Fréttir

Doktorsvörn

Þann 16. júní 2006 kl. 13:00 mun Sigrún Guðmundsdóttir, líffræðingur á Rf, verja doktorsritgerð sína “Listeria monocytogenes, from humans, food and food processing plants in Iceland – Molecular typing, adhesion and virulence testing” í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Andmælendur verða dr. Bjarnheiður Guðmundsdóttir frá Háskóla Íslands og dr. Marie-Louise Danielsson-Tham, prófessor við Sveriges lantbruksuniversitet, SLU.

Ritgerðin Sigrúnar fjallar um rannsóknir á Listeria monocytogenes í mönnum, matvælum og matvælavinnslum á Íslandi. Gerðar voru úttektir á vinnsluhúsum sem framleiða reyktan lax og soðna rækju. L. monocytogenes stofnarnir sem voru einangraðir voru týpugreindir með sameindafræðilegri aðferð (PFGE) og þeir bornir saman. Einnig voru allir stofnar sem höfðu einangrast úr fólki týpugreindir og bornir saman við matvælastofnana. Auk þess var skoðuð viðloðun og smithæfni valinna stofna.

Leiðbeinendur Sigrúnar voru Már Kristjánsson smitsjúkdómalæknir og dr. Karl G. Kristinsson prófessor við HÍ og í doktorsnefnd voru dr. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ, dr. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir, dr. Hjörleifur Einarsson prófessor við HA og dr. Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Rf.

Sigrún Guðmundsdóttir er fædd árið 1966.  Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1986, BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1991 og MS-prófi frá Heriott-Watt University, Edinborg, Skotlandi árið 1992. Hún hefur verið sérfræðingur á Rf frá árinu 1995 og hóf doktorsnám við HÍ 2000.

IS