Á Íslandi má finna gífurlegar auðlindir í óspilltri og ómengaðir náttúru sem nýta má til matvælaframleiðslu. Í verkefninu Artic Bioeconomy var til dæmis unnið með þara í majónesi, súkkulaði og pasta. Ber, villtar jurtir, grænkál, gulrófur, rabarbari, sveppir og birki eru uppistaðan í nýstárlegum matvælum auk þess að gefa þekktum vörum nýjan keim.
Nýsköpun í matvælaiðnaði, þar sem vannýttar auðlindir koma við sögu hefur verið megin þema Artic Bioeconomy verkefnis sem lýkur í nóvember. Verkefnið er hluti af formennsku verkefni Ísland í Norrænu ráðherranefndinni. Matís leiðir verkefnið sem hefur nú ýtt rúmlega 30 hugmyndum úr vör og verða nýjar vörur kynntar þann 25. júní á ráðstefnu um lífhagkerfið sem fram fer á Selfossi. Vörurnar eru þróaðar af smáframleiðendum og einstaklingum á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.
Matís hefur verið þeim sem vilja fara nýjar leiðir í matvæla framleiðslu innan handar og hafa matarsmiður Matís leikið þar sérstaklega stórt hlutverk. Auk þess sem rannsóknir fyrirtækisins á lífvirkum efnum og auðgun sjávarrétta hefur aukið þekkingu á því hvernig auka megi hollustu þeirrar fæðu sem við neytum. Á sama tíma og mikilvægt er að finna og nýta nýjar auðlindir þarf einnig að huga að því hvort hægt sé að nýta afurðir sem oftast nær er hent, til matvælaframleiðslu. Í því skyni var til dæmis unnið með ærkjöt, rif úr nautakjöti, mysu og grjótkrabba.
Strandaber, krabbi og mysuklaki
Sem dæmi um nýjar vörur sem verða til sýnis má nefna Strandaber, en það er ný vörulína sem nýtir aðalbláber tínd í strandasýslu. Berin eru pressuð og nýtt í safa og hratið er nýtt sem hráefni fyrir boost eða þurrkað sem millimál. Engin rotvarnar-, litar- né sætuefni eru notuð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að íslensk aðalbláber innihalda meira af andoxunarefnum en innflutt ber.
Önnur spennandi matvara sem íslendingar hafa ekki vanist því að nýta er krabbinn. Nú verður vonandi breyting á því. Varan sem um ræðir er krabbakjöt sem hefur verið eldað og fryst, það er aðallega hugsað fyrir veitingastaði en kjötið má nota í krabbasalat, krabbakökur eða krabbaborgara.
Mysuklaki með berjum og jurtum er einnig ný afurð sem kynt verður á ráðstefnunni, en við gerð hans er horft til íslenskrar hefðar. Mysan sem er notuð er auka afurð skyrframleiðslu. Mysan var aðal svaladrykkur íslendinga fyrr á öldum hún hefur hinsvegar lotið í lægra haldi fyrir nýjum svaladrykkjum, en í þessu verkefni er hún nýtt í frískandi klaka fyrir börn og fullorðna.