Fréttir

Starfsmaður Matís ver meistararitgerð sína í dag

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, meistaranemi í umhverfisfræði við Háskóla Íslands mun í dag, klukkan kl. 15:15 í stofu V-157 í VR2, verja meistararitgerð sína í umhverfis-og auðlindafræði.  Meistararitgerðin ber nafnið Life Cycle Assessment on Icelandic cod product based on two different fishing methods.

Verkefni Aðalbjargar er unnið í samvinnu Matís, Verkfræðideildar Háskóla Íslands og sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf og Fisk Seafood hf.  Í útdrættinum úr ritgerðinni kemur m.a. fram:

Vistferilgreining (LCA) gerir okkur kleift að fá heilstæða mynd af lífsferli vöru eða þjónustu. Í þessu MS verkefni er tekið fyrir og borið saman 1 kg af léttsöltuðu lausfrystu þorskflaki með roði og beini veiddu með botnvörpu annars vegar og á línu hins vegar. Upplýsingum var safnað frá tveimur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum FISK Seafood sem átti og rak ístogarann Hegranes SK og Vísi hf sem á og rekur línubátinn Kristínu ÞH. Gögnum var safnað frá vinnslustöðum beggja fyrirtækja, FISK Seafood á Sauðárkrók og Vísis hf á Þingeyri. Vörunni var svo fylgt frá vinnslu í gegnum flutninga til Sevilla á Spáni þar sem varan er seld. Helstu niðurstöður eru þær að þorskur veiddur í botnvörpu hefur umtalsvert meiri umhverfisáhrif innan allra þeirra umhverfisþátta sem tekið var tillit til. Mestu umhverfisáhrifin eru að finna innan fiskveiðanna sjálfra sem kemur til vegna olíunotkunar skipanna. Til að veiða 1 kg af því er samsvarar fullunninni afurð þá brennir fiskveiðiskipið með botnvörpuna 1,1 líter af olíu á meðan línuskip notar 0,36 lítra. Umtalsverð umhverfisáhrif er einnig að finna innan frystihúsanna þar sem að vinnslan fer fram sér í lagi vegna kælimiðla sem þar eru notaðir. Flutningur á afurðinni er einnig stór þáttur í umhverfisáhrifunum þar sem að afurðinni er keyrt kældri langar leiðir og flutt sjóleiðis í kældum gámum til Evrópu með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Reiknuð voru út svokölluð sótspor sem segja til um útblástur gróðurhúsategunda umreiknuð yfir í koltvísýringsígildi. Sótspor 1 kg þorsks sem veiddur er með botnvörpu eru 5,14 kg koltvísýringsígildi á meðan sótspor sama magns af línuþorski er 1,58 kg koltvísýringsígildi.

Fréttir

Kvikasilfur í urriða úr Þingvallavatni

Matís og rannsóknafyrirtækið Laxfiskar héldu fund til að kynna niðurstöður sameiginlegrar rannsóknar á magni kvikasilfurs í urriða úr Þingvallavatni. 

Rannsóknin hafði manneldissjónarmið að leiðarljósi og var framkvæmd til að draga upp mynd  af magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðum með hliðsjón af stærð þeirra og forsögu. Fundurinn var haldinn miðvikudaginn, 27. maí 2009, kl 14:00 í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, á 1. hæð.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kvikasilfur er mælanlegt í Þingvallaurriða. Kvikasilfur getur verið mjög eitrað, sérstaklega fyrir þroska heilans. Hámarksgildi kvikasilfurs í laxfiskum samkvæmt íslenskum og evrópskum reglugerðum er 0,5 mg/kg.  Ekki má dreifa eða selja matvæli sem fara yfir hámarksgildi sem sett eru í íslenskum reglugerðum vegna þess að slík matvæli geta verið skaðleg heilsu neytenda. Magn kvikasilfurs í Þingvallaurriða er á bilinu 0,02 – 1,02 mg/kg. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að sterk fylgni er milli lengdar Þingvallaurriða og magns kvikasilfurs. Urriði sem er lengri en 60 cm er mjög líklegur til að innihalda kvikasilfur í magni sem yfirstígur leyfileg mörk. Smærri urriðinn er gegnumsneitt undir þeim mörkum sem leyfileg eru og því er óhætt að neyta hans. Mælt er með að urriðar sem eru lengri en 60 cm séu ekki nýttir til matar en að þeim sé sleppt aftur í vatnið þar sem þeir eru mikilvægir vexti og viðgangi urriðastofnsins í Þingvallavatni. Niðurstöðurnar sýndu að kvikasilfursmengunina var að finna í sambærilegu magni í urriða vítt og breitt úr Þingvallavatni. Hinsvegar fundust vísbendingar sem bentu til þess að kvikasilfursmengun geti verið nokkru meiri á einu svæðanna. Því er talið æskilegt að gera frekari rannsóknir til að kanna mögulegan svæðabundin mun í styrk kvikasilfurs í umhverfi Þingvallavatns.

Varðandi hættu neytenda á neyslu matvæla með hærri styrk kvikasilfurs er vert að benda á að sérstaklega er mikilvægt að einstæklingar í ákveðnum áhættihópum, eins og barnshafandi konur og konur með börn á brjósti, forðist slík matvæli.

Rannsóknin var styrkt af Umhverfis og orkurannsóknarsjóði Orkuveitu Reykjavíkur (UOOR).

Franklín Georgsson, Helga Gunnlaugsdóttir og Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Matís og Jóhannes Sturlaugsson, Laxfiskum.

Fréttir

Ný framleiðsluaðferð fyrir marningsblöndu til innsprautunar í fiskafurðir

Helstu vandamál við notkun marnings í flök hafa tengst stöðugleika hans og öðrum gæðaþáttum.  Með bættum eiginleikum marnings og stöðugleika til innsprautunar er hann vænlegri kostur sem hráefni í ýmsar vörur sem leiðir til verðmætaaukningar hans.  

Bæði er hér um að ræða bætta nýtingu á aukahráefni og bætta nýtingu á afurðum.  Við innsprautun í flök er marningurinn orðinn hluti af dýrari afurð og útflutningsverðmæti því meira samanborið við útflutningsverðmæti marnings.

Markmið verkefnisins „Himnusprenging marnings“ var að þróa nýja framleiðsluaðferð fyrir marningsblöndu til innsprautunar í fiskafurðir sem byggði á jöfnun (himnusprengingu)  en verkefninu er nú lokið.  Ferillinn sem þróaður var skilar góðum árangri hvað varðar stöðugleika, vatnsheldni, útlit og sprautanleika blöndunnar. Áhrif á örverur voru mismunandi eftir hráefni og ferlum sem notaðir voru en þau voru ekki merkjanleg í öllum tilfellum. Ef þrýstingur er nægur þó hægt að fækka örverum.   Ávinningur af sprautun fiskafurða felst í aukinni nýtingu og gæðum sprautaðra afurða sem geta skilað umtalsverðum ávinningi med lágmarks tilkostnaði.  Sprautaðar afurðir voru viðkvæmari fyrir frystingu en kælingu með tilliti til þyngdartaps eftir sprautun.  Hættan við kældar afurðir er þó ætíð sú að geymsluþol skerðist þar sem örverur dreifast auðveldlega um vöðvann með sprautun.  

Ávinningur þessarar framleiðsluaðferðar er ekki aðeins fólgin í aukinni nýtingu fiskafurðar vegna sprautunar.  Einnig  eykst verðmæti marningsins umtalsvert við það eitt að verða hluti af verðmætari afurð eins og flökum eða flakabitum.

Verkefnið var styrkt af AVS og Tækniþróunarsjóði.  Samstarfsaðilar voru Matís ohf, Síldarvinnslan hf og Iceprotein hf. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.
Ferill til meðhöndlunar á marningi til innsprautunar í flök.
Hluti af meistaranámsverkefni Magneu G. Arnþórsdóttur í Matvælafræði við Háskóla Íslands.
Lokaverkefni Zhao Qiancheng við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

Skýrslur
Zhao Qiancheng.  2009.  Effects of salt and protein injection on yield and quality changes during storage of chilled and frozen saithe fillets.  A report of final project submitted to the UNU-Fisheries Training Programme  in partialfulfillment of the requirements for the specialist line: Quality Management of Fish Handling and processing.  Í undirbúningi

Kristín Anna Þórarinsdóttir, Magnea G. Arnþórsdóttir, Irek Klonowski,  Arnljótur Bjarki Bergsson, Sindri Sigurðsson, Sigurjón Arason.  2009 Jöfnun – aukin gæði og bættir eiginleikar marnings. Matísskýrsla xx-09. Í undirbúningi. 

Tæknilegar skýrslur
1.       Tilraunaskýrsla úr fortilraunum: Fortilraunir við jöfnun á marningi og sprautun í flök.
2.       Tilraunaskýrsla í verkþætti 1: Þróun á ferlum við jöfnun á marningi til sprautunar.
3.       Tilraunaskýrsla í verkþætti 2: Áhrif fisktegunda og hráefnisgæða á jöfnun marnings.
4.       Tilraunaskýrsla í verkþætti 2 (og 3): Tilraunir með sprautun á marningsblöndum (I).
5.       Tilraunaskýrsla í verkþætti 3: Tilraunir með sprautun á marningsblöndum (II).
6.       Tilraunaskýrsla í verkþætti 3: Tilraunir með sprautun á marningsblöndum (III).
7.       Samantekt í verkþætti 4: Einkaleyfishæfni ferils við jöfnun á marningi.

Fréttir

Grein eftir starfsmenn Matís í Food Chemistry

Nýlega birtist grein í ritrýnda tímaritinu Food chemistry um andoxunarvirkni íslenskra sjávarþörunga (Tao Wang, Rósa Jónsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir. 2009. Total phenolic compounds, radical scavenging and metal chelation of extracts from Icelandic seaweeds. Food chemistry, 116, 240-248).

Um er að ræða niðurstöður úr verkefninu Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources) sem AVS sjóðurinn styrkir.

Þörungar innihalda m.a. fjölfenól sem hafa mikla lífvirkni, m.a. andoxunarvirkni. Fyrir tveimur árum var mörgum þörungategundum safnað, heildarmagn fjölfenóla ákvarðað og andoxunarvirkni þeirra metin með nokkrum andoxunarprófum (antioxidant assays). Brúnþörungunum bóluþangi, hrossaþara, marinkjarna, sagþangi og stórþara var safnað, einnig sölvum og fjörugrösum sem eru rauðþörungar og maríusvuntu sem er grænþörungur. Í ljós kom að mesta magn fjölfenóla fannst í brúnþörungunum, sérstaklega í bóluþangi og mikil fylgni var á milli magns fjölfenóla og andoxunarvirkni þörunganna. Fyrstu vísbendingar sýna einnig að bóluþang hafi blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) en þetta þarf að skoða nánar.

Út frá þessum niðurstöðum var ákveðið að safna meiru af bóluþangi og sölvum og rannsaka enn frekar. Næsta grein úr verkefninu er tilbúin til birtingar en hún fjallar eingöngu um söl og einangrun þráahindrandi efna úr þeim.

Nánari upplýsingar veitir Rósa Jónsdóttirrosa.jonsdottir@matis.is

Fréttir

Meistaraprófsvörn í matvælafræði við Háskóla Íslands

Meistaraprófsvörn í matvælafræði við Háskóla Íslands verður haldin þriðjudaginn 26. maí 2009 í húsakynnum Matís að Skúlagötu 4 og hefst kl 15.00. Guðjón Þorkelsson mun kynna og stjórna vörninni.

Meistaraprófsneminn Cyprian Ogombe Odoli frá Kenya fyrrum nemandi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) hefur nú lokið verkefni sínu á þessu sviði.

Leiðbeinendur voru: Sigurjón Arason og Emilía Martinsdóttir

Verkefnið Arctic Tilapia sem unnið hefur verið að hjá Matís er styrkt af Tækniþróunarsjóði og er markmið verkefnisins að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfiskinum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuaflsvirkjun hagkvæmt hérlendis. Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri hjá Matís ohf. stendur að fyrirtækinu Arctic Tilapia ásamt öðrum og hafa þeir að markmiði að rækta tilapia fisk á Íslandi. Til þess að svo getir orðið verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar. Ekki er hægt að keppa á mörkuðum fyrir frosinn fisk því samkeppnin frá Austur-Asíu er of hörð. Forsenda fyrir hagkvæmi er að og selja fiskinn á verðmiklum mörkuðum í Evrópu eins og á markaði fyrir fersk flök en til að það sé hægt þarf að flytja flökin sjóleiðis og leysa ákveðin ferskleikavandamál sem því fylgja. Framtíðarsýn er að nýta megi  lágvarma frá gufuaflsvirkjunum til að framleiða í miklu magni flök fyrir verðmæta markaði. 

Fréttir

Ofred J.M. Mhongole ver meistaraprófsritgerð

Meistaraprófsneminn Ofred, J.M. Mhongole frá Tanzaníu fyrrum nemandi við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) hefur nú lokið meistarverkefni sínu og mun verja ritgerð sína kl. 14 þriðjudaginn 26. maí að Skúlagötu 4.

Guðjón Þorkelsson hjá Matís mun kynna og stjórna vörninni.

Meistaraprófsneminn Ofred, J.M. Mhongole frá Tanzaníu fyrrum nemandi við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) hefur nú lokið verkefni sínu á þessu sviði.

Leiðbeinandi var: Franklín Georgsson

Verkefnið “Microbiology and Spoilage Trail in Nile perch ( Lates niloticus), Lake Victoria, Tanzania” var unnið á rannsóknastofu Fiskeftirlitsins í Tanzaníu og hjá Matís. Verkefnið var styrkt af Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) og af “National Fish quality Control Laboratory (NFQCL)-Nyegezi” í Tanzaníu.

Helstu markmið verkefnisins voru að rannsaka náttúrulega örveruflóru nílarkarfa og geymsluþol óunnins fisks og unninna fiskflaka við kjöraðstæður á rannsóknastofu og við hefðbundnar vinnsluaðstæður í fjórum fiskvinnslufyrirtækjum við Viktoríuvatn í Tanzaníu.

Nílarkarfi er mjög mikilvægur nytjafiskur fyrir þau lönd sem eiga fiskveiðiréttindi í Viktoríuvatni og er mikilvægur fyrir útflutningstekjur þessara landa. Fiskurinn er að mestu fluttur út í ferskum eða frystum flökum. Mestur er útflutningurinn til landa Evrópusambandsins og eru fersku flökin flutt úr landi með flugi. Þar sem takmarkaðar rannsóknir hafa verið gerðar á örveruástandi og geymsluþoli nílarkarfa var markmiðið með rannsókninni að afla grunnupplýsinga um þá örverufræðilegu þætti sem helst hafa áhrif á geymsluþolið. Rannsakað var með sérhæfðum ræktunaraðferðum hvaða örveruhópar hefðu mest áhrif á skemmdarferilinn auk þess sem notast var við ákveðnar efnamælingar og skynmat til að meta ferskleika vörunnar. Niðurstöðurnar geta síðan reynst mikilvægar við að meta árangur nýrra vinnslu- og flutningsaðferða við framleiðslu og dreifingu nílarkarfa.

Fréttir

NÝTT! Námskeið fyrir starfsmenn veitingastaða

Matís stendur fyrir námskeiðum um allt land fyrir starfsmenn veitingastaða og hótel- og ferðaþjónustuaðila er meðhöndla matvæli.

Tilgangur námskeiðanna er að undirbúa starfsmenn veitingastaða fyrir komandi ferðamannavertíð með því að fara yfir helstu atriði varðandi meðhöndlun matvæla og matvælaöryggi. Á námskeiðinu er farið yfir helstu sýkla er finnast í matvælum og umhverfi matvæla og hvernig varna má viðkomu þeirra og fjölgun. Jafnframt er farið yfir kröfur varðandi innra eftirlit og hvernig setja má upp og virkja innra eftirlit á veitingastöðum og hjá hótel- og ferðaþjónustuaðilum er meðhöndla matvæli.

Nánari upplýsingar má finna hér (smelltu til þess að sjá nánar – pdf skjal).

Önnur námskeið á döfinni hjá Matís:

Almennt námskeið fyrir starfsmenn i fiskvinnslu og Innra eftirlit í fiskvinnslum.

Smelltur hér fyrir nánari upplýsingar um þessi námskeið og önnur sem í boði eru hjá Matís.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarsonmargeir.gissurarson@matis.is.

Fréttir

Þekktir skelræktarsérfræðingar á ferð um landið – í dag á Akureyri

Í þessari viku hafa Dr. Terence O´Carroll og Dr. Cyr Couturier verið í heimsókn á Íslandi og meðal annars ferðast með Matís fólki og kynnt sér skelrækt á Ísland. Auk þess heimsækja þeir háskólann á Akureyri í dag.

Þessir mætu menn tóku þátt í ráðstefnunni “Innovation in the Nordic Marine Sector” sem haldin var á vegum Norrænu Ráðherranefndarinnar þann 12. maí í Reykjavík. Í framhaldi munu þeir eiga fund með forsvarsmönnum frá Háskólanum og fyrirtækjum á svæðinu í dag, miðvikudaginn 13. maí. 

Dr. Terence O´Carroll býður upp á fræðsluerindi um skelrækt en Dr. O´Carroll er framkvæmdastjóri tæknideildar írska sjávarútvegsráðsins (Irish Sea Fisheries Board) og hefur gegnt þeirri stöðu síðstu 20 árin. Nánari upplýsingar um Dr. O´Carroll fylgja fyrir neðan.

Dr. Cyr Couturier er formaður kanadísku fiskeldisáætlunarinnar (Canadian Aquaculture Programmes) auk þess sem hann starfar við kennslu og rnansóknir við Sjávarútvegsstofnun Memorial University á Nýfundnalandi. Dr. Couturier mun dvelja á Akureyri í nokkra daga og heldur hér m.a. námskeið fyrir forsvarsmenn fyrirtækja í skelrækt og fundar með sérfræðingum Háskólans og samastarfsstofnana um rannsóknir og rannsóknasamstarf á þessu sviði.

Dr. Terence O’;;;Carroll has been with An Bord Iascaigh Mhara for 20 years. On starting with BIM (Bord Iascaigh Mhara – Irish Sea Fisheries Board) he worked with both the fishing and aquaculture sectors but with the restructuring of BIM in 1989 he transferred to the newly formed Aquaculture Technical Section of which he is in charge.  The section deals with all aspects of finfish, shellfish and seaweed culture and is involved in developing and introducing new technology for the industry as well as helping the industry with various problems that arise. Recent and ongoing projects for the section have included carrying capacity and water quality modelling (UISCE), surveying for seed mussels, developing of improved methods for shellfish culture (including offshore trials), commercialising new species such as perch, abalone and urchins.

Fréttir

Fjölbreyttar og verðmætar afurðir úr eldisþorski

HG hefur í samvinnu við Matís ohf. unnið að þróun vinnsluferla fyrir eldisþorsk.  Afurðir þykja fyllilega sambærilegar við afurðir úr villtum þorski. 

Meginmuninn á framleiðslu þessarra afurða liggur í því að vinna verður eldisþorskinn fyrir dauðastirðnun. Að öðrum kosti verður losmyndun það mikil að afurðir lenda í lægsta verðflokki (blokk).  Ekki er hægt nota hefðbundna söltunarferlar við vinnslu á eldisþorski þar sem dauðastirðnunin vinnur á móti upptöku pækils. Í verkefninu var unnið að þróun nýrra söltunarferla sem tóku mið af ólíkum eiginleikum eldisþorsks samanborið við villtan þorsk. 

Verkefninu „Vinnsla og gæðastýring á eldisþorski” (AVS R26-06) sem unnið var í samstarfi HG og Matís er lokið.  Meginniðurstöður verkefnisins hafa verið teknar saman í Matís-skýrslu og  fylgir ágrip hennar hér á eftir:

Leitað var leiða til að þróa og aðlaga hefðbundnar aðferðir við framleiðslu ferskra, frystra og léttsaltaðra afurða þannig að þær nýttust við vinnslu á eldisfiski.  Markmiðið með verkefninu var að afurðir úr eldisþorski gæfu verðmætar og fjölbreyttar afurðir sem uppfylltu gæðakröfur markaðarins fyrir þorskafurðir.  Ein af megin niðurstöðu verkefnisnins var að vinnsla á eldisþorski verður að eiga sér stað áður en dauðastirðnun hefst.  Að öðrum kosti er hætta á því að losmyndun eigi sér stað og verðfelli afurðir sem eru unnar úr eldisþorski og jafnvel verði losið það mikið að afurðir lendi í lægsta verðflokki.  Tekist hefur að framleiða kældar og lausfrystar afurðir úr eldisþorski sem eru að sambærilegum gæðum og afurðir unnar úr villtum þorski.  Eiginleikar eru þó ekki þeir sömu, kemur það meðal annars fram í bragði og áferðaeiginleikum.  Villtur þorskur er meyrari og gjarnan safaríkari en eldisþorskur hefur kjötkenndari og stamari áferð og er sætari á bragðið.  Aðalástæða þessa mismunar er þurrefnisinnihald eldisþorsks sem er 2-4% prósentustigum meira en hjá villtum þorski og vatnsheldni er lakari.

Vinnsla fyrir dauðastirðnun gerir það að verkum að ekki er hægt að nota hefðbundna söltunarferla fyrir eldisfisk.  Við léttsöltun er hægt að beita aðferðum eins og sprautun og lengja pæklunartíma til að draga úr neikvæðum áhrifum dauðastirðnunar á saltupptöku við hefðbundna verkunarferla.  Aðstæðum við söltun og hitastigi þarf að stýra mjög vel til að lágmarka hættu á örveruvexti þar sem unnið er við mjög lágan saltstyrk við framleiðslu léttsaltaðra (2% saltinnihald) afurða.

Fréttir

Fyrirlestur hjá Matís – mengandi efni í íslensku lífríki

Mánudaginn 18. maí mun starfsmaður Matís, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, flytja fyrirlestur um mengandi efni í íslensku lífríki. Fyrirlesturinn verður haldinn í húsakynnum Matís að Borgartúni 21, 2. h.v. og hefst kl. 11:30. Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir varði doktorsritgerð sína “Útbreiðsla og breytingar í magni þrávirkrar lífrænnar mengunar í langvíueggjum frá Norðvestur Evrópu” (Temporal and spatial trends of organohalogens in guillemot (Uria aalge) in North Western Europe) þann 6. febrúar 2009 við Umhverfisefnafræðideild Stokkhólmsháskóla.

Ritgerðin fjallar í stórum dráttum um þrávirka lífræna mengun á Norðurlöndunum, t.d. PCB og skordýraeitrið DDT ásamt niðurbrotsefnum þeirra, sem mæld voru aðalega í langvíueggjum. Efnin voru mæld í eggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð til að fá landfræðilegan samanburð.

Niðurstöður sýna að lífríki Norður Atlantshafsins er minna mengað en lífríki Eystrasaltsins, en þó reyndust ýmiss mengandi efni vera í svipuðum styrk á þessum svæðum og þarf að rannsaka nánar af hverju það stafar. Flúoreruð alkanefni, sem koma m.a. úr útivistarfatnaði, hafa nýlega fundist í umtalsverðu magni í náttúrunni mældust í langvíueggjum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og voru í einstaka tilfellum í hærri styrk í eggjum frá N-Atlantshafi en í Eystrasaltinu. Brómeruð eldvarnarefni, sem m.a. eru notuð í raftæki, voru allstaðar mælanleg og virðist vera hægt að greina mismunandi uppruna efnanna sem berast til Norður Atlantshafsins, annars vegar frá N-Ameríku og hins vegar frá Evrópu.

Einnig var gerður samanburður á magni mengandi efna í sjö íslenskum fuglategundum, þ.e. kríu, æðarfugli, langvíu, fýl, sílamáfi, svartbak og skúmi. Skúmurinn reyndist hafa umtalsvert háan styrk mengandi efna, m.a. PCB sambanda og skordýraeitursins DDT, og er mikilvægt að rannsaka heilsuástand skúmsins.

Ljóst er að hluti þeirrar mengunar sem mælist í íslensku lífríki berst með haf- og loftstraumum til Íslands en hins vegar er umtalsverður hluti tilkominn vegna notkunar Íslendinga á varningi sem inniheldur margvísleg mengandi efni.

Frekari upplýsingar veitir Hrönn, hronn.o.jorundsdottir@matis.is.

IS