Fréttir

Efling menntunar og starfsþjálfunar í matvælaframleiðslu

„Með sviði um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri.

Styrkir bæði Matís og matvælafyrirtækin

Guðjón segir að með samstarfi við menntastofnanir og starfsþjálfun sé Matís að fylgja eftir áherslum á rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

„Önnur aðalástæða samstarfsins er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Hin ástæðan, og sú sem skiptir Matís og matvælafyrirtækin miklu máli, er að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknarverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að hafa fengið fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem einnig nýtast í sama tilgangi,“ segir Guðjón.

Kennsluþátturinn þegar orðinn umfangsmikill

Þrátt fyrir að kennsla, starfsfræðsla og leiðsögn nemenda í rannsóknanámi hafi til þessa ekki verið á föstu og skipulögðu formi sem svið innan Matís segir Guðjón umfang þessara þátta mjög mikið.

„Starfmenn Matís kenna á um 25 námskeiðum í grunn- og framhaldsnámi og hafa umsjón með flestum þeirra. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið. Við erum í góðu samstarfi og með sameiginlega starfsmenn með Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Samstarfið við Háskóla Íslands er mest við matvæla- og næringarfræðideild en einnig mikið við verkfræði- og náttúruvísindasvið og félagsvísindasvið. Matís vinnur mikið með viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri og þá helst í fiskeldi og sjávarútvegsfræðum. Vegna fyrri starfa og rannsókna hef ég mikinn hug á að endurvekja og efla samstarfið við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þá eru Háskólinn á Hólum og Matís í sameiginlegu húsnæði í Verinu á Sauðárkróki og vinna saman að mörgum verkefnum.

Allir þessir aðilar hafa unnið að verkefni við að koma á alþjóðlegu meistaranámi í matvælafræðum í tengslum við matvælaiðnaðinn í landinu. Þetta nám hefur verið leitt af Matís og Háskóla Íslands og hófu 12 nemendur námið haustið 2012 og hefur orðið enn frekari fjölgun síðan,“ segir Guðjón en stærstur hluti kennslunnar er hjá Matís í Reykjavík en kennsla fer einnig fram á Akureyri. Í tengslum við námið voru tveir sérfræðingar Matís, þau Hörður G. Kristinsson og Helga Gunnlaugsdóttir, skipuð gestaprófessorar við Háskóla Íslands.

„Ég hef fulla trú á að alþjóðlega meistaranámið eflist og verði mjög áberandi á næstu árum. Samstarf um aðrar greinar verður líka eflt. Verkefni okkar verður líka að tengja iðnnám, tæknifræðinám og annað háskólanám sem tengist matvælum við atvinnulífið. Einnig þurfum við að vinna að eflingu starfsnáms/starfsendurhæfingar tengdu matvælum með áherslu á smáframleiðslu matvæla og samstarf við Beint frá býli,“ segir Guðjón.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón hjá Matís.

IS