Fréttir

CHILL ON fundur í Reykjavík

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 13. og 14. maí sl. var í Reykjavík haldinn vinnufundur í Evrópuverkefninu CHILL ON. Um var að ræða fyrsta fund verkþáttar 5 (“Integration and validation – field trials”). Sex starfsmenn frá Matís sátu fundinn enda kemur Matís til með að gegna veigamiklu hlutverki í verkþættinum, sem snýst í stuttu máli um prófun og aðlögun á tækninýjungum og lausnum sem þróaðar eru í verkefninu.

Markaðssvæði ESB er annar stærsti markaður í heimi fyrir fersk og frosin matvæli og viðskipti með kæld og frosin matvæli hafa aukist um meira en 10% á ári á undanförnum árum. Fiskur er í þriðja sæti af þeim matvælum sem mest er neytt af í Evrópu og vegna þess hve ferskur fiskur er viðkvæm vörutegund var ákveðið að rannsaka allt sem viðkemur gæðamálum og rekjanleika í birgðakeðju og flutningum með kældan og frystan fisk í verkefninu.

Í CHILL ON verkefninu verður jafnframt unnið að þróun sömu þátta fyrir kjúklingaafurðir og birgðaleiðir slíkra afurða til Evrópu. Má í þessu sambandi geta þess að frá Brasilíu eru t.d. flutt um 250 þús tonn árlega af kjúklingabringum til markaða í Evrópu. Þátttakendur í verkefninu koma bæði víða að frá Evrópu en einnig utan álfunnar, s.s. frá Kína og S-Ameríku.

Þetta fjögurra ára verkefnið er nú hálfnað og lýkur árið 2010.  Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Verkefnisstjóri í CHILL ON af hálfu Matís er María Guðjónsdóttir.

IS