Eins og fram hefur komið undanfarið er bannað að selja hverskonar mat, kökur, smákökur eða sultur, sem framleiddur er í óvottuðu eldhúsi og er það löggjöf um matvæli sem kveður á um slíkt.
Matís rekur Matarsmiðjur á nokkrum stöðum á landinu og eru öll eldhús Matarsmiðja Matís vottuð og með starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlit hvers svæðis.
Í Matarsmiðjum Matís býðst einstaklingum, frumkvöðlum og litlum fyrirtækjum tækifæri til að stunda vöruþróun og hefja smáframleiðslu á matvælum gegn vægu leigugjaldi. Þannig spara þeir sér fjárfestingu í dýrum tækjabúnaði strax í upphafi rekstrar. Með þessu gefst einstakt tækifæri til að prófa sig áfram bæði við framleiðsluna og á markaði. Sérstök áhersla er á uppbyggingu í tengslum við staðbundin matvæli og matarferðaþjónustu.
Matarsmiðjur Matís eru á Flúðum, á Höfn í Hornafirði og á Egilsstöðum. Nánari upplýsingar um Matarsmiðjur Matís má finna hér.