Atvinnumálanefnd Hornafjarðar auglýsir eftir umsóknum í átaksverkefni um smáframleiðslu á matvælum á Hornafirði. Um er að ræða stuðningsverkefni sem ætlað er einstaklingum og fyrirtækjum í Sveitarfélaginu Hornafirði sem vilja vinna að framleiðslu og þróun á matvælum í matvælasmiðju Matís á Hornafirði.
Matvælasmiðjan var opnuð í byrjun nóvember 2008 og er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni. Fjármunir í verkefnið eru hluti af fjármunum sem úthlutað var til Sveitarfélagsins Hornafjarðar í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2008. Markmið verkefnisins er að fullgera vörur sem hægt er að selja beint til neytenda, í verslunum og til eða á veitingastöðum í héraðinu. Nýheimar hafa unnið að þróun hugmynda og gerð viðskiptaáætlana undanfarin ár en nú er markmiðið að taka næsta skref og fullgera vörur tilbúnar til neytenda. í neytendapakkningar. Atvinnumálanefnd Hornafjarðar heldur utan um verkefnið í samvinnum við Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Atvinnumálanefnd tekur við umsóknum og afgreiðir þær.
Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands veita ráðgjöf við að undirbúa umsóknir og veita síðan styrkþegum liðsinni í framhaldinu.
Styrkur veitist til þess að:
kaupa ráðgjöf hjá sérfræðingum vegna prófana og vottana,
kaupa framleiðslutíma hjá Matís í matvælasmiðjunni,
kaupa ráðgjöf og hönnun hjá sérfræðingum um ímynd og útlit vörunnar og umbúða.
Stefnt er að því að lokaafrakstur hvers verkefnis sé afurð tilbúinn á markað. Styrkur veitist ekki til frumhugmynda eða gerð viðskiptaáætlana.
Nánari upplýsingar veitir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, í síma 470 -8000 / 822-7950 og í netfangið hjaltivi@hornafjordur.is. Umsóknarfrestur er til 20. desember 2008.
Verkefnið er unnið að frumkvæði Sveitarfélagsins Hornafjarðar í samvinnu við starfstöðvar Matís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Hornafjarðar.