Fréttir

Austfirðingar áhugasamir um loftslagsmál

Þann 5. júní hélt Matís, ásamt Austurbrú, vinnustofu á vegum Evrópuverkefnisins NATALIE á Reyðarfirði. Í lok síðasta árs hófst Evrópuverkefnið NATALIE, sem Matís og Austurbrú eru þátttakendur í. Megin áhersla verkefnisins er að þróa svokallaðar náttúrutengdar lausnir (e. Nature-based solutions; NBS). Lausnum þessum er ætlað að bregðast við þeim vandamálum sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Þar má nefna aukna skriðuhættu, hækkandi sjávarstöðu, þörungablóma og fleira.

Markmið vinnustofunnar var að kynna verkefið fyrir helstu hagsmunaaðilum svæðisins og fá þeirra sýn á þá möguleika sem verkefnið býður upp á. Í tilfelli NATALIE eru hagsmunaaðilar allir þeir aðilar sem þurfa að glíma við einhvers konar áskoranir tengdar loftslagsbreytingum og það er því fjölbreyttur hópur sem kemur að verkefninu. Þátttakendur vinnustofunnar voru 11 og komu frá sveitarfélögum, fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu. Verkefnið NATALIE var kynnt fyrir þátttakendum  og hópavinna fór svo fram samkvæmt stöðluðu vinnulagi verkefnisins. Unnið var með loftslagsáskoranir, mögulegar náttúrutengdar lausnir og hindranir sem gætu staðið í vegi fyrir innleiðingu þeirra. Lykilatriði er að fá sjónarhorn hagsmunaaðila áður en hafist er handa við innleiðingu náttúrutengdra lausna. Þeir eru sérfræðingar þegar kemur að þeim vandamálum sem svæðið stendur frammi fyrir og geta því lagt til þekkingu sem  ekki er augljós utanaðkomandi aðilum, t.d. um stöðu aðgerða, fyrirhugaðar lausnir og mikilvægi ákveðinna innviða.

Vinnustofan gekk vel og ánægjulegt að sjá hve virkir þátttakendur voru og viljugir til þess að leggja sitt af mörkum svo markmiðum NATALIE verði náð. Hagaðilar svæðisins eru þegar meðvitaðir um þær loftslagstengdu áskoranir sem Austurland stendur frammi fyrir og vilja auka viðnámsþrótt svæðisins varðandi þær. Þessi mikli áhugi fyrir loftslags- og umhverfismálum hjá hagsmunaaðilum á Austurlandi er dýrmætur fyrir NATALIE verkefnið og Matís og Austurbrú hlakka til frekari samvinnu.

NATALIE er fimm ára verkefni og eru þátttakendur alls 43, víðsvegar að úr Evrópu, allt frá Rúmeníu til Íslands. Áskoranirnar sem þessi svæði glíma við eru mismunandi en eiga það allar sameiginlegt að tengjast hringrás vatns. Verkefnið er umfangsmikið en Matís hefur umsjón með rannsóknarsvæði 7 (e. Case study 7) sem snýr að norðurslóðum. Matís og Austurbrú munu, í góðu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu, taka þátt í þróun nýrra NBS lausna á svæðinu. Lausnirnar eru unnar í samstarfi við sérfræðinga hjá Exeter háskóla og Heimskautaháskólanum í Tromsö (UiT).

Verkefnið NATALIE er fjármagnað af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins undir styrk N° 101112859.

IS