Fréttir

Dregur mjög úr magni trans-fitusýra – nákvæmum fitusýrugreiningum lokið á Matís

Hjá Matís ohf hefur verið lokið við nákvæmar fitusýrugreiningar á 30 sýnum af matvælum á íslenskum markaði til samanburðar við eldri niðurstöður, en stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995.

Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var, en þó greindist talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af ákveðnum vörum. Í næringarráðleggingum er mælt með því að fólk borði eins lítið af trans-fitusýrum úr iðnaðarhráefni og hægt er. Einnig er mælt með því að takmarka neyslu á mettuðum fitusýrum. Með þessu móti er hægt að draga úr líkum á hjartasjúkdómum.

Greiningarnar voru að þessu sinni framkvæmdar með nýjum gasgreini Matís en hann býður upp á mjög nákvæmar greiningar. Greindar voru 46 fitusýrur og voru þar á meðal trans-fitusýrur en þær voru nú í fyrsta skipti greindar hjá Matís. Áður hefur þurft að senda sýni erlendis til greininga á trans-fitusýrum.

Fitusýrugreiningar voru gerðar á smjörlíki, bökunarvörum, kexi, ís, snakki, sælgæti og mat frá skyndibitastöðum. Sýnin voru tekin í júní 2008. Athugunin náði ekki til mjólkurvara og nautgripa- og lambaafurða sem innihalda lítið eitt af trans-fitusýrum frá náttúrunnar hendi. Ekki voru heldur tekin með ýmis matvæli sem innihalda jurtaolíur og því engar trans-fitusýrur en meðal þessara matvæla eru ýmis brauð og kökur.

Fyrir alla flokka framangreindra matvæla greindust a.m.k. sum sýnanna með litlu sem engu af trans-fitusýrum og er það mikil breyting frá því sem verið hefur. Til dæmis var nær ekkert af trans-fitusýrum í þeim tegundum af kexi sem teknar voru til skoðunar. Þetta sýnir að matvælaiðnaðurinn hefur fundið leiðir til að framleiða afurðir án trans-fitusýra. Það greindist þó talsvert af trans-fitusýrum í nokkrum sýnum af smjörlíki, bökunarvörum og ís. Ljóst er að framleiðendur geta endurbætt þessar vörur og losað þær við trans-fitusýrur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við það að víða erlendis hefur náðst góður árangur við að draga úr trans-fitusýrum í matvælum.

Stór rannsókn var gerð á fitusýrum í öllum flokkum matvæla á íslenskum markaði árið 1995. Niðurstöðurnar nú sýna að hlutfall trans-fitusýra fyrir nær öll matvælin er lægra en áður var. Í sumum tilfellum er breytingin mjög mikil, svo sem fyrir kex, Ljóma smjörlíki og franskar kartöflur.

Í meðfylgjandi töflu eru niðurstöður teknar saman fyrir flokka fitusýra. Taflan sýnir hlutföll fitusýra en ekki magn þeirra. Hlutfall trans fitusýra er í flestum tilfellum mjög lágt. Í Danmörku er hámarksgildi fyrir trans-fitusýrur úr iðnaðarhráefni 2% af öllum fitusýrum. Hlutfallið er undir þessum mörkum fyrir 17 sýni af 30. Önnur 7 sýni eru með trans-fitusýrur á bilinu 2-4,2%. Talsvert af trans fitusýrum greindist í 6 sýnum, um er að ræða smjörlíki, bökunarvörur og ís.

Ljóst er af niðurstöðunum að matvælaiðnaðurinn er í auknum mæli farinn að nota fullherta fitu án trans-fitusýra og fljótandi jurtaolíur í stað hálfhertrar fitu sem leiddi til þess að trans-fitusýrur voru í afurðunum. Á seinustu árum hafa orðið framfarir í herslu á fitu þannig að leitast er við að herða sem mest af ómettuðum fitusýrum (þar með töldum trans-fitusýrum) í mettaðar fitusýrur. Það er því ekki lengur hægt að draga þá ályktun að trans-fitusýrur séu í matvælum þegar hert fita er tilgreind í innihaldslýsingunni. Aftur á móti er ljóst að trans fitusýrur er að finna þegar merkt er hálfhert fita eða fita hert að hluta (partially hydrogenated). Það er galli við notkun á fullhertri fitu að hún leggur til mettaðar fitusýrur en það er ótvíræður kostur að trans-fitusýrurnar eru ekki lengur til staðar. Notkun á jurtaolíum er að því leyti heppilegri að þær innihalda mikið af einómettuðum og fjölómettuðum fitusýrum.

Niðurstöðurnar sýna að jurtaolíur eru notaðar í sumar bökunarvörur, borðsmjörlíki, kartöflusnakk og mat frá skyndibitastöðum. Af innihaldslýsingum er einnig ljóst að mikið er farið að nota jurtaolíur í brauð og kökur. Það á þó ekki við um allar bökunarvörur, af öllum sýnum mældist mest af trans fitusýrum í kleinum. Úr þessu er hægt að bæta með því að velja steikingarfitu án trans fitusýra.

Smellið hér til að skoða töflu með niðurstöðum fitusýrugreininga á matvælum á íslenskum markaði í júní 2008.

IS