Fréttir

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir, starfsmaður Matís, doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis“.

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum frá Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis“ (The bacterial community during early production stages of intensively reared halibut (Hippoglossus hippoglossus L.). Andmælendur eru dr. Brian Austin, prófessor og forstjóri Fiskeldisstofnunarinnar við Háskólann í Stirling í Skotlandi og dr. Gunnsteinn Ægir Haraldsson fagstjóri rannsóknartengds náms við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild HÍ, en auk hennar sátu í doktorsnefnd þau dr. Eva Benediktsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, dr. Helgi Thorarensen, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, dr. Jakob K Kristjánsson, forstjóri Prokazyme Ltd. og dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís ohf.

Dr. Guðmundur Þorgeirsson prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst klukkan 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Niðurstöður doktorsverkefnisins varpa skýrara ljósi á þróun bakteríuflóru á fyrstu stigum lúðueldis og hugsanleg áhrif samsetningar flórunnar á lifun og þroska frá frjóvgun eggja til loka startfóðrunar. Mikil og skyndileg afföll eru vandamál á þessum fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins og ekki hvað síst fyrstu vikurnar í fóðrun þegar lirfurnar þurfa á lifandi fóðurdýrum að halda. Niðurstöður sýna enn fremur að breytingar á umhverfisþáttum höfðu veruleg áhrif á fjölda og samsetningu bakteríuflórunnar þar sem unnt reyndist að örva ósérhæft ónæmi lirfa við meðhöndlun fæðudýra með vatnsrofnum fiskipróteinum og bætt lifun fékkst við meðhöndlun fóðurdýra með bakteríustofnum sem voru ríkjandi í meltingarvegi lirfa með góða afkomu. Niðurstöður benda einnig til þess að ríkjandi hluti flóru lirfa og fóðurdýra þeirra geti að stórum hluta verið ræktanlegur.

Verkefnið var unnið í samstarfi Matís ohf. og Háskólans á Akureyri og í nánu samstarfi við Fiskey hf. Aðrir samstarfsaðilar voru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Háskólinn í Tromsø í Noregi, Iceprotein ehf. og Háskólinn á Hólum.

Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Líftæknineti í auðlindanýtingu, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Háskólasjóði KEA. 

Um doktorsefnið
Rannveig Björnsdóttir er fædd árið 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum  að Laugarvatni árið 1980, Cand. mag. prófi  frá Sjávarútvegsháskólanum í Tromsø í Noregi árið 1988 og Cand.scient. prófi í ónæmisfræði og sjúkdómum fiska frá sama skóla árið 1990. Rannveig hefur frá árinu 1991 starfað í hlutastarfi sem sérfræðingur við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar sem deildarstjóri og fagstjóri fiskeldis hjá Matís ohf. og í hálfu starfi sem lektor og síðan dósent við Sjávarútvegsdeild og síðar Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannveig hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2004. Rannveig er dóttir hjónanna Björns Benediktssonar heitins, sem stóð fyrir uppbyggingu Silfurstjörnunnar hf. í Öxarfirði og Ástu Björnsdóttur, húsfreyju. Rannveig á eina uppkomna dóttur, Hugrúnu Lísu.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, sími 858 5108, netfang: rannveig.bjornsdottir@matis.is eða rannveig@unak.is

IS