Fréttir

Vinnsla próteina á Rf umfjöllunarefni í Innovate

Norræna nýsköpunarmiðstöðin gefur m.a. út fréttabréfið Innovate á ensku og í síðasta tbl. ársins 2005 er að finna viðtöl við þær Sjöfn Sigurgísladóttur forstjóra og Margréti Geirsdóttur, matvælafræðing á Rf. Umræðuefnið er þeir möguleikar sem felast í vinnslu hágæðapróteina úr fiski.

Hlutverk Norrænu nýsköpunarmiðstöðivarinnar (Nordisk InnovationsCenter) er m.a. „að vinna að því að Norðurlönd verði virkur innri markaður án landamæra þar sem ekkert kemur í veg fyrir frjálsan flutning hæfni, hugmynda, fjármagns, fólks eða afurða,“ eins og segir í kynningu á vefsíðu stofnunarinnar.

Stofnunin hefur aðsetur í Osló og þar starfar fólk frá öllum Norðurlöndunum. Stofnunin gefur m.a. út skýrslur og fréttabréf, m.a. Innovate, sem fyrr segir.

Viðtalið við Sjöfn ber yfirskriftina One fish, two fish (bls 10) og yfirskrift viðtalsins við Margréti er Something fishy (bls. 9).

Lesa Innovate

Fréttir

GENIMPACT: Netverkefni um mat á hugsanlegum erfðafræðilegum áhrifum fiskeldis

Erfðabreytt matvæli hafa verið talsvert til umræðu á síðustu árum og eru ekki allir á eitt sáttir um áhrif þeirra. Umræðan hefur verið af tvennum toga, annars vegar hvort matvælin geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna og hinsvegar hvaða áhrif ræktun erfðabreyttra nytjaplantna hafi á umhverfið og lífríkið í heild. Þessi umræða hefur einnig náð til fiskeldisiðnaðarins, þar sem ýmsir hafa áhyggjur af hugsanlegum áhrifum eldisfisks á villta stofna.

Nýlega hófst fjölþjóðlegt Evrópuverkefni sem hefur það að markmiði að safna saman upplýsingum um hugsanleg erfðaáhrif frá fiskeldi. Þessum upplýsingum verður síðan miðlað til hagsmunaðila, stjórnvalda og almennings.

Verkefnið er kallað  Genimpact  en formlegt heiti þess er Evaluation of genetic impact of aquaculture activities on native populations – A European network og það er dr. Terje Svåsand frá norsku hafrannsókastofnuninni sem leiðir verkefnið.  Á meðal þeirra sem eru aðilar að verkefninu er Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskifræði við Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Dr. Þorleifur Ágústson, fiskalífeðlisfræðingur á Rf mun taka þátt í þessu verkefni og tekur hann þátt í verkefnum 1 og 2 sem eru annarsvegar áhrif eldis á genamengi fiska og hinsvegar þróun mælitækni til að hægt sé að meta genamengun í náttúrunni.

Fréttir

Fréttatilkynning: Kynningarfundur 5. janúar á Sauðárkróki

Sameiginlegur kynningarfundur Rf, Hólaskóla og Fisk Seafood um uppbyggingu á rannsókna- og þróunarstarfsemi í Þróunarsetrinu Verinu á Sauðárkróki verður haldinn n.k. fimmtudag 5. janúar kl. 16:00-18:00 í Verinu, rannsókna- og kennsluhúsnæði Hólaskóla á Sauðárkróki.

Rf hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að efla rannsóknir sínar á landsbyggðinni. Þannig hefur Rf átt vaxandi samstarf um rannsóknir við FISK Seafood í Skagafirði og Hólaskóla um vinnslu sjávarafla, matvælavinnslu og fiskeldi. Hólaskóli og FISK Seafood hafa undanfarin ár myndað með sér náin tengsl um eflingu þekkingar í fiskeldi og fiskalíffræði með tilkomu myndarlegs húsnæðis til slíkrar starfsemi á Sauðárkróki.

Fyrirhugað er nú að styrkja þetta samstarf enn frekar með sérstökum samstarfssamningi um rannsóknir og þróun á sviði fiskeldis, náttúruvísinda og matvælavinnslu. Auk Rf, Hólaskóla og Fisk Seafood er gert ráð fyrir að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri eigi aðild að samningi þessum, auk fleiri samstarfsaðila. Tilgangur samningsins er að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu, rekstur og nýtingu á Þróunarsetri Hólaskóla sem staðsett er á Háeyri 1 við höfnina á Sauðárkróki.  

Samstarfið verður í formi skilgreindra verkefna og munu sérfræðingar og nemar í framhaldsnámi koma að þeim.  Bæði sjávarútvegs- og iðnaðarráðherra hafa ákveðið að styrkja samstarfið með sérstöku fjárframlagi til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sem nemur 6 m.kr. á ári. Fjármagnið verður notað til að efla rannsóknir Rf á Sauðárkróki.  Samstarfið og þessi nýi samningur verður liður í að styrkja rekstur og uppbyggingu rannsókna og kennslu fiskeldis- og fiskalíffræðileildar Hólaskóla. Hin nýja aðstaða skapar möguleika til enn frekari þróunar á samstarfi ofnagreindra aðila. Það eru sameiginlegir hagsmunir þeirra að samnýta aðstöðuna til að efla sértæka starfsemi sína og stuðla þannig m.a. að aukinni þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni. Með samstarfinu styrkir Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins aðstöðu sína og tækifæri til fiskeldis- og matvælarannsókna og rannsókna á vinnslu sjávarafurða.

Aukin þekking er lykilatriði til að tryggja uppbyggingu og arðsemi sjávarútvegs og fiskeldis hérlendis. Farsæl þróun þessa atvinnuvegar er augljóslega mikilvæg byggðum landsins. AVS Rannsóknasjóðurinn sem starfar á vegum Sjávarútvegsráðuneytisins styður við hana með því að veita styrki til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknasjóðs eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna, þróunar- og háskólastofnunum.

Dagskrá fundarins:

1.  Ávarp – Einar K. Guðfinnsson, Sjávarútvegsráðherra

2.  AVS Rannsóknasjóðurinn – Friðrik Friðriksson

3.  Rf á Norðurlandi – Sjöfn Sigurgísladóttir Rf

4.  Samstarf  FISK hf. við skóla og rannsóknastofnanir – Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri

5.  Fiskeldi og rannsóknir hjá Hólaskóla – Helgi Thorarensen, Hólaskóla

6.  Fóður og eldi – Rannveig Björnsdóttir Rf og Háskólinn á Akureyri

7.  Prótein úr sjávarfangi og endurnýting vatns í fiskeldi – Ragnar Jóhannsson, Rf og Hólaskóla

8.  Samstarf og uppbygging á Sauðárkróki, Skúli Skúlason – Hólaskóla

Fundarstjóri verður Skúli Skúlason

Fréttir

Hraðvirkari mælingar á örverum en áður

Í viðskiptum er tíminn oft dýrmætur og sérstaklega ef höndlað er með viðkvæma vöru með stutt geymsluþol, eins og t.d. ferskan fisk. Í athyglisverðu verkefni sem unnið hefur verið að á Rf, í samvinnu við Danmarks Fødevarforsikring, var unnið að því að stytta verulega þann tíma sem líður þar til niðurstöður úr örverumælingum á sjávarafurðum liggja fyrir.

Frá þessu er sagt á vefsíðu AVS-sjóðsins. Ný tækni sem kallast “Real-Time PCR” býður upp á mun styttri svörunartíma en áður var mögulegt, auk þess sem að með “RT-PCR” er verið að beita sambærilegri aðferð á allar gerðir baktería og því miklir möguleikar á að koma upp sjálfvirkum greiningarbúnaði.

Árið 2005 hófst verkefnið sem kallast Hraðvirkar örverumælingar og er Eyjólfur Reynisson verkefnisstjóri þess. Verkefnið er styrkt af AVS, Norfa og Leonardo da Vinci sjóðunum, auk Rf. 

Þess má geta að nýlega birtist grein eftir Eyjólf og samstarfsfólk hans í vísindatímaritinu Journal of Microbiological Methods.  Lesa grein

Sem fyrr segir var verkefnið styrkt af Rf, AVS, Norfa, Leonardo- verkefninu, Danish Agri Business, ESB verkefninu Food-PCR 2, MedVetNet  og CampyFood-verkefni Norræna nýsköpunarsjóðsins.

Fréttir

Grein frá Rf í nýjasta tbl. Ægis

Í desemberblaði tímaritsins Ægir er að finna grein um rannsóknir sem gerðar voru á Rf um samanburð á geymsluþoli annars vegar eldisþorsks og hins vegar villts þorsks. Eins og áður hefur komið fram hafa niðurstöðurnar vakið athygli víða.

Höfundar umræddrar greinar í Ægi eru tveir sérfræðingar á Rf, þær Soffía Vala Tryggvadóttir og Héléne Liette Lauzon. Þessi rannsókn er hluti af stóru rannsóknarverkefni sem hófst árið 2003 og ber heitið Framtíðarþorskur.

Tvær skýrslur hafa komið út í verkefninu, sú fyrri, Framtíðarþorskur: Gæðamat á eldisþorski (nr. 10-04) kom út í október 2004 og sú síðari, Framtíðarþorskur: geymsluþol, áferð, vöðvabygging og vinnsla eldisþorsks (nr. 26-05) og sú sem greinin í Ægir byggir á, kom út í nóvember 2005. Skýrslurnar má skoða með því að smella hér.

Lesa grein í Ægi

IS