Fréttir

Bíttu í borgfirskan bita á Bræðslunni

Um helgina fer tónlistarhátíðin Bræðslan fram á Borgarfirði eystri, þar sem mat og menningu verður blandað saman á skemmtilegan máta í tengslum við verkefnið „Matur og menning á Borgarfirði eystri“. 

Markmiðið verkefnisins var að auka framboð veitinga á hátíðinni og styrkja um leið framgöngu borgfirskra matvæla og fengu smáframleiðendur á svæðinu stuðning við matvælasköpun frá Matís í tengslum við verkefnið.

Á hátíðinni mun gestum gefast mörg tækifæri til að prófa nýjar og gamlar uppskriftir af borgfirskum mat. Gestir á tjaldstæði verða boðnir velkomnir með heimagerðum lummum á föstudeginum og á meðan Pollapönk spilar verður krökkum boðið að koma og grilla sér marglitt „pollabrauð“. Landsátakið „Fiskídag“ (www.fiskidag.is) ásamt Fiskverkun Kalla Sveins munu standa fyrir fiskismakki við útimarkað Fjarðarborgar á laugardeginum. Að venju verður svo hægt að gæða sér á allskyns góðum réttum hjá Álfakaffi, Álfheimum og „Já sæll“ í Fjarðarborg.

Á laugardag verður einnig opinn markaður þar sem heimamenn kynna m.a. ýmiskonar matarhandverk og bjóða til sölu.

Verkefnið er samstarf Matís, Bræðslunnar, Framfarafélags Borgarfjarðar, Fiskverkunar Kalla Sveins ehf. og veitingaaðila á Borgarfirði eystri. Gestir Bræðslunnar eru sérstaklega hvattir til þess að kynna sér þessa nýbreytni og njóta þeirra matvæla sem kynnt verða á hátíðinni.  

Dagskrá Bræðslunnar 

IS