Ekki nóg með að nöfn þessara eininga séu keimlík heldur er umfjöllunarefni þeirra að mörgu leyti það sama; matur! Það er því alls ekki skrýtið að fólk ruglist. Og til að bæta gráu ofan á svart þá eru þau með aðsetur eða útibú á nánast sama svæðinu í Reykjavík.
MAST (Matvælastofnun): Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Staðsetning: Selfoss, umdæmi dýrlækna á landsvísu og að Stórhöfða 23. Heimasíða: www.mast.is
Matvís: MATVÍS er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, þ.e.a.s. bakara, kökugerðarmanna, framreiðslumanna, kjötiðnaðarmanna, matreiðslumanna, nema og annarra sem starfa við framreiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum og félagið ákveður að veita viðtöku. Staðsetning: Stórhöfða 31. Heimasíða: www.matvis.is
Matís (Matvælarannsóknir Íslands): Matís er þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Matís gegnir engu eftirlitshlutverki. Staðsetning: Vínlandsleið 12 og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Heimasíða: www.matis.is