properties“

Leiðbeinandi:               Sigurjón Arason, dósent í matvælavinnslu

Meðleiðbeinandi:           Guðjón Þorkelsson, dósent í matvælavinnslu

Meistaraprófsnefnd:      Sigurjón Arason, Guðjón Þorkelsson og
                                      María Guðjónsdóttir sem er starfsmaður Matís  

Prófdómari:                  Hörður G. Kristinsson, Sviðsstjóri hjá Matís

Verkefnið er styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Tækniþróunarsjóði og Nordisk InnovationsCenter.

S amantekt – MS verkefni.
Megin markmið verkefnisins var að rannsaka íblöndun hjálparefna, þá sér í lagi fisk próteina, og áhrif þeirra á efna- og eðliseiginleika kældra og frystra fiskiflaka. Fersk flök af ufsa og þorski og léttsöltuð flök af þorski voru sprautuð með nokkrum próteinblöndum og borin saman við ómeðhöndluð flök og flök sem voru sprautu söltuð (1.5% og 4%). Flökin voru síðan geymd við +2°C og -24°C í mislangan tíma. 

Þeir þættir sem voru skoðaðir voru nýting, vatnsheldni, efna samsetning og T2 transversal relaxation tímar. Íblöndun próteinanna jók þyngdarupptöku við sprautun samanborið við saltsprautuð flök, en þó mismikið eftir próteintegund. Viðbættu próteinin höfðu einnig þau áhrif að nýting eftir geymslu jókst verulega og magn drips lækkaði samanborið við ómeðhöndluð og sprautusöltuð flök.

Þau prótein sem höfðu mest áhrif voru vatnsrofin fiskprótein (FPH) og himnusprengd fiskprótein (HFP), en þau gáfu einnig tiltölulega betri heildarnýtingu hjá þorsk flökunum. Íblöndun með próteinum og/eða salti hafði aftur á móti lítil áhrif á vatnheldni flakanna, en það var búist við því að vatnsheldnin yrði betri samanborið við ómeðhöndluð flök.

Sú blanda sem hafði jákvæðustu áhrif á vatnsheldnina var FPH. Íblöndun á próteinum í ufsa og þorskflök hefur í heildina á litið jákvæð áhrif við að bæta stöðugleika og gæði flakanna, en þörf er á að þróa og besta íblöndunaraðferðirnar með tillit til hráefnisins.

Þorskflökin sýndu betri niðurstöður samanborið við ufsaflökin. Ufsaflökin virðast vera mun viðkvæmari fyrir innsprautun og frystingu heldur en þorskflök, en los er þekkt vandamál hjá flökum úr ufsa. Íblöndun fiskpróteina er kostur sem vert er að skoða nánar með það að markmiði að auka nýtingu og verðmæti sjávarafurða.

Fréttir

Vísindin lifna við á Vísindavöku

Vísindavaka 2009 verður haldin föstudaginn 25. september i Listasafni Reykjavíkur frá kl. 17 til kl. 22. Matís er þátttakandi á vísindavökunni og reikna má með fjölmenni í heimsókn.

Dagurinn er tileinkaður evrópskum vísindamönnum og haldinn hátíðlegur í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með Vísindavöku og atburðum henni tengdum er að færa vísindin nær almenningi, kynna fólkið á bak við rannsóknirnar og vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamélagi. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi.

Sprengjugengið og fleiri mæta!

Á Vísindavöku er fullt af fróðleik fyrir fólk á öllum aldri og í ár verður boðið upp á atriði á sviði og má þar nefna Sprengjugengið sem mætir á svæðið, fólk getur reynt að reka Vísindavefinn á gat, stjörnustrákarnir finna upp á einhverju sprelli og nýir vísindaþættir Ara Trausta verða kynntir. Á Vísindavöku kynnir vísindafólk frá háskólum, stofnunum og fyrirtækjum rannsóknarverkefni fyrir almenningi á lifandi og skemmtilegan hátt. Gestir fá að skoða og prófa ýmis tæki og tól sem notuð eru við rannsóknir, skoða afurðir verkefna og spjalla við vísindafólkið sjálft um hvernig er að starfa að vísindum, rannsóknum og nýsköpun. Fjölskyldan er í fyrirrúmi á Vísindavöku og gefst þar kjörið tækifæri til að kynna heim vísinda og tækni fyrir börnum og unglingum, en ungt fólk er sérstaklega velkomið á Vísindavöku.

Vonandi sjá sem flestir sér fært að kíkja á Listasafn Reykjavíkur og spjalla við vísindamenn og skoða það sem fyrir augu ber á Vísindavöku. Enginn aðgangseyrir er og allir eru velkomnir. Hér má finna yfirlit yfir dagskrá og þátttakendur.

IS