Doktorsvörn starfsmanns Matís í matvælafræði frá Matvæla- og næringafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.
Bætt skynræn gæði sjávarfangs fyrir neytandann
Skynrænir gæðaeiginleikar mismunandi þorskafurða og smekkur neytenda
Doktorsvörn í matvælafræði frá Matvæla- og næringafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
Föstudaginn 25. september n.k. fer fram doktorsvörn frá Matvæla- og næringafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Kolbrún Sveinsdóttir matvælafræðingur doktorsritgerð sína „Improved seafood sensory quality for the consumer – Sensory characteristics of different cod products and consumer acceptance“ (Bætt skynræn gæði sjávarfangs fyrir neytandann – Skynrænir gæðaeiginleikar mismunandi þorskafurða og smekkur neytenda). Andmælendur eru Dr. Margrethe Hersleth frá Nofima Mat og Lífvísindaháskóla Noregs og Dr. Wender Bredie prófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Leiðbeinendur Kolbrúnar og í doktorsnefnd voru eftirtaldir Emilía Martinsdóttir MSc, fagstjóri hjá Matís, Dr. Grethe Hyldig Aqua, National Institute of Aquatic Resources við Tækniháskóla Danmerkur (DTU), Dr. Conor Delahunty hjá Matvæla og næringarvísindastofnun Ástralíu (CSIRO), Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís og Dr. Inga Þórsdóttir prófessor við Háskóla Íslands.
Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskólans í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00.
Matís veitti Kolbrúnu og rannsókn hennar aðstöðu, en rannsóknin tilheyrði stóru verkefni eða áætlun, SEAFOODplus. Matís og Háskóli Íslands voru þátttakendur í SEAFOODplus sem var styrkt af 6. rammaáætlun Evrópusambandsins. Rannsókn Kolbrúnar var einnig styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi.
Ágrip úr rannsókn
Jákvæð áhrif fiskneyslu á heilsu fólks eru vel þekkt. Þrátt fyrir það er fiskneysla minni í Evrópu en ráðlagt er af heilbrigðisyfirvöldum. Skynræn gæði s.s. útlit, lykt, bragð og áferð, hafa mikil áhrif á neytendur, auk margra annarra þátta sem móta reynslu, smekk o.fl. Markmið rannsóknarinnar var að skilgreina skynræna gæðaeiginleika mismunandi þorskafurða. Markmiðið var einnig að kanna smekk neytenda fyrir þorskafurðum með hliðsjón af viðhorfum, lýðfræðilegum þáttum og staðsetningu neytendaprófa.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa ítarlegar upplýsingar um gæðaeiginleika þorskafurða. Skynmat á þorskafurðum sýndi m.a. hvernig meðhöndlun hafði áhrif á gæðaeiginleika. Einkunnaskalar sem þróaðir voru í verkefni Kolbrúnar geta nýst sem grunnur í geymsluþolsrannsóknum, vöruþróun eða fyrir gæðaeftirlit í fiskiðnaði.. Með því að tengja saman upplýsingar um skynræna gæðaþætti, smekk neytenda, viðhorf og venjur fást mikilvægar upplýsingar fyrir markaðssetningu sjávarafurða og fyrir heilbrigðisyfirvöld til að stuðla að því að ráðleggingum um fiskneyslu verði betur fylgt víða í heiminum. Doktorsritgerðin byggir á fimm vísindagreinum, sem birtar eru eða samþykktar til birtingar, í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.
Um doktorsefnið
Kolbrún Sveinsdóttir er fædd þann 6. október 1974 í Reykjavík. Kolbrún lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðibraut Menntaskólans í Kópavogi árið 1994 og BSc námi í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 1997. Hún lauk svo meistaranámi frá Háskóla Íslands árið 2000. Meistaraverkefnið fjallaði um gæðaþætti og þróun skynmatsaðferðar til að meta eldislax með tilliti til ferskleika. Kolbrún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2004. Hún hefur starfað hjá Matís sem matvælafræðingur frá árinu 2000 á sviði skynmats. Kolbrún er dóttir Sveins Kristjánssonar, kennara og Aðalheiðar Edilonsdóttur húsmóður. Hún er gift Guðmundi B. Friðrikssyni umhverfisverkfræðingi og eiga þau þrjú börn, Kristján Leó, Ísak Mána og Heiðrúnu Maríu.
Nánari upplýsingar veita
Kolbrún Sveinsdóttir, 422-5079, netfang: kolbrun.sveinsdottir@matis.is
Emilía Martinsdóttir, 422-5032, netfang: emilia.martinsdottir@matis.is