Tvær fyrstu greinarnar í hefti 31/2018 voru að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences.
Fyrri greinin, Munur á afkomu kvæma afíslensku birki í 14-ára tilraun á Miðnesheiði, greinir frá samanburðartilraun með 25 kvæmum af íslensku birki víðsvegar að af landinu. Miðnesheiðin er vindasamt svæði með saltákomu og jarðvegurinn er rýr og stendur það skógrækt þar fyrir þrifum. Tilgangurinn með rannsókninni var að finna birkikvæmi sem best hentuðu fyrir þetta svæði. Tilraunin hófst 1998 og árið 2003 voru lúpínuplöntur gróðursettar innan um birkið. Árið 2012 fjórtán árum eftir gróðursetningu birkisins var árangurinn metinn.
Sunnlensk birkikvæmi reyndust betur á Miðnesheiði en kvæmi úr öðrum landshlutum. Hæð og lifun kvæmisins Þórsmörk reyndist best. Staðarkvæmi frá Reykjanesi þrifust verr en önnur sunnlensk kvæmi. Þegar rækta á birkiskóg á ófrjósömum jarðvegi á Suðurnesjum er mælt með því að leggja áherslu á þau kvæmi sem sýnt hafa besta frammistöðu í tilrauninni. Einnig er mælt með að bera á plöntur fyrstu árin eftir gróðursetningu og um leið að sá lúpínu.
Seinni greinin, Áhrif hækkaðs jarðvegshita ámyndun koldíoxíðs (CO2), metans (CH4), hláturgass (N2O),nituroxíðs (NO) og nitraðrar sýru (HONO) í skógarjarðvegi á Suðurlandi, fjallar um rannsóknir sem eru hluti af stóru rannsóknaverkefni, ForHot (www.forhot.is), um áhrif aukins hita í jarðvegi í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2008 á lífríki og vistkerfisferla.
Í þessari rannsókn voru mælingar gerðar á flæði metans (CH4), hláturgass (N2O) og koldíoxíðs (CO2) með auknum jarðvegshita í foldu í sitkagreniskógi. Losum sömu lofttegunda voru mældar í jarðvegskjörnum á rannsóknastofu við 20°C hita, auk lofttegundanna nituroxíðs (NO) og nitraðrar sýru (HONO).
Niðurstöðurnar sýndu að átta ára jarðvegshlýnun hafði bæði breytt efnasamsetningu og örveruflóru jarðvegsins og þar með getu til að framleiða áðurnefndar lofttegundir. Hinsvegar breyttist framleiðslugeta CO2, CH4 og N2O á rannsóknastofu við 20 °C ekki reglulega með auknum hita í foldu. Höfundar fjalla um aðlögun örvera að auknum hita, en velta því einnig upp hvort hluti lofttegundanna sem losnar í náttúrunni geti verið úr meiri dýpt, af jarðfræðilegum uppruna, frekar en vegna rotnunar í jarðveginum.
Þetta mun vera fyrsta íslenska rannsóknin sem skoðar losun á nitraðri sýru (HONO) úr jarðvegi.