Gærdagurinn var að mörgu leyti áhugaverður í sögu Matís en þá var síðasti bændamarkaður á Hofsósi þetta sumarið, en markaðurinn var samstarfsverkefni bænda í Skagafirði og Matís og var verkefnið stutt fjárhagslega af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Auk þess var í fyrsta skipti, eftir því sem best er vitað, örslátrað kjöt selt beint til neytenda þar sem framleiðslan og viðskiptin eru að öllu leyti gagnsæ.
Afurð þessa verkefnis var, eins og fram kemur hér ofar, mjög vinsælir bændamarkaðir sem og heimasíðan, www.matarlandslagid.is en þar er bitakeðjutæknin (Blockchain) nýtt til að tryggja rekjanleika upplýsinga frá bændum til neytenda. Bitakeðjutæknin í Matarlandslaginu er samstarfsverkefni Advania og Matís.
Til þess að skoða og skilja betur þessa bitakeðjutækni þá má smella á Matarlandslagið –> uppi hægra megin, smella á „BÆNDAMARKAÐUR“ –> smella á „Opna yfirlitskort“ –> smella á „6. Birkihlíð“ vinstra megin á síðunni og á síðunni sem þá birtist má sjá grænan flipa með þessum upplýsingum.
Þegar kemur að rekjanleika og gagnsæi þá má klárlega segja að um byltingu sé að ræða hvað varðar upplýsingagjöf frá bændum til neytenda.
Heimir, Gulli og Þráinn fengu Svein Margeirsson, forstjóra Matís, í viðtal vegna þessa í Bítið á Bylgjunni og kom fram í máli Sveins að gera þarf ákveðnar breytingar á lögum til þess að bændur geti skapað aukin verðmæti, sjálfum sér og þjóðinni allri til heilla.