Fréttir

Bylting í mælingum á bragð- og lyktarefnum í matvælum

Matís í samstarfi við Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Sandgerði og ArcticMass fékk styrk úr Tækjasjóði Rannís árið 2012 til að festa kaup á gasskilju/massagreini (e. gas chromatograph/mass spectrometer, GC/MS).

Tækið sem kom í hús í byrjun febrúar er af gerðinni Shimadzu GCMS-QP2010 ULTRA og við hann er tengdur AOC-500 SMPE headspace sýnamatari. GC/MS nýtist einna helst við mælingar á minni og rokgjarnari efnum sem oft eru vatnsfælin.

Þetta tæki er það eina á landinu sem hefur SPME sýnamatara sem skapar Matís og samstarfsaðilum ákveðna sérstöðu og mun hann nýtast sérstaklega vel til greininga á m.a. bragð og lyktarefnum í matvælum. Önnur rannsóknarverkefni sem GC/MS tækið mun nýtast í eru mælingar á mengandi efnum í umhverfinu eins og fjölhringja arómatísk kolvatnsefni (PAH) og brómeruð eldvarnarefni (PBDE). Eins má greina byggingu fjölsykra m.t.t. tengjagerðar í matvælarannsóknum.

Nýtt GC/MS tæki leysir af hólmi gamlan og úreltan tækjabúnað ásamt því að auka greiningargetu með nútíma tækni og meiri næmni tækis. Nýtt tæki mun því skapa ný tækifæri í rannsóknum í framtíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

IS