Fréttir

Draga á úr notkun plasts

Í anda almennrar stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar og áætlun umhverfisráðherra Norðurlandanna um að draga úr umhverfisáhrifum plasts var samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skipaður í nýliðnum júlímánuði.

Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri mæliþjónustu og rannsóknainnviða hjá Matís var skipuð eftir tilnefningu Matís í samráðsvettvanginn ásamt tilnefndum fulltrúum fjölmargra hagaðila. Hlutverk vettvangsins er að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plasts, hvernig megi bæta endurvinnslu þess og hvernig takast eigi á við plastmengun í hafi. Samráðsvettvangurinn á einnig að leggja fram tillögur um hverskonar rannsóknir og hvaða vöktun þurfi að ráðast í, varðandi plast og notkun þess, ásamt því að leggja fram tillögur varðandi stjórnvaldsaðgerðir sem gætu orðið æskilegar. Aukinheldur er samráðsvettvangnum ætlað að tæpa á því hvernig megi stuðla að nýsköpun sem leitt getur til minni plastnotkunar, s.s. með þróun á vörum sem gætu komið í stað fyrir þekktar plast vörur dagsins í dag.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um tillögu að viðauka við hina almennu stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun.  Viðaukinn felur í sér m.a. mælanleg árleg markmið um hámarks magn plastumbúða á íbúa, fjölda burðarplastpoka á íbúa, fjölda drykkjarvöru umbúða á íbúa og úrgangshlutfall við fisk og kjötvinnslu.

Hrönn er með doktorsgráðu í umhverfisefnafræði og hefur unnið að og stýrt rannsóknum á óæskilegum efnum í umhverfi og matvælum. Hrönn stýrir m.a. tilvísunarrannsóknarstofu Matís og er sérfræðingur í áhættumati varðandi efnamengun í matvælum og mun Hrönn leggja til sína sérfræðiþekkingu í umhverfismálum og rannsóknum á plasti í umhverfi ásamt áhættumati inn í vinnu samráðsvettvangsins sem áætlað er að ljúki störfum fyrir 1. nóvember 2018.

IS