Miðvikudaginn 17. ágúst 2011, kl. 15:30 mun Kristín Líf Valtýsdóttir halda meistaraprófsfyrirlestur við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild (IVT) Háskóla Íslands um verkefni sitt. Meistaraprófsfyrirlesturinn verður haldinn í húsakynnun Matís í stofu 312
Leiðbeinendur: Sigurjón Arason, Halldór Pálsson og Björn Margeirsson
Prófdómari: Gunnar stefánsson
Ágrip
Markmið þessa verkefnis var að kanna áhrif mismunandi forkæliaðferða og endurhönnununar pakkninga á hitastýringu ferskra fiskafurða. Ófullnægjandi hitastýring í kælikeðju ferskra fiskafurða frá framleiðanda til kaupanda hefur neikvæð áhrif á gæði afurðanna og því er ákjósanlegt að forkæla fiskafurðir hratt og örugglega niður að geymsluhitastigi fyrir pökkun. Varmaeinangrun pakkninga takmarkar varmaflutning frá umhverfi til vöru. Hitadreifing í fiski var kortlögð fyrir mismunandi forkæliaðferðir og varmaflutningslíkön voru notuð til að endurhanna frauðplastpakkningar (EPS). Niðurstöður forkælitilrauna voru hitaprófílar sem þjóna sem leiðbeiningar að árangursríkri forkælingu. Varmaeinangrun pakkninga var bætt með því að auka bogaradíus og þar með þykkja horn. Þannig var upphaflegi EPS kassinn endurbættur með aðstoð tölvuvæddra varmaflutningslíkana. Tilraunir sem framkvæmdar voru með ferskum fisk með frumgerðum og síðar nýja endurhannaða kassanum sýndu fram á bætta varmaeinangrun. Lokaniðurstöður eru þær að með því að forkæla vöruna niður að geymsluhitastigi og með notkun endurbættra pakkninga má auka gæði og verðmæti fiskafurða töluvert.
Nánari upplýsingar veitir Kristín Líf Valtýsdóttir. kristinlif@matis.is