Fréttir

Áhrif NextGenProteins verkefnisins

Verkefninu NextGenProteins lauk í lok árs 2023. Um er að ræða stærsta verkefni sem fengist hefur styrkur fyrir hjá Matís og stóð vinna við það yfir frá árinu 2019. Ein lokaafurð verkefnisins er bæklingur þar sem farið er yfir helstu niðurstöður hvers verkhluta verkefnisins og er hann nú aðgengilegur á pdf. formi á vefsíðu NextGenProteins.

NextGenProteins verkefnið var styrkt af Horizon 2020 sjóðnum og miðaði að því að þróa, hagræða og fínstilla framleiðslu þriggja nýpróteina sem framleidd eru á sjálfbæran hátt, og fullgilda notkun þeirra í ýmsum matvælum og fóðri. Próteinin sem voru til skoðunar í verkefninu voru skordýraprótein unnin úr hliðarafurðum matvælaframleiðslu, einfrumuprótein sem er gersveppamassi sem þrífst á sykrum afurða úr skógarvinnslu og örþörungar sem ræktaðir eru að miklu leiti á útblæstri CO2 úr orkuvinnslu jarðvarmavirkjunar.

Markmið verkefnisins var meðal annars að skoða regluverk og stefnur stjórnvalda þegar kemur að nýjum próteingjöfum, greina framleiðsluhindranir og leggja fram stefnumarkandi tillögur til að einfalda og breyta regluverki og stefnumálum stjórnvalda í átt að sjálfbærara matvælakerfi. NextGenProteins stefndi einnig á að framleiða hágæða, örugga, næringarríka og sjálfbæra próteingjafa með því að nýta hliðarafurðir úr iðnaði sem alla jafna er sóað.

Grænmetisbollur með einfrumu próteini (torula) sem framleiddar voru í samstarfi við Grím kokk.

Rannsóknir og tilraunir voru gerðar til þess að skoða möguleikana á notkun þessara próteina í ýmsar matvörur og dýrafóður. Einnig voru framkvæmdar markaðsrannsóknir og neytendakannanir auk skynmats á vörum sem innihéldu nýju próteinin. Sjálfbærni nýrra próteingjafa var einnig skoðuð og borin saman við hefðbundnari próteingjafa auk umhverfis- og efnahagsáhrifa þeirra, framleiðsluhagkvæmni og auðlindanýtingu.

Öllum helstu markmiðum NextGenProteins verkefnisins var náð og slíkur árangur getur rutt veginn fyrir nýsköpun og nýjum lausnum við þeim áskorunum sem núverandi matvælakerfi heimsins standa frammi fyrir. Framleiðsla þeirra próteina sem voru skoðuð í verkefninu hefur minni neikvæð umhverfisáhrif en flest hefðbundin próteinframleiðsla. Það er mikilvægt að taka þann þátt með í reikninginn þegar hugsað er um hvernig mæta skuli aukinni kröfu um próteinframleiðslu samhliða aukinni fólksfjölgun í heiminum.

Í meðfylgjandi bæklingi, sem er á ensku, fara umsjónarmenn hvers verkhluta í verkefninu yfir helstu niðurstöður. Auk þess segir Birgir Örn Smárason, fagstjóri hjá Matís og verkefnastjóri NextGenProteins frá sinni upplifun af verkefnavinnunni og útkomu hennar.

Verkefnasíða NextGenProteins er aðgengileg hér: NextGenProteins – Þróun á næstu kynslóð próteina úr vannýttum auðlindum til notkunar í matvæli og fóður

IS