Fréttir

„Bestun sjóflutninga á ferskum fiskflökum og -bitum“ og „Einangrun, vatnsrof og lífvirkni kollagens úr þorskroði“

Hvað eiga titlarnir hér að ofan sameiginlegt? Jú þetta eru efnistök tveggja fyrirlestra sem fram fara í dag og tengjast báðir Matís. Fyrirlestrarnir eru hluti af meistargráðu tveggja nemenda í matvælafræði við Háskóla Íslands.

MS fyrirlestur í matvælafræði
Dagný Björk Aðalsteinsdóttir

Matís, Stofa 312. Vínlandsleið 14 Reykjavík
3. október 2016 kl. 14:00-15:00

Einangrun, vatnsrof og lífvirkni kollagens úr þorskroði
“Isolation, hydrolysation and bioactive properties of collagen from cod skin”.


Markmið þessa verkefnisins má skipta upp í þrjú skref. Fyrsta skrefið var að finna aðferð til þess að einangra kollagen úr þorskroði með góðum heimtum, annað skrefið var að vatnsrjúfa kollagen með mismunandi ensímum til þess að fá sem hæst DH gildi og þriðja skrefið var að mæla lífvirkni kollagen peptíða. Markmiðið var að athuga hvaða áhrif mismunandi DH gildi höfðu á lífvirknina. Ensímin sem voru valin í vatnsrofið voru: Alcalase, Flavourzyme, Neutrase, Protamex, Tail-37 and TZ-02-L og lífvirknimælingarnar sem voru gerðar: ACE-inhibiting, elastase-inhibiting, Metal Chelating, ORAC and Reducing power.

Einangrunarskrefið var árangursríkt og kollagen var einangrað úr þorskroðinu með góðum heimtum. Kollagenið var vatnsrofið með mismunandi ensímum og tegund og hlutfall ensíma hafði áhrif á stig vatnsrofs og lífvirkni. Niðurstöðurnar sýndu fram á lág gildi í andoxunarmælingum en niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að kollagen úr þorskroði geti haft hamlandi áhrif á elastase og haft góð áhrif á húðina.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís í samstarfi við Codland með stuðningi frá Nordic Innovation.

Leiðbeinendur: Margrét Geirsdóttir MSc Matís og Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís.

Prófdómari: Þórhallur Ingi Halldórsson prófessor við matvæla- og næringarfræðideild

MS fyrirlestur í matvælafræði
Ásgeir Jónsson

Matís, Stofa 312. Vínlandsleið 14 Reykjavík
3. október 2016 kl. 15:00-16:00

Bestun sjóflutninga á ferskum fiskflökum og -bitum. Gæði og kostnaður
“Optimized Sea Transport of Fresh Fillets and Loins. Quality and Cost”.

Markmið þessa verkefnis er að greina þróun flutninga á ferskum flökum og bitum frá Íslandi undanfarin ár. Einnig að meta áhrif þess á gæði og geymsluþol þegar ferskri afurð er pakkað á hefðbundinn hátt í frauðkassa samanborið við að pakka henni í ískrapa í ker. Í síðasta lagi að bera saman umbúða- og flutningskostnað þessara tveggja pökkunaraðferða.

Niðurstöðurnar sýna að magn ferskra flaka og bita sem flutt er með skipum frá Íslandi tæplega sexfaldaðist frá 2004 til 2014. Árin 2013 og 2014 fór um 90% af þeim fersku flökum og bitum sem fluttir voru með skipum á tvo markaði; Bretland og Frakkland. Niðurstöður rannsókna sýna að sterk jákvæð tengsl eru milli lengra geymsluþols og þess að pakka afurð í ískrapa í ker samanborið við frauðkassa. Ískrapinn bætti einnig upp fyrir skort á forkælingu fyrir pökkun. Niðurstöður kostnaðargreiningar sýna að umtalsvert ódýrara er að pakka vöru í ker en frauðkassa. Þá er flutningskostnaðar einnig lægri í flestum tilvikum þegar ker eru borin saman við frauðkassa. Meira en helmingi lægri ef borinn er saman kostnaður við að flytja fullan gám af kerum annars vegar og 3 kg frauðkössum hins vegar. Sveigjanleikinn við notkun kera er þó mun minni og dregur það úr notkunarmöguleikum

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís í samstarfi við Sæplast, ThorIce,  Eimskip, Samskip og Sjávarútvegsklasa Vestfjarða með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Leiðbeinendur: Dr. Björn Margeirsson ráðgjafi Matís, Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís og Ögmundur Knútsson forseti viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Prófdómari: Daði Már Kristófersson prófessor og Forseti Félagsvísindasviðs HÍ.

IS