Ársskýrsla Rf 2005, þar sem það helsta úr starfsemi Rf á árinu 2005 er tíundað, er nú komin út og er aðgengileg hér á vefnum sem pdf-skjal. Skjalið er tæplega 6MB að stærð, enda er skýrslan all mikil að vöxtum, tæplega 50 bls.
Eins og margir vita samþykkti Alþingi nú í vor lög sem heimila ríkisstjórninni að stofna hlutafélag, sem nefnist Matvælarannsóknir hf., um rekstur Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti, sbr. samstarfssamning milli Iðntæknistofnunar og Landbúnaðarháskólans, og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar. Reiknað er með að Matvælarannsóknir hf hefji starfsemi þ. 1. janúar 2007. Ársskýrsla Rf 2005 er því síðasta eiginlega ársskýrslan sem Rf gefur út undir því nafni.
Á meðal þess sem fram kemur í Ársskýrslunni 2005 er að velta Rf minnkaði ekki á milli áranna 2004-5, þrátt fyrir mun minni sértekjur af þjónustumælingum, en eins og kunnugt er var tekin sú ákvörðun fyrir nokkrum árum að Rf myndi draga sig að mestu leyti út úr samkeppnisrekstri, einkum á sviði þjónustumælinga. Þetta fól m.a. í sér að þremur þjónustuútibúum Rf var lokað, á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum. Starfsemi Rf á þessum stöðum heldur þó áfram með breyttum áherslum, þar sem lögð er áhersla á rannsóknir og nýsköpun.
Ein aðalástæðan fyrir því að Rf hefur haldið sjó, þrátt fyrir þennan samdrátt þjónustumælinga, er að rannsóknatekjur Rf hafa hækkað verulega, bæði innanlendar og erlendar. Það hefur gerst þrátt fyrir að Rannsóknasjóður, sem áður hét Tæknisjóður, er ekki jafn fús til að styrkja hagnýt rannsóknarverkefni eins og forveri hans gerði áður. Þá hefur AVS-rannsóknasjóðurinn og Tækniþróunarsjóður haft almennt jákvæð áhrif fyrir rannsóknarstarfsemi og nýsköpun í sjávarútvegi.
Lesa skýrslu(pdf-skjal 6MB)