Fréttir

Doktorsmenntuðu starfsfólki á Rf fjölgar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í síðustu viku fjölgaði í hópi þeirra starfsmanna Rf sem lokið hafa doktorsprófi, en þá varðiSigrún Guðmundsdóttir, líffræðingur á Rf, doktorsritgerð sína “Listeria monocytogenes, from humans, food and food processing plants in Iceland – Molecular typing, adhesion and virulence testing.”

Doktorsvörnin fór fram 16. júní í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Marie-Louise Danielsson-Tham, prófessor við Sveriges lantbruksuniversitet, SLU.

Ritgerð Sigrúnar fjallar um rannsóknir á bakteríunni Listeria monocytogenes í mönnum, matvælum og matvælavinnslum á Íslandi. Gerðar voru úttektir á vinnsluhúsum sem framleiða reyktan lax og soðna rækju og bakterían einangruð. L. monocytogenes – stofnarnir sem einangruðust voru týpugreindir með sameindafræðilegri aðferð sem nefnist pulsed-field gel electrophoresis (PFGE) og þeir bornir saman. Allir L. monocytogenes stofnar sem voru einangraðir úr fólki á árunum 1978-2000 voru einnig týpugreindir og bornir saman stofnana sem einangruðust úr matvælavinnslunum. Auk þess var skoðuð viðloðun og smithæfni valinna stofna.

Rannsóknirnar fóru fram á Rf. Leiðbeinendur Sigrúnar voru Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og Dr. Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd voru Dr. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, Dr. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, Dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við Háskólann á Akureyri og Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.

Sigrún Guðmundsdóttir fæddist árið 1966. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1986, BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1991 og MS-prófi frá Heriott-Watt University, Edinborg, Skotlandi árið 1992. Hún hefur starfað sem sérfræðingur á Rf frá árinu 1995 og hóf doktorsnám samhliða starfi sínu þar árið 2000.

IS