Dagana 28.-30. maí verður haldin ráðstefna í Gautaborg um það helsta sem er á baugi í skynmati og um hvernig rannsóknir og tækni á þessu sviði geti gagnast matvælaiðnaði. Ráðstefnan er ætluð bæði þeim sem stunda rannsóknir sem og þeim sem starfa í iðnaðinum. Vakin er athygli á að þeir sem vilja nýta sér afsláttarkjör þurfa að skrá sig fyrir 3. mars, en þá hækkar skráningargjaldið.
Eins og við sögðum frá fyrir stuttu á vef Matís, tók Emilía Martinsdóttir, deildarstjóri á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís í byrjun árs við formennsku í European Sensory Network (ESN) sem eru alþjóðleg samtók rannsóknastofnana og fyrirtækja á sviði skynmats og neytendarannsókna, en hún er einmitt á meðal fyrirlesara á fyrrnefndri ráðstefnu.
Emilía segir að skynmat verði sífellt mikilvægari þáttur í vöruþróunarferli matvælafyrirtækja og ef vel er staðið að slíku geti það sparað fyrirtækjum ómælda vinnu og fjármuni. Hún segir að Matís hafi yfir að ráða mikilli reynslu á þessu sviði og geti boðið matvælafyrirtækjum hér á landi ýmsa þjónustu, t.a.m. við nýsköpun matvæla.
Norrænn matvælaiðnaður hefur verið töluvert í sviðsljósinu upp á síðkastið og má þar t.d. nefna samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar, sem nefnist “Nýr norrænn matur og matargerðarlist”, sem ætlað er að skýra möguleika til verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu og matarmenningu Norðurlanda og hleypti var af stokkunum á síðasta ári. Ljóst er að áhugi fólks á norrænni matvælaframleiðslu, bæði innan og utan Norðurlandanna, fer vaxandi og því nauðsynlegt fyrir alla sem starfa á þessum vettvangi að fylgjast vel með nýjungum á þessu sviði.
Emilía hvetur þá sem áhuga hafa á skynmati og nýsköpun í matvælaiðnaði að kynna sér dagskrá ráðstefnunnar og skrá sig sem fyrst.