Arion banki og Matís skrifuðu undir samning nú fyrir stuttu þess efnis að bankinn verði aðal styrktaraðili World Seafood Congress 2017 (WSC2017). Ráðstefnan fer fram á Íslandi í september á næsta ári og er þetta í fyrsta sinn sem viðburðurinn fer fram á Norðurlöndum, en World Seafood Congress á rætur sínar að rekja til matvæla- og landbúnaðarstofnunar sameinuðu þjóðanna (FAO) og verður næst haldin í Víetnam.
„WSC er einn stærsti viðræðuvettvangur í heimi á sviði verðmætasköpunar í sjávarútvegi og matvælaöryggis, og dregur að borðinu fólk úr öllum hlutum virðiskeðju sjávarfangs. Á ráðstefnuna koma starfsmenn útgerða og fiskvinnsla, fjárfestar og fólk úr stofnana-og menntaumhverfinu víða um heim, ekki síst frá þróunarlöndum. Það er okkur sannur heiður að fá tækifæri til að halda þessa ráðstefnu og við erum virkilega ánægð með að fá Arion Banka, með sitt sterka sjávarútvegsteymi, til liðs við okkur,” sagði Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís við undirskriftina sem fór fram í höfuðstöðvum Matís fyrir framan hartnær 100 starfsmenn Matís.
„Það er alveg sérstakt ánægjuefni fyrir Arion banka að taka þátt í og styðja við ráðstefnuna World Seafood Congress í samstarfi við Matís. Bankinn hefur verið að auka verulega við sig í þjónustu við sjávarútveg og fjármagnar nú fyrirtæki í allri virðiskeðju sjávarútvegs, bæði veiðum, vinnslu og sölu og markaðssetningu, auk fiskeldis og ýmissa nýsköpunarverkefna. Bankinn kemur að fjármögnun flestra af stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og hefur á síðustu árum stuðlað að opinni umræðu og fræðslu á sviði sjávarútvegs með ráðstefnum, málstofum og ýmsu fleiru. Að taka að sér að vera aðalstyrktaraðili WSC er því rökrétt framhald á þeirri þróun sem hefur orðið á aðkoma bankans að þjónustu við sjávarútveg“, sagði Guðmundur S. Ragnarsson, forstöðumaður sjávarútvegs hjá Arion banka.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðunni www.wsc2017.com