Matís og MPF Inc. skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning milli fyrirtækjanna. Samningurinn felur í sér að fyrirtækin vinni saman að sameiginlegum rannsóknum á þróun surimi úr vannýttum tegundum eins og kolmunna og loðnu. Grein um þetta birtist í Fréttablaðinu og má finna hér.
Surimi er fiskpróteinmassi sem unnin hefur verið úr fiski með ýmsum aðferðum, og er afar vinsæl vara þessa dagana. Surimi er notað í ýmsar afurðir, eins og t.d. krabbakjötslíki sem mikið er notað í sushi. Markaður fyrir surimiafurðir hefur vaxið mjög ört að undanförnu og er reiknað með að eftirspurn á þessu ári sé um 600 þúsund tonn á meðan heimsframleiðslan sé eingöngu um 480 þúsund tonn. Í ljósi þessa aðstæðna hefur verð á surimi tvöfaldast á einu ári. Matís og MPF sjá mikil tækifæri fyrir surimiframleiðslu á Íslandi, sérstaklega úr tegundum sem eru vannýttar til manneldis.
Það þarf hinsvegar að yfirstíga margar hindranir til að framleiða gæða surimi úr tegundum eins og kolmunna og loðnu. Samstarfssamningurinn felur í sér sameiginilegar rannsóknir sem taka á þessum hindrunum, eins og t.d. vinnsluaðferðum til að minnka þránunarvandamál í lokaafurð ásamt hámörkun á geljunareiginleikum vörunnar. Matís hefur áralanga reynslu á meðhöndlun og vinnslu sjávarfangs, sem nýtist mjög vel í þessu verkefni, á meðan MPF hefur mikla reynslu á þróun og iðnaðarframleiðslu próteinafurða úr ýmsum fisktegundum. Það er von beggja fyrirtækjanna að á Íslandi rísi arðbær surimivinnsla innan fárra ára.
„Nýting vannýttra tegunda í arðbærar vörur, eins og surimi, er mjög mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg. Í ljósi mikils skorts á þessum vörum þá er markaðurinn mjög opinn fyrir notkun nýrra tegunda í surimi. Nú þarf að leggja mikla vinnu í nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi og fá meira fyrir okkar góða hráefni. Þessi samningur á eftir að leggja mikið af mörkunum hér “ segir Dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri hjá Matís
Nánari upplýsingar veitir: Hörður í síma 422-5063 / 858-5063.