Út er komin bókin „Renewable Economies in the Arctic“ sem fjallar um endurnýjanleg hagkerfi á heimskautasvæðum. Starfsfólk Matís, þau Ólafur Reykdal, Rakel Halldórsdóttir, Óli Þór Hilmarsson, Gunnar Þórðarson og Þóra Valsdóttir eiga þátt í einum kafla bókarinnar sem fjallar um matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum.
Í bókinni eru dregin fram sjónarhorn sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum, svo sem hagfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og matvælafræði, þegar kemur að endurnýjanlegum hagkerfum. Sjónarmiðin varpa ljósi á þær sérstöku áskoranir sem heimskautasvæði standa frammi fyrir en jafnframt á tækifærin sem eru fyrir hendi til þess að nýta sjálfbærar auðlindir og blása þannig lífi í hagkerfi svæðanna.
Starfsfólk Matís var meðal höfunda að kaflanum „the Arctic as a food-producing region” sem snýr að matvælaframleiðslu á heimskautasvæðum en þar er fjallað í stuttu máli um Ísland, Norður-Noreg og Norður-Kanada. Vert er að geta sérstaklega um kafla þar sem fjallað er um það hvernig hægt væri að ná auknu virði matvæla frá heimskautasvæðum Noregs með markvissri markaðssetningu. Byggt er á ítarlegri rannsókn sem hafa mætti til hliðsjónar á Íslandi.
Hægt er að nálgast bókina og einstaka kafla hennar í opnum aðgangi hér: Renewable Economies in the Arctic