Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri verðmætasköpunar hjá Matís, var með erindi hjá Þekkingarsetrinu í Vestmannaeyjum 25. febrúar síðastliðinn sem bar titilinn „Áskoranir og árangur Íslendinga í frekari vinnslu og fullvinnslu sjávarafurða til útflutnings frá Íslandi“.
Í erindinu fjallaði Jónas um þróun í fiskvinnslu á Íslandi og leitaðist við að svara þeirri spurningu hvort að íslensk fyrirtæki geti nálgast neytendur í meiri mæli en hingað til eða hvort þau séu dæmd til að vera fyrst og fremst hráefnisframleiðendur fyrir erlenda aðila. Jónas tók nokkur dæmi um verð á útfluttum afurðum frá Íslandi og síðan fullunnum vörum út úr búð. Hann fór yfir magn af óunnum- eða lítið unnum fiski sem flutt var út frá Íslandi árið 2020. Einnig tók Jónas nokkur dæmi um útflutningstilraunir Íslendinga á fullunnu sjávarfangi og velti upp ýmsum ástæðum sem mögulega gætu skýrt út hvers vegna fullvinnsla á Íslandi er ekki meiri en hún er. Hann velti upp ýmsum þáttum sem mögulegum ástæðum fyrir því af hverju fullvinnsla er ekki meiri hér á landi. Að auki voru svo tekin dæmi um framleiðslueiningar erlendis sem eru í eigu Íslendinga, þar sem verksmiðjurnar eru í flestum tilvikum nálægt mörkuðunum.
Í lok erindis síns fjallaði Jónas stuttlega um nokkur vel valin sjávarútvegstengd rannsóknar- og nýsköpunarverkefni sem Matís hefur komið að, tengd frekari vinnslu eða fullvinnslu. Bæði verkefni sem hafa skilað góðum árangri, sem og nokkur sem hafa ekki skilað því sem að var stefnt. Jónas ræddi mikilvægi þess að rýna bæði í verkefni sem hefðu gengið vel sem og verkefni sem hefðu ekki gengið upp.
Upptöku af erindinu og glærurnar má nálgast á heimasíðu Þekkingarsetursins í Vestmannaeyjum hér.