Fréttir

Endurskoðun ársreiknings Matís er athugasemdalaus enn eitt árið

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú fyrir stuttu skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu vegna endurskoðunar á ársreikningi Matís fyrir árið 2015. Skemmst er frá því að skýrslan er athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar.

Í viðbót við hefðbundna endurskoðun eins og lög gera ráð fyrir var framkvæmd áhættugreining fyrir reikningsskilin og gerð greining á rekstri og efnahag ársins 2015 og í ljós kom að innra eftirlit Matis hvað varðar ársreikninginn er gott.

Unnið er að bókhaldsferlum og verklagsreglum í samvinnu við Ríkisendurskoðun og er það félaginu mikið keppikefli að reksturinn sé með þeim hætti að ekki séu gerðar athugasemdir hvorki hjá úttektaraðilum hér innanlands né erlendum aðilum sem taka félagið út vegna samstarfsverkefna. Heilindi skipta stjórnendur og starfsmenn miklu máli, hvort sem um er að ræða heilindi í vísindastarfi og rannsóknum eða heilindi þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri stjórnun Matís.

Stjórn félagsins fylgist auk þess reglulega með afkomunni og eru milliuppgjör unnin reglulega allt árið.

Eins og áður sagði var endurskoðunin athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar. Í vor fór fram umfangsmikil endurskoðun frá Evrópusambandinu er lýtur að öllu fjárhagslegu utanumhaldi Matís þegar kemur að verkefnum sem félagið hefur stýrt innan ramma rannsóknaáætlana Evrópu (FP7). Sú endurskoðun var einngi athugasemdalaus.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Kolbeinsson, fjármálastjóri Matís.