Fréttir

Ábrystir, beinakæfa, grjúpán, selabaggi? – Nei, takk!

Flest áhugafólk um matargerð kannast við Nouvelle cuisine eða Haute cuisine sem öðlaðist vinsældir í Frakklandi á 8. áratug síðustu aldar, þar sem áhersla var lögð á léttan og hollan mat, t.d. mikið af grænmeti og léttar sósur í stað hinnar hefðbundnu, þungu frönsku matargerðar með hveitisósum og tilheyrandi rjómanotkun. Nú er komið að norrænni matargerð að ganga í endurnýjun lífdaga.

Verkefnið Ný norræn matvæli, matargerð, matur var sett á fót af Norrænu ráðherranefndinni haustið 2006 og er markmið þess að efla norræna matarmenningu og gera hana sýnilegri. Verkefnið á að skapa sameiginlegan skilning á norrænum hráefnum og sýn fyrir þróun í norrænni matarmenningu. Verkefnið á að styrkja sýnina og skapa hefð um vörumerkið “Ný norræn matvæli” sem byggir á hollum og margvíslegum norrænum hráefnum.

Að sumu leyti má segja að “Ný norræn matargerð” byggi á svipuðum grunni og nouvelle cuisine, þ.e. að þróa norræn gildi innan norrænnar matarmenningar og hefða, matargerðar, hráefna, ferðamennsku, heilsu og hollustu, atvinnusköpunar, hönnunar og verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu.

Skapa á samvinnu milli norrænu landanna um starfsemi sem viðkemur norrænum mat og matarmenningu. Með verkefninu vill Norræna ráðherranefndin styðja alls konar starfssemi sem hjálpar til við jákvæða þróun norrænna matvæla.Sérstakur stýrihópur var stofnaður til að vinna verkefninu brautargengi og af hálfu Íslands sitja í honum Emilía Martinsdóttir frá Matís og Laufey Haraldsdóttir frá ferðamáladeild Hólaskóla.

Að sögn Emilíu hefur m.a. verið rætt innan stýrihópsins um aðgerðir til að auka útflutning matvæla og styðja innlenda matvælaframleiðslu og einnig að skilgeina þurfi ”Ný norræn matvæli” með tilliti til ólíkra matvælahefða hinna einstöku Norðurlanda og skapa jákvæða ímynd meðal Norðurlandabúa. Þá þurfi að hvetja til nýsköpunar í norrænni matvælaframleiðslu og stuðla að framleiðslu heima í héraði sem byggir á hráefni á hverjum stað. NNM þýðir ”ný norræn matvæli” bæði sem hversdagsmatur, veislumatur og útflutningur á matvælum. Auglýst verður eftir verkefnum á sviði norrænnar matvælaframleiðslu m.t.t matargerðar og norrænnar hönnunar og ferðamennsku.

Norræna ráðherranefndin hefur nú auglýst eftir fyrstu styrkumsóknum eða tillögum í verkefni sem NNM styður á árinu 2007. Verkefni sem NNM styður eru til eins árs í senn og tekið er fram að NNM styður ekki rannsóknir. Umsóknarfrestur fyrir verkefnishugmyndir er til 11. maí. Styrkir á bilinu 100.000-500.000 DKK verða veittir sem þýðir að alls verða veittir styrkir í 8-10 verkefni árið 2007.

Áherslan er á sýnileika og samvinnu í formi tengslaneta. Áherslusvið í þessum fyrstu verkefnum eru staðbundin framleiðsla og dreifing, matreiðsla og matargerð og norræn hönnun tengd matvælum Styrkur verður veittur fyrir 50% af heildarkostnaði verkefna og styrkur verður greiddur vegna til útlagðs kostnaðar en ekki til launa eða yfir stjórnunarkostnaðar. Þátttakendur þurfa að vera frá a.m.k. þremur Norðurlandanna.

Meiri upplýsingar á vef Norrænu ráðherranefndarinnar

IS