Fréttir

Eitt verkefna Matís vekur athygli hjá framkvæmdastjórn ESB

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís gegnir forystuhlutverki í umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem vakið hefur athygli innan framkvæmdastjórnar ESB og hefur verkefnið, sem kallast Amylomics, verið valið eitt þeirra verkefna sem standa upp úr öllum þeim fjölda sem framkvæmdastjórnin styrkir ár hvert (Sucess story).

Amylomics verkefnið mun hagnýta fjölbreytt lífríki jarðhitasvæða á Íslandi við að þróa hitaþolin ensím til notkunar í sterkju- og sykruiðnaði. Hita- og sýruþol eru nauðsynlegir eiginleikar í slíkum iðnaðarferlum en þessa eiginleika má finna í ensímum lífvera á hverasvæðum.

Líftækniverkefnið Amylomics er hugmynd sérfræðinga Matís og Ísland verður að miklu leyti vettvangur þess. Fjölbreytileiki jarðhitasvæða á Íslandi er einstakur og mikil sérfræðiþekking á lífríki þeirra er til staðar hjá Matís. Verkefnið byggist á því að þróa tækni til að nýta þessa sérstöku íslensku erfðauppsprettu, framleiða ensím með ákveðna og mikilvæga eiginleika og kanna möguleika til að nýta enímin á ýmsum sviðum efna- og matvælaiðnaðar.

Meðal þátttakenda í Amylomics er franska fyrirtækið Roquette Frères , sem er eitt hið stærsta í Evrópu í framleiðslu sterkju og afleiddra afurða, með ársveltu upp á um 7 milljarða evra. Roquette Frères fær ensím, sem þróuð verða í verkefninu, til prófunar og nýsköpunar í framleiðslu sinni.

Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri Amylomics, og veitir hann allar nánari upplýsingar.

Upplýsingar um verkefnið má auk þess finna á vef framkvæmdastjórnar ESB

IS