Fréttir

Aukið traust á fjármálaumsjón Matís í erlendum verkefnum

„Fjármál eru mikilvægur liður í rannsóknarverkefnum Matís og ekki hvað síst finnum við fyrir mikilvægi þeirra þegar kemur að erlendum verkefnum Matís sem stöðugt fara vaxandi” segir Guðlaug Þóra Marinósdóttir, skrifstofustjóri Matís.

„Þetta er þáttur sem snýr að þeim sem fjármagna og styrkja verkefnin, samstarfsaðilum okkar í verkefnum og starfsfólki Matís sem stýrir þessum verkefnum. Vísindamenn okkar fylgjast að sjálfsögðu með fjármálaþættinum í verkefnunum en segja má að okkar hlutverk sé að tryggja að þeir geti fyrst og fremst helgað sig sinni sérþekkingu og vísindastarfi,“ segir Guðlaug Þóra. Hún segir gott utanumhald í fjármálum verkefna einn lykilinn að því að skapa traust gagnvart samstarfsaðilum og styrktaraðilum „og reynslan er sú að okkur er í auknu mæli falin fjármálaleg umsjón með verkefnum. Það er mismunandi eftir eðli og umfangi verkefna hvernig fjármálaleg umsýsla þeirra er af okkar hálfu en í mörgum stórum verkefnum er fjármálalega umsjónin alfarið í okkar höndum. Það þýðir að við fylgjum verkefnunum eftir allt frá samningsgerð til loka, gætum þess að greiðslur berist til okkar svo hægt sé að greiða samstarfsaðilum eins og samningar kveða á um og tryggjum þannig skilvirkan framgang verkefnanna,“ segir Guðlaug Þóra og nefnir Amylomics, EcoFishMan, NordChar og SAFE Consortium sem dæmi um stór viðamikil erlend verkefni á borðum starfsmanna.

Guðlaug Þóra nefnir að Matís sé í góðu samstarfi við Ríkisendurskoðun, sem sér um endurskoðun á ársreikningi Matís. „Við viljum hafa hlutina í lagi og höfum markvisst unnið að umbótum sl. ár á okkar bókhaldsferlum og verklagsreglum um innra eftirlit, í samvinnu við Ríkisendurskoðun. Almennt finnum við fyrir miklu trausti erlendis í garð Matís hvað varðar  fjármálalega umsýslu og margumrætt bankahrun hér á landi hefur ekki haft áhrif hvað það varðar. Við fundum fyrir áhrifum fyrsta árið eftir fall bankanna en einu áhrifin sem við finnum í dag eru hversu mikil skriffinnska því fylgir að stofna nýja bankareikninga í tengslum við ný verkefni.

Stór hluti af okkar erlendu tekjum kemur frá sjóðum sem tilheyra 7. rammaáætlun Evrópusambandsins og Norrænum sjóðum en samstarfsaðilar okkar í þessum verkefnum eru fyrirtæki og stofnanir sem eru staðsett á Norðurlöndunum og í öðrum Evrópulöndum og við þurfum þar af leiðandi að eiga bankaviðskipti í mörgum löndum og í mismunandi gjaldmiðlum. Okkar markmið hjá Matís er að skila góðu starfi á öllum sviðum, bæði hvað varðar vísindalega þáttinn og umsjón með verkefnum, þar á meðal hvað fjármálin varðar, enda skipta þau miklu máli í verkefnavinnunni þegar allt
kemur til alls,“ segir Guðlaug Þóra.

Nánari upplýsingar veitir Guðlaug Þóra.

IS