Fréttir

Átta Rf skýrslur opnaðar

Nýlega voru átta Rf skýrslur, sem höfðu verið lokaðar tímabundið eftir að vinnu í viðkomandi verkefnum lauk, opnaðar. Skýrslurnar eru frá árunum 2003 og 2005.

Skýrslurnar frá árinu 2003 eru allar úr verkefni sem hófst árið 2000 og lauk árið 2003. Vinnuheiti verkefnisins var  Léttsöltun, stöðugleiki og nýting frosinna afurða og markmiðið í því var að skoða hvernig hægt væri að stýra vatnsheldni, efnasamsetningu og áferð fiskholdsins með léttsöltun. 

Rannsakað var hvort hægt væri að framleiða safaríkari afurðir heldur en hægt var með hefðbundinni vinnslu fyrir frystingu. Áhrif af notkun salts, fosfata og unnina próteina við pæklun á fyrrnefnda þætti voru metin og  upplýsingum um reglugerðir og markaðsviðhorf sem tengjast stjórnun á efnasamsetningu fiskafurða var safnað.  Skýrslurnar sem nú birtast úr þessu verkefni eru númer 07-03; 10-03; 12-03 og 13-03.  Ein skýrsla úr áðurnefndu verkefni birtist þegar árið 2003, skýrsla nr. 09-03.

Af þeim skýrslum frá árinu 2005 sem nú er búið að opna, eru þrjár úr sama verkefni sem hófst árið 2004 og lauk á síðasta ári.  Vinnuheiti þess var Framleiðsla á formuðum fiskbitum og gelblokk úr afskurði og marningi, og hafði það að markmiði að þróa vinnsluferli til að framleiða formaða fiskbita með fisklími. Hugmyndin var að nýta verðminni aukaafurðir og fisktegundir í fisklímsgerðina, s.s. afskurð, marning og kolmunna.

Framleiðsla á formuðum fiskflökum hófst hérlendis upp úr 1980 og í fyrstu var einkum um að ræða hráefni sem hafði verið skorið smátt og síðan mótað í kökur eða önnur form með stimplum. Með því móti var afskurður úr flakavinnslu nýttur beint í afurðir til brauðunar þar sem líkja mátti eftir náttúrulegu útliti fiskbita. Hærra verð hefur fengist fyrir slíkarafurðir en þegar hráefnið hefur verið sett í blokk. Blokkir, sem framleiddar eru úr beinlausum og roðflettum flökum úr hvítfiski, hafa hins vegar verið framleiddar í meira en 50 ár og eru enn í dag mikilvægt hráefni í framhaldvinnslu á fiskafurðum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.

Við endurmótun í fiskiðnaði er notaður þrýstingur sem raskar eðlilegri vöðvabyggingu og maukar fiskinn. Í áðurnefndu verkefni var eitt aðalmarkmiðið að nýta fisklímið til að geta dregið úr þrýstingi við mótun og viðhalda/skapa eðlilega vöðvabyggingu í vörunni, sem er nýjung.  Skýrslurnar þrjár sem nú hafa verið opnaðar eru númer 19 til 21 árið 2005.

Loks má nefna skýrslu nr. 24-05 sem ber titilinn Prótein í frárennslisvatni Forathugun á magni og eiginleikum og markmið þess var að afla grunnupplýsinga um magn oggerð próteina í frárennslisvatni í því skyni að athuga hvort hugsanlega mætti nýta þau á einhvern hátt til manneldis.

Þessar skýrslur og fjöldi annarra er að finna á vef Matís undir Útgáfa/Rf/Skýrslur

IS